Ég er uppalin í grónu hverfi á milli einhverra ljótustu svæða í borginni. Handan vinjarinnar í Laugardalnum gín eyðiland Skeifunnar við okkur. Og hinum megin við hornið gapir Borgartúnið grátt og vindasamt.
Borgartúnið var alltaf einskismannslandið sem skildi hverfið, iðandi af krökkum, frá miðbænum, þar sem allt sem var spennandi gerðist. Leikhús, bíó, líf, fólk í skrýtnum fötum. Til þess að komast í bæinn fórum við um Borgartún.
Einu skiptin sem við nálguðumst grámóskulega götuna, með eilífum mótvindi, með annað en leiða í hjarta, var á öskudaginn. Þá gengum við á vinnustaði, í fyrirtæki. Sungum veikum röddum fyrir skærlitt sælgæti. Lögðum eins lítið á okkur og hægt var, sungum Gamla Nóa í þrítugasta skiptið.
Í vikunni gengu tvær konur um Borgartún og heimsóttu fyrirtækin sem mörg hver eru líklega þau sömu og þegar ég raulaði um þennan seinheppna fulltrúa feðraveldisins á sínum tíma. Þær voru þó ekki komnar til þess að biðja um skærlitt sælgæti í poka, heldur til að bjóða starfsfólki fyrirtækja við Borgartún skærlita fána í tilefni heimsóknar Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, sem alræmdur er fyrir fordóma sína gagnvart hinsegin fólki.
Þetta, eftir að Advania Ísland hafði dregið fána fjölbreytileikans að húni í beinni sjónlínu valdamanna í Höfða – já, og leyniskyttnanna. Myndirnar bárust hver á fætur annarri, af gleðiröndóttum fánum við gráustu götu borgarinnar. Enginn starfsmaður þeirra fyrirtækja sem Katrín Oddsdóttir og Tótla I. Sæmundsdóttir heimsóttu afþakkaði fána.
Ég bý aftur í sama hverfi og ég gerði þegar ég var lítil. Hjóla aftur um Borgartúnið á hverjum degi. Það verður aldrei framar grátt í mínum augum. Landslagið hefur breyst. Og það er okkar að muna að við getum, og okkur ber skylda til, að rækta gráu svæðin. Rækta eyðilandið, einna helst þegar það er víggirt og lokað, þegar gammarnir voma yfir því. Jafnvel þá geta þar sprottið marglit blóm.
Athugasemdir