Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 5 árum.

„Birgitta er ekki þolandi heldur gerandi“

Sara Elísa Þórð­ar­dótt­ir, vara­þing­kona Pírata, seg­ir í við­tali við Stund­ina að Birgitta Jóns­dótt­ir hafi kom­ið óheið­ar­lega fram við sam­starfs­fólk og beitt and­legu of­beldi. „Við höf­um alltof lengi ver­ið með­virk gagn­vart henni. Það var ein­fald­lega kom­ið nóg.“

Sara Elísa Þórðardóttir, varaþingkona Pírata, segir að Birgitta Jónsdóttir hafi beitt samstarfsfólk andlegu ofbeldi og tekur undir lýsingar Helga Hrafns Gunnarssonar á samskiptaháttum hennar. Hún telur að það hafi löngu verið orðið tímabært að þingmenn upplýstu grasrótina um framkomuna.

„Ef það er eitthvað sem ætti að gagnrýna er það að við skyldum ekki gera þetta fyrir lifandi löngu,“ segir Sara í samtali við Stundina. „Hvort sem þú stofnar hljómsveit, fjölskyldu eða stjórnmálaflokk, þá gefur það þér engan rétt til að beita meðlimi alvarlegu andlegu ofbeldi. Birgitta Jónsdóttir er ekki þolandinn í þessu máli. Hún er gerandinn.“

Undanfarna daga hafa fjölmiðlar fjallað um átakafund Pírata þar sem tilnefningu Birgittu Jónsdóttur í trúnaðarráð flokksins var hafnað með 55 af 68 greiddum atkvæðum. Þingmenn flokksins beittu sér gegn skipun Birgittu í trúnaðarráðið og hefur ræða Helga Hrafns Gunnarssonar vakið mikla athygli, þar sem hann lýsti áralangri reynslu sinni af því að vinna með Birgittu, fyrrverandi formanni Pírata og eins af stofnendum flokksins. 

Stundin hafði samband við Birgittu sem vildi ekki tjá sig um málið.

Mikilvæg fyrirmynd og síðar vinkona

Sara segir að Birgitta hafi ýmsa kosti og henni þyki vænt um margt í fari hennar. Upphaflega hafi Birgitta verið henni mikilvæg fyrirmynd.

„Ég leit upp til hennar úr fjarlægð. Hún er í raun ein af ástæðum þess að ég byrjaði í aktívisma og svo í stjórnmálum. Hún var með allt annað yfirbragð en stjórnmálafólk almennt. Seinna varð hún samstarfskona mín og loks náin vinkona. 

Urðu vinkonur„Mér fannst ég heppin að eiga hana að og þótti óskaplega vænt um hana.“

Ég var vöruð við Birgittu en kippti mér ekki upp við það. Hún gaf oft af sér, var skemmtileg og hnyttin. Stundum snöggreiddist hún en baðst svo afsökunar á framkomu sinni í kjölfarið. Hún gaf okkur mæðgum leikhúsmiða og gat sýnt kærleik og hlýju, mætti á opnanir hjá mér og studdi mig í myndlistinni. Hún virtist alveg frábær. Mér fannst ég heppin að eiga hana að og þótti óskaplega vænt um hana.“

Eftir því sem Sara kynntist Birgittu betur segir hún dekkri hliðar hafa komið í ljós. „Við fórum til dæmis saman á ráðstefnu erlendis og þar birtust karaktereinkenni sem manni leist ekki á. En maður sætti sig bara við að hún væri hörð í horn að taka, sá í gegnum fingur sér með það og hugsaði: já gott og vel, þetta er kannski það sem hún hefur þurft til að komast áfram.“

„Gerði markvisst lítið úr samstarfsfólki“

Sara kom fyrst inn á þing sem varaþingmaður Pírata í Suðvesturkjördæmi í mars 2017 og þekkir vel til samstarfsörðugleikanna innan þingflokksins á síðasta kjörtímabili. 

„Þegar Birgitta gekk inn á þingflokksfundi þá breyttist andrúmsloftið og varð einhvern veginn óþægilegt. Ef samstarfsfólk stóð sig vel, ef eitthvað vakti athygli í fjölmiðlum, þá ýmist gagnrýndi hún það og sagði að í raun væri þetta ömurlegt eða þá að hún reyndi að eigna sér afrekin, sagði að þetta hefði allt verið hennar hugmynd, hún hefði sjálf „hannað atburðarásina“.

Þetta var alltaf svona. Hún gat aldrei unað samherjum sínum að þeim gengi vel eða fengju hrós fyrir það sem vel var gert, hún bara þoldi það ekki og gerði markvisst lítið úr samstarfsfólki. Sagði til dæmis að þessi eða hinn væri svo veikgeðja, það mætti ekki setja þennan eða hinn í framlínuna af því hann myndi ekki þola það. Hún virtist vilja að hinir þingmenn Pírata létu lítið fyrir sér fara meðan hún léti ljós sitt skína.

„Svo sá maður með tímanum að þetta 
var spilið sem hún spilaði við alla“

Það var mikið um niðurrif af hennar hálfu, og það sem ekki síður eitraði út frá sér: endurtekin trúnaðarbrot. Hún sagði manni hluti sem maður vissi alveg að hún ætti ekki að vera að segja manni. Ef einhver í þingflokknum trúði henni fyrir einhverju þá kom fyrir að það fréttist til næsta manns. Svo sá maður með tímanum að þetta var spilið sem hún spilaði við alla.

