Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 5 árum.

Eldum rétt samdi við Menn í vinnu: „Áttu að vera með allt upp á tíu“ – Stefnt vegna meintrar nauðungarvinnu

Fyr­ir­tæk­ið Eld­um rétt samdi við Menn í vinnu og taldi að starfs­manna­leig­an hefði „unn­ið heima­vinn­una sína“ eft­ir óþægi­lega fjöl­miðlaum­fjöll­un. Nú hafa fjór­ir Rúm­en­ar stefnt báð­um fyr­ir­tækj­um, en mál­ið snýst um van­greidd laun og meinta nauð­ung­ar­vinnu.

Eldum rétt samdi við Menn í vinnu: „Áttu að vera með allt upp á tíu“ – Stefnt vegna meintrar nauðungarvinnu
Ill meðferð Stöð 2 fjallaði um aðstæður Rúmena sem unnu hjá starfsmannaleigunni Mönnum í vinnu fyrr á árinu, en áður hafði Kveikur fjallað um málefnið. Mynd: Skjáskot úr fréttum Stöðvar 2

Fjórir Rúmenar hafa stefnt starfsmannaleigunni MIV ehf. og fyrrverandi og núverandi stjórnendum og hluthöfum hennar til greiðslu skaða- og miskabóta vegna meintrar nauðungarvinnu, vanvirðandi meðferðar og vangreiddra launa.

Þá er fyrirtækinu Eldum rétt stefnt samkvæmt ákvæði í lögum um starfsmannaleigur um að notendafyrirtæki beri óskipta ábyrgð á grundvelli þjónustusamnings á vangoldnum lágmarkslaunum sem og öðrum vangreiðslum vegna starfsmanna starfsmannaleigu. Fram kemur í stefnunni að Eldum rétt hafi verið send kröfubréf vegna málsins þann 17. apríl 2019 en fyrirtækið hafnað kröfunum.

Segja Menn í vinnu hafa nýtt sér veika stöðu sína

Rúmensku ríkisborgararnir komu til Íslands á vegum MIV ehf. (sem áður hét Menn í vinnu ehf.) í ársbyrjun og dvöldu í iðnaðarhúsnæði í Kópavogi. Fjallað var talsvert um málið í fjölmiðlum eftir að ASÍ hafði kallað saman fulltrúa Vinnueftirlitsins, Vinnumálastofnunar, ríkisskattstjóra og lögreglu vegna ástandsins.

„Tugir starfsmanna frá Rúmeníu hírast í herbergjum, allt að tíu saman, en borga þó fimmtíu þúsund krónur á mánuði fyrir,“ segir í tilkynningu sem Efling gaf út 8. febrúar. „Í ráðningarsamningi frá fyrirtækinu sem Efling-stéttarfélag hefur undir höndum er klausa sem segir að undirritaður skuldi leigu sem Menn í vinnu megi draga frá launum, án þess að upphæð eða nokkurs konar leiguvernd sé tiltekin.“

Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku en Rúmenarnir segja MIV ehf. hafa boðið sér vinnu á fölskum forsendum og nýtt sér bágindi þeirra og fákunnáttu á íslenskum lögum. Gerður hafi verið ráðningarsamningur þar sem áskilinn var ólögmætur, óhóflegur og ósanngjarn réttur til frádráttar af launagreiðslum. Lagðir eru fram launaseðlar, reikningsyfirlit og önnur gögn þessu til stuðnings og krefjast stefnendur hver um sig um 1,7 milljóna króna vegna tjónsins.

„Stefnendur lögðu mikið á sig til þess að flytja frá sínum heimilum og fjölskyldum og hefja störf hér á landi og hafa hlotið óbætanlegt tjón þar af,“ segir í stefnunni sem Stundin hefur undir höndum, en Réttur lögmannsstofa fer með málið.

Vill gera upp við Rúmenanna með sanngjörnum hætti

Eldum rétt, fyrirtæki sem býður viðskiptavinum upp á reglulega heimsendingu á hráefnum og mataruppskriftum, leigði starfsframlag Rúmenanna af Mönnum í vinnu. Kristófer Júlíus Leifsson, framkvæmdastjóri Eldum rétt, segir að kröfur Rúmenanna hafi komið sér í opna skjöldu.

„Við erum alveg til í að gera allt sem gera þarf til að gera upp við þá. Við buðum mönnunum að koma í fullt starf hjá okkur þegar þetta mál kom upp. Við höfðum spurt þá áður hvort allt væri í lagi og fengum engin svör önnur svör en að svo væri,“ segir hann í samtali við Stundina.

