Fyrr í dag var birt mynd af starfsmanni Domino‘s pítsa í Facebook hópnum Vesturbærinn og hann vændur um grundamlega hegðun í samhengi við stuld á reiðhjólum. Sá sem birti myndina segir að það hafi hann gert að beiðni manns að nafni Bjartmars Leósonar, en sá var í morgun í viðtali í Fréttablaðinu þar sem fjallað var um sjálfskipaða baráttu hans við að finna stolin reiðhjól. Mikil umræða hefur orðið síðustu vikur um tíða reiðhjólaþjófnaði í Vesturbæ.
„2 tilfelli í Vesturbæ þar sem pizzasendill mætir og hagar sér grunsamlega. Sniglast kringum húsin og daginn eftir eru hjól horfin,“ segir við myndina og er þar um að ræða skilaboð frá Bjartmari þessum. Engar sannanir eru settar fram um að umræddur pítsasendill eigi hlut að máli varðandi hvarf hjólanna.
Berglind Jónsdóttir, markaðsfulltrúi Domino‘s hefur gert athugasemd við færsluna þar sem hún segir að ekkert bendi til að pítsasendillinn, sem sé traustur starfsmaður fyrirtækisins, tengist hjólastuldi á nokkurn hátt. Starfsmaðurinn sé nú að leit réttar síns vegna málsins.
„Við hjá Domino's skoðuðum málið strax enda lítum við það sérstaklega alvarlegum augum þegar birtar eru myndir af starfsfólki okkar og það sakað um þjófnað.
Sendillinn sem um ræðir og sýndur er á myndinni er traustur starfsmaður okkar sem skiljanlega er ekki sama um að vera myndbirtur og sakaður um þjófnað. Hann er nú að leita réttar síns vegna málsins.
Við tökum svona ábendingum að sjálfsögðu alvarlega en í þessu tiltekna máli er ekkert sem bendir til þess að þessi sending og hjólastuldurinn tengist á nokkurn hátt,“ segir í athugasemd Berglindar.
Athugasemdir