Lokasýning Hagaskóla á Mary Poppins í gær endaði með því að öll börnin sem að sýningunni stóðu röðuðu sér saman og kölluðu einróma: Save Zainab! Þá voru þau nýbúin að fá þær fréttir að kærunefnd útlendingmála hefði hafnað tveimur kröfum Zainab og fjölskyldu hennar. Annars vegar kröfu um frestun réttaráhrifa og hins vegar kröfu um endurupptöku máls þeirra.
„Við fengum þessar fréttir í gær, eins og aðrir, og þrátt fyrir að hafa vonað það besta allan tímann vorum við undir þetta búin. Við hittum lögfræðing fjölskyldunnar í dag, til að fara yfir stöðuna og hvaða möguleikar eru í framhaldinu,” segir Ómar Örn Magnússon, fulltrúi kennara í réttindaráði Hagaskóla.
Hann segir að þrátt fyrir nemendur hafi verið meðvitaðir um að svona gæti farið, væri þeim brugðið. „Krakkarnir spyrja okkur mikið út í þetta mál og velta því mikið fyrir sér. Þeir skilja ekki af hverju þetta er svona, sem er skiljanlegt, því við skiljum það varla heldur, fullorðna fólkið,“ segir Ómar.
Ekki er ljóst hvenær fjölskyldunni verður vísað úr landi en líklegast er að það verði fyrir september, þegar 12 mánuðir eru liðnir frá komu þeirra til landsins. „Við vitum ekkert um það en vonum að þeim verði í það minnsta sýnd lágmarksmannúð og að þau fái að klára skólaárið hér.“
„Þeir skilja ekki af hverju þetta er svona,
sem er skiljanlegt, því við skiljum
það varla heldur, fullorðna fólkið“
Ómar segir að nemendur við Hagaskóla hafi strax þegar málið kom upp litið á það sem langtímaverkefni. Stuðningur þeirra felist ekki í einni söfnun eða einum viðburði, heldur hafi þau tekið þá afstöðu að halda áfram að styðja við Zainab, hvernig sem málið myndi þróast. Nemendur séu nú að velta upp ýmsum hugmyndum um hvernig þeir geti sem best stutt við skólasystur sína áfram.
„Þau settu af stað peningasöfnun fyrir nokkrum vikum og sjá nú enn meiri ástæðu til að halda henni áfram, enda ljóst að peningarnir munu ekki síður nýtast fjölskyldunni í Grikklandi, ef svo fer að þau verði send þangað,“ segir hann og bætir því við að nú sé verið að leita leiða til að gera þá söfnun formlegri. Stofnaður verði formlegur styrktarsjóður á næstu dögum. „Margir hafa haft samband við okkur sem vilja leggja þeim lið, sem tengjast hvorki Vesturbænum né Hagaskóla. Vonandi verður sjóðurinn farvegur fyrir aðra til að leggja málinu lið.“
Leitast verði við að styrkurinn sem safnist nýtist fjölskyldunni, meðan hún bíður þess í Grikklandi að málið fari fyrir dóm hér á landi. Magnús D. Norðdahl, lögmaður fjölskyldunnar, segir að þegar hafi verið tekin ákvörðun um að fara með málið fyrir dóm. Það sé næsta skref í málinu. Hann ætlar jafnframt að krefjast endurupptöku á málinu á nýjan leik, á grundvelli nýrra gagna sem hafi verið aflað.
„Þau settu af stað peningasöfnun fyrir
nokkrum vikum og sjá nú enn meiri
ástæðu til að halda henni áfram“
Að mati Magnúsar byggir niðurstaða kærunefndar á hæpnum forsendum. Hann segir með ólíkindum að kærunefndin telji ekkert benda til þess að fjölskyldan hafi sterkari tengsl við Ísland en Grikkland. Það sé einfaldlega röng niðurstaða hjá nefndinni, enda hafi börnin myndað hér sterkt og öflugt tengslanet.
Sorglegt sé að íslenskum yfirvöldum finnist í lagi að leyfa börnum að aðlagast með þessum hætti til þess eins að rífa þau upp með rótum og senda úr landi í erfiðar aðstæður á Grikklandi. Margar skýrslur alþjóðlegra stofnana liggi fyrir um erfiðar aðstæður hælisleitenda þar í landi.
Athugasemdir