„Það er í rauninni mjög metnaðarfullt að að setja markið á 2040, því aðrar þjóðir eru að miða við árið 2050.“
Þetta segir Halldór Þorgeirsson, formaður loftslagsráðs, í samtali við Stundina aðspurður hvort honum þyki markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi nægilega metnaðarfull. „Aðalatriðið er að stefna að kolefnishlutleysi. Dagsetningin sjálf er spurning um hraðann á þessu og Ísland stefnir á að gera þetta fyrr en aðrar þjóðir.“
Varað við veiku hlutverki
Samkvæmt upplýsingum á vef stjórnarráðsins hefur loftslagsráð það meginhlutverk að veita stjórnvöldum aðhald með markvissri ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir sem tengjast loftslagsmálum á Íslandi. Á vef stjórnarráðsins segir meðal annars:„Helstu viðfangsefni ráðsins snúa að aðgerðum til að draga úr losun og auka bindingu gróðurhúsalofttegunda, eflingu viðnámsþols gagnvart afleiðingum veðurfarsbreytinga og að styrkja almenna vitund um loftslagsmál og aðgerðir til að sporna gegn þeim.“
Þegar frumvarp umhverfisráðherra til breytinga á lögum um loftslagsmál var til meðferðar á Alþingi í vor vöruðu Náttúruverndarsamtök Íslands við því að hlutverk loftslagsráðs yrði of takmarkað og ekki í takt við það veigamikla aðhaldshlutverk sem lagt var upp með í þingsályktun um stofnun þess árið 2016.
Hittast mánaðarlega en ekki í sumar
Halldór, formaður ráðsins, viðurkennir í samtali við Stundina að talsvert vanti upp á að ráðið geti sinnt fullnægjandi fræðslustörfum, enda sé starfsemi þess mjög undirmönnuð. „Við erum með hálfan starfsmann,“ segir hann.
Ráðið hittist almennt einu sinni í mánuði og „hálfi starfsmaðurinn“ er ritari ráðsins. Ráðið hefur ekki fundað síðan 5. júní síðastliðinn og mun ekki hittast í júlí og ágúst. „Það er svo erfitt að ná fólki saman á þeim tíma,“ segir Halldór.
Athugasemdir