Hjálmaskylda hjólreiðamanna verður hækkuð úr 15 árum í 16 ár, samkvæmt breytingatillögu umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis. Landssamtök hjólreiðamanna hafa mótmælt fyrri tillögu nefndarinnar um að skylda til notkunar reiðhjólahjálma nái til allra undir 18 ára aldri. Í frumvarpi ráðherra til umferðarlaga var upphaflega miðað við að hjálmaskyldan yrði áfram 15 ár.
„Talsverð umræða var um málið og nefndinni bárust athugasemdir um að þessi breytingartillaga gengi of langt og myndi m.a. hafa áhrif á markmið sveitarfélaga um breyttar ferðavenjur og mögulega á greiðslu tryggingabóta,“ segir í nefndarálitinu. „Bent var á að hjálmaskylda gæti haft neikvæð áhrif að því leyti að hún gæti dregið úr hjólreiðum. “
Segir í álitinu að brýnt sé að hafa öryggi í hávegum þegar komi að hjólreiðum eins og öðrum samgöngumátum. „Með hliðsjón af fram komnum sjónarmiðum sem og þeim athugasemdum sem nefndinni bárust leggur nefndin til að hjálmaskylda nái til barna undir 16 ára aldri en þar með verði tryggt að hjálmaskylda taki til allra barna á grunnskólastigi.“
Athugasemdir