Svona deildi hún og drottnaði, það er nákvæmlega það sem hún var að gera. Skapaði misklíð milli fólks í kringum sig til að upphefja sjálfa sig, alandi á tortryggni og vantrausti okkar hinna hvoru gagnvart öðru um leið og hún stillti sjálfri sér upp sem mannasætti. Og ef hún skynjaði að kastljósið væri ekki nægilega á sjálfri sér þá spilaði hún sig sem fórnarlamb.“

Lýsing Söru er í takt við ræðuna sem Helgi Hrafn flutti á fundinum fyrr í vikunni. „Ég treysti henni ekki til þess að halda trúnað. Hún býr til ósætti frekar en sætti, algerlega ófeimin við það og stærir sig af því,“ sagði hann. „Hún grefur undan samherjum sínum þegar hún sér af þeim ógn. Hún hótar samherjum sínum þegar hún fær ekki það sem hún vill og gerir lítið úr vinnu þeirra, jafnvel sérstaklega þegar þeim gengur vel. Þetta er mín áralanga reynsla af því að vinna með Birgittu Jónsdóttur.“

Erfið ferð á ráðstefnu

Sara segir að mælirinn hafi fyllst þegar hún fór með Birgittu á ráðstefnu í Austur-Evrópu árið 2018.

„Þarna kynntist ég hlið á Birgittu sem mér rennur kalt vatn milli skinns og hörunds við að rifja upp. Það tók mig töluverðan tíma að jafna mig eftir þá ferð. Til að undirstrika það get ég nefnt að þegar að flugvélin lenti aftur á Íslandi lofaði ég sjálfri mér að Birgitta fengi aldrei nokkurn tímann aftur aðgang að mínu lífi.

Vandinn við andlegt ofbeldi er að oft er svo erfitt að setja fingurinn á það, hvað það nákvæmlega er. Framkoman var niðurbrjótandi, þegar hún var pirruð eða reið eða ósammála talaði hún til manns eins og maður væri fimm ára. Hún fór ítrekað í fýlu, var stjórnsöm og vildi ráða öllu.

„Í ferðinni upplifði maður stanslaust niðurrif og persónuárásir“

Ef maður gerði ekki strax nákvæmlega það sem hún krafðist, og með bros á vör, þá mætti manni þung og djúp fýla, vandlæting og reiði. Það átti allt að snúast um hana. Hún hélt fyrirlestur á málþinginu og eftir það reiddist hún okkur fyrir að hafa ekki gefið henni að borða. Í ferðinni upplifði maður stanslaust niðurrif og persónuárásir. Það voru mistök að fara í þessa ferð.“

Þingmönnum brugðið vegna boðaðrar endurkomu

Söru finnst Helgi Hrafn hafa lýst samskiptaháttum Birgittu vel á fundinum. „Í raun fór hann mildum orðum um hana miðað við allt sem á undan er gengið. Hann kom til dæmis inn á það að hún stæri sig af því að efna til ósættis, og ég kannast vel við þetta. Í upphafi okkar samskipta var hún oft að segja sögur af framferði sínu gagnvart öðrum og afleiðingunum af því. Ég túlkaði það fyrst þannig að þetta lægi svo þungt á henni, hún væri með samviskubit yfir því að hafa valdið öðrum vanlíðan og væri þess vegna að opna sig. En svo, eftir því sem leið á, þá áttaði ég mig á að hún var að stæra sig af því að vera svona valdamikil, að geta kengbeygt aðrar manneskjur.“

Sara segir að þingmönnum og fólki sem starfað hefur með Birgittu í flokknum hafi brugðið þegar fregnir bárust af því að hún vildi sitja í trúnaðarráði flokksins. Það hafi verið af illri nauðsyn sem þingmenn stigu fram og vöruðu við því. „Við héldum að við þyrftum aldrei að gera þetta. Við héldum að hún væri farin úr flokknum, að hún myndi ekki vinna meiri skaða. Þetta er eitthvað sem maður vill aldrei þurfa að gera, hvað þá gagnvart einhverjum sem stofnaði flokkinn og einhverjum sem var okkur mörgum fyrirmynd og vinur í lengri tíma. En við höfum alltof lengi verið meðvirk gagnvart henni. Það var einfaldlega komið nóg.“

Kjósa
1
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Stjórnmálaflokkar

Fóru í boðsferð til Krímskaga á Pútínráðstefnu
FréttirStjórnmálaflokkar

Fóru í boðs­ferð til Krímskaga á Pútín­ráð­stefnu

Birgitta Jóns­dótt­ir, stjórn­ar­formað­ur IMMI, og Sara Elísa Þórð­ar­dótt­ir, vara­þing­kona Pírata, fóru á áróð­urs­ráð­stefnu sem er fjár­mögn­uð af rúss­nesk­um yf­ir­völd­um. „Ég er ekki sér­stak­ur stuðn­ings­mað­ur Rússa, Kína, Banda­ríkj­anna né annarra stór­velda og gagn­rýni þau öll við hvert tæki­færi, líka þarna,“ seg­ir Birgitta.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár