Hávær hvellur heyrðist frá endurvinnslunni Hringrás í Klettagörðum laust fyrir klukkan eitt í dag. Að sögn starfsmanns er ekki vitað hvað olli sprengihljóðinu.
Starfsmaður sem Stundin ræddi við segir að enginn hafi slasast og engin tæki orðið fyrir skaða. Hvellurinn hafi líklega komið við notkun á pressu, en hann hafi verið óvenjulega hávær. Reglulega komi sprengihljóð frá endurvinnslunni þegar dekk eru klippt. Þetta hafi hins vegar verið óvenju hátt, en enginn eldur hafi kviknað.
Að sögn starfsmannsins var sá aðili sem vann við pressuna með heyrnarhlífar. Honum hafi brugðið eins og öðrum, en að öðru leyti hafi allt farið vel.
Athugasemdir