„Ég er svo hrædd og svo þreytt, svo ofboðslega þreytt. Ég er svo stressuð yfir því að eitthvað komi fyrir barnið mitt,“ sagði albanska konan sem íslensk stjórnvöld fluttu úr landi í gær, þvert á ráðleggingar læknis á kvennadeild Landspítala. Konan ræddi stuttlega við Stundina en hún var þá að yfirgefa spítala eftir að hafa verið lögð þar inn tímabundið vegna sterkra samdrátta. Óttast var að fæðing myndi fara af stað og var starfsfólk sjúkrahússins tilbúið að takast á við fyrirburafæðingu. Afþví varð sem betur fer ekki.
Tveggja ára drengurinn skelfdur og hrekkur upp af svefni
Konan sagði að hún og fjölskyldan öll sé miður sín og dauðuppgefin eftir ferðalagið. Þannig sé tveggja ára sonur hennar skelfdur, hann sé þreyttur en eigi samt erfitt með að sofa og hrökkvi reglulega upp, augljóslega hræddur. Hann hafi lítið viljað nærast og hún hafi miklar áhyggjur af líðan hans en einnig hvernig brottflutningurinn og staða mála muni hafa áhrif á andlega hlið drengsins til lengri tíma.
Konan sagði að hún sjálf væri mjög aum, hún finndi mikið til, einkum í baki og mjaðmagrind en í vottorði læknis á kvennadeild Landspítala kom einmitt fram að konan væri „slæm af stoðkerfisverkjum í baki og ætti erfitt með langt flug.“. Þá væri hún mjög stressuð og að blóðþrýstingur hennar hefði mælst hár á spítalanum. „Við erum að fara til vinafólks þar sem við fáum að vera í nótt en við þurfum að fara á milli staða,“ sagði konan.
„Ég er svo stressuð yfir því að eitthvað komi fyrir barnið mitt“
Konan sagði að hún væri óttaslegin, fjölskyldan óttaðist um öryggi sitt í Albaníu og hún ætti þá von helsta í brjósti að þau fengju að snúa aftur til Íslands. Hún sagði að hún vissi ekki betur en að mál þeirra væri enn í vinnslu á Íslandi og hún skyldi því ekki ákvörðunina um að vísa þeim úr landi í gær, hún væri bæði sár og reið yfir því, sérstaklega í ljósi þess að hún væri komin 36 vikur á leið.
Athugasemdir