Ný nálgun í kjaraviðræðum var innsigluð með undirritun kjarasamninga Samtaka atvinnulífsins við félög verslunarmanna og Starfsgreinasambandsins í kvöld. Verkalýðsforystan kveðst hafa „tekið tillit til stöðu atvinnulífsins vegna gjaldþrota og uppsagna í ferðaþjónustu“ með því að takmarka launahækkanir í ár, en í heildina verða þær 90 þúsund krónur á þremur árum og átta mánuðum.
„Þessi hækkun er rúmlega fjórðungi lægri en krafa Eflingar og annarra SGS félaga um 125 þúsund króna hækkun á þremur árum. Lág hækkun árið 2019 dregur helst niður heildarhækkunina,“ segir í yfirlýsingu Eflingar.
Óvenjuleg stund
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins seint í kvöld að hún teldi samningana skapa efnahagslegan og félagslegan stöðugleika.
„Þetta er mjög óvenjulegur tími, en þetta er líka mjög óvenjuleg stund. Því við erum algerlega sannfærð um það að þessir samningar og það útspil stjórnvalda sem þeim fylgir mun verða og getur orðið grundvöllur að víðtækri sátt, verið grundvöllur þess að við getum skapað hér bæði efnahagslegan en ekki síður félagslegan stöðugleika til næstu ára og ég er ekki í nokkrum vafa um að ástæða þess að við erum hingað komin er það mikla samráð, sem stundum hefur verið stormasamt en líka gott á undanförnum mánuðum, við aðila vinnumarkaðarins, og ég er algerlega sannfærð um það að til lengri tíma mun þessi stund hér í kvöld verða undirstaða fyrir miklu styrkara samráð stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins.“
Fjögur lykilatriði
Hátt í hundrað manns komu að samningunum, að sögn Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, á blaðamannafundinum.
Fjögur kjarnaatriði eru skilgreind í samningunum: Hærri laun, aukinn sveigjanleiki, lægri skattar og lægri vextir.
Starfsfólk innan Starfsgreinasambandsins á vinnustöðum mun samkvæmt samningnum geta tekið upp viðræður við vinnuveitendur sína um styttingu vinnuvikunnar í 36 stundir. Þá mun vinnutími verslunarfólks verða styttur um 45 mínútur.
„Við erum að vonast til þess að samfélagið muni hreyfast í þann takt að við vinnum ekki mikið eftir hádegi á föstudögum,“ sagði Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins í kvöld.
Meðal nýjunga í samningunum er að launataxtar verði að hluta sjálfvirkt tengdir hagvexti, samkvæmt yfirlýsingu Eflingar: „Að því gefnu að hagvöxtur á mann aukist um tiltekið hlutfall munu koma til sjálfkrafa hækkanir til viðbótar hefðbundnum umsömdum launahækkunum. Líkt og aðrar krónutöluhækkanir í samningnum er þessi hagvaxtartengdi launaauki útfærður þannig að hann skilar sér betur til þeirra sem vinna á töxtum. Miðað við meðalhagvöxt síðustu 30 ára gæti slíkur ábati skilað 10-24 þúsund til viðbótar við heildarhækkun launa á samningstímanum.“
Þá eru í samningnum forsenduákvæði um uppsögn hans verði vaxtalækkanir ekki að raunveruleika.
Vilhjálmur Birgisson, varaforseti Alþýðusambands Íslands, sagðist hafa trú á hagkerfinu. „Ég hef trú á íslensku efnahagslífi og ég veit að við munum stoppa stutt í þessari niðursveiflu sem við erum stödd í núna,“ sagði hann á blaðamannafundinum.
Ríkisstjórnin tilkynnir um leið um aðgerðir sínar í tengslum við svokallaðan lífskjarasamning. Hann felur í sér 10 þúsund króna aukningu ráðstöfunartekna þeirra tekjulægstu með lækkun skatta. Auk þess verður gripið til aðgerða sem að sögn ríkisstjórnarinnar getur í heildina „aukið ráðstöfunartekjur fjögurra manna fjölskyldu um allt að 411 þúsund krónur á ári“.
Yfirlýsing frá Eflingu
Efling og samflotsfélögin VR, LÍV, Framsýn, VLFA og VLFG hafa undirritað kjarasamning við Samtök atvinnulífsins með fyrirvara um aðkomu ríkisvaldsins. Einnig undirrituðu aðildarfélög SGS sams konar samning. Samningurinn mun mynda hluta af víðtækri sátt um bætt kjör láglaunafólks þar sem aðilar vinnumarkaðarins, ríkisvaldið og Seðlabankinn leggja af mörkum.
Þessi víðtæka samvinna stofnana samfélagsins um að bæta kjör láglaunafólks er beinn árangur af baráttu Eflingar og samflotsfélaga.
Samninganefnd Eflingar veitti formanni umboð á þriðjudagskvöld til að ljúka við kjarasamninginn sem undirritaður var í kvöld.
Leiða má líkum að því að enginn kjarasamningur á Íslandi hvorki fyrr né síðar hafi tryggt jafn vel að kjarabætur beinist sérstaklega að lágtekjufólki. Allar launahækkanir samningsins til félagsmanna samflotsfélaganna eru krónutöluhækkanir og við þær bætast sérstakar krónutöluhækkanir á taxta.
Efling er stolt af þátttöku sinni í breiðri samstöðu með VR og Landssambandi íslenzkra verzlunarmanna um krónutöluhækkanir og sérstakar hækkanir á taxta. Þessi styrka samstaða mun í framhaldinu gefa tóninn fyrir launastefnu gagnvart