Frumvarp Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra til laga um þungunarrof er eitt stærsta kvenfrelsismál sem lagt hefur verið fyrir Alþingi á þessari öld. Þetta sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata, þegar greidd voru atkvæði um málið eftir aðra umræðu á Alþingi í dag.
Athygli vakti að þrír ráðherrar ríkisstjórnarinnar sátu hjá í atkvæðagreiðslu um grundvallarákvæði frumvarpsins, 4. gr. sem felur í sér skilyrðislausan rétt kvenna til þungunarrofs fram til loka 22. viku meðgöngu.
„Það er gríðarlegt fagnaðarefni að þetta mál sé komið á þennan stað hér á þessu þingi. Til hamingju konur,“ sagði Þórhildur og bætti því við að málið væri afhjúpandi fyrir þá þingmenn sem legðust gegn því eða styddu það ekki. „Raunveruleg afstaða þeirra til kvenfrelsis birtist þegar greidd eru atkvæði um traust til sjálfsákvörðunarréttar kvenna yfir eigin líkama.“
Þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins auk eins þingmanns Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn því að konur fengju rýmri rétt til þungunarrofs.
„Enginn skyldi gera lítið úr því að þurfa að taka slíka ákvörðun eða efast um réttinn til þess. Frumvarp um óheftar fóstureyðingar á 6. mánuði gengur hins vegar svo langt að ég trúi því ekki að óreyndu að þingmenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks muni styðja það,“ skrifaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, á Facebook í gær. Hann og samherjar hans gagnrýndu stjórnarliða harðlega í umræðu um málið í dag.
„Málið snýst í kjarnann um yfirráðarétt og sjálfsákvörðunarrétt kvenna um eigin líkama,“ sagði Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, í atkvæðaskýringu sinni. Málið snýst ekki um vikutalningu, sagði hann, heldur það að konur ráði sér sjálfar, hver á eigin forsendum án þess að þeim sé sagt fyrir verkum.
„Það á vissulega að veita konum ráðgjöf og upplýsingar ef eftir því er leitað en ákvörðunin sjálf er konunnar. Staðreyndin er sú að þar sem frjálsræði er mest í þeim efnum hefur það ekki leitt til þess að þungunarrofum hafi fjölgað. Þvert á móti bendir margt til þess að þungunarrofum fækki.“
Athugasemdir