Losun gróðurhúsalofttegunda sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda jókst um 2,2 prósent á milli áranna 2016 og 2017. Heildarlosunin, að stóriðju meðtalinni, jókst um 2,5 prósent.
Umhverfisstofnun hefur birt skýrslu sína vegna loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Í henni er að finna ítarlegar upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi frá 1990 til 2017. Frá 2005 hefur losun dregist saman um 5,4 prósent en þrátt fyrir aðgerðir til að stemma stigu við losun hefur hún verið nokkuð stöðug frá 2012 og má aukningu hennar rekja til ferðamannaiðnaðarins og aukinnar almennrar neyslu.
Í skýrslunni er einnig fjallað um losun frá stóriðju undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Aukning í losun innan kerfisins var 2,8 prósent milli áranna 2016 og 2017. Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi jókst þar af leiðandi um 2,5 prósent á milli ára, en þar vantar upplýsingar um losun frá landnotkun og skógrækt.
„Samgöngur er sá geiri sem ber mesta ábyrgð á aukinni losun síðan 2013,“ segir í tilkynningu frá Umhverfisstofnun. „Losun í vegasamgöngum hefur aukist um 85% frá 1990 til 2017, og aukningin nam 5,5% milli áranna 2016 og 2017. Mesta aukningin er vegna fólksbíla.“
Athugasemdir