„Við vissum að ef það yrði eitthvað vesen myndum við tryggja að þeir fengju sín laun. Málið er bara að enginn hefur talað við okkur beint. Við fáum bara bréf frá lögfræðingum þar sem við erum beðin um að greiða starfsmönnum fyrir alla liði sem voru teknir af þeim.“

Kristófer leggur áherslu að á því tveggja vikna tímabili sem málið snýst um hafi Rúmenarnir aðeins unnið hjá Eldum rétt í fjóra daga. „Við hljótum allavega að mega eiga samræður og komast að einhverjum skilningi um hvað raunverulega átti sér stað. Ef þeir fengu raunverulega fyrirframgreidd laun, af hverju erum við þá að greiða 200 þúsund kall á haus og fleiri hundruð þúsund í lögfræðikostnað fyrir starfsmenn sem unnu bara í fjóra daga hjá okkur að meðaltali á þessu tveggja vikna tímabili sem er verið að krefja okkur um?“

Brá þegar annað „fíaskó“ kom upp

Fréttaskýringaþátturinn Kveikur fjallaði með ítarlegum hætti um málefni Manna í vinnu í fyrra. Aðspurður hvort stjórnendur Eldum rétt hafi ekki vitað af fyrri vandræðamálum starfsmannaleigunnar þegar samið var við hana segir Kristófer: 

„Það hafði áður komið til sagna að það væri ekki allt í lagi hjá Mönnum í vinnu. En þegar við tölum við þá í janúar hafði fyrirtækið starfað í nokkra mánuði í viðbót, fengið samninga hjá Vinnumálastofnun og klárað samninga við starfsmenn sína. Þá áttu þau að vera með allt upp á tíu. Ef það voru einhverjir sem væri hægt að treysta á þessu stigi máls þá voru það þeir, því þeir höfðu unnið alla sína heimavinnu. Þetta kemur okkur svo í opna skjöldu mánuði seinna þegar það er aftur eitthvað fíaskó í gangi.“

„Þetta kemur okkur svo í opna skjöldu mánuði seinna þegar það er aftur eitthvað fíaskó í gangi“

Kristófer segir enga niðurstöðu hafa fengist í málið. „Ég skil enn ekki hvað er rétt og rangt í þessu ef ég á að vera alveg hreinskilinn. Ég vil bara að gert sé upp við þetta fólk, en á réttum forsendum. Við erum ekki að fara að borga þeim eitthvað aftur sem það fékk, og einhvern lögfræðikostnað og miskabætur, þetta er bara út í hött. Ef þeir fengu ekki rétt greitt þá berum við ábyrgð á því og ég er til í að ganga frá því í dag, en starfsmennirnir unnu hjá okkur í fjóra daga á þessu tveggja vikna tímabili. Það er verið að krefja okkur um flugmiða og fyrirframgreiddu launin þeirra en það hefur enginn sýnt fram á að þeir hafi ekki fengið fyrirframgreiddu launin sem voru skráð. Það hefur enginn sýnt fram á að það sé ólöglegt að draga af þeim, af fyrsta launaseðli, flugmiða til landsins. Það var upphaflega samið um að það væri partur af þessu samkomulagi og við vitum ekki betur en að Vinnumálastofnun hafi skrifað upp á að þetta væri allt í lagi.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið

Íslendingar þurfi að ákveða hvar þeir staðsetja sig: „Þetta eru mjög válegir tímar“
3
ViðtalBandaríki Trumps

Ís­lend­ing­ar þurfi að ákveða hvar þeir stað­setja sig: „Þetta eru mjög vá­leg­ir tím­ar“

Pól­skipti hafa átt sér stað í vest­rænu varn­ar­sam­starfi með skyndi­legri stefnu­breyt­ingu Banda­ríkj­anna í ut­an­rík­is­mál­um, seg­ir Erl­ing­ur Erl­ings­son hern­að­ar­sagn­fræð­ing­ur. Hætta geti steðj­að að Ís­landi en Banda­rík­in hafi sýnt að þau séu óút­reikn­an­leg og beri ekki virð­ingu fyr­ir leik­regl­um al­þjóða­kerf­is­ins.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Einn og hálfur tími á bráðamóttöku: Sjálfsskaði, hjartastopp og hnífstunga
4
Á vettvangi

Einn og hálf­ur tími á bráða­mót­töku: Sjálfsskaði, hjarta­stopp og hnífstunga

Eitt orð má aldrei nota á bráða­mót­töku Land­spít­al­ans og það er orð­ið ró­legt. Nán­ast um leið og Jón Ragn­ar Jóns­son bráða­lækn­ir hef­ur orð á að það sé óvenju ró­legt á næt­ur­vakt eina helg­ina dynja áföll­in á. Hann hef­ur rétt kom­ið manni til lífs þeg­ar neyð­ar­bjall­an hring­ir á ný. Síð­an end­ur­tek­ur sama sag­an sig.

Mest lesið í mánuðinum

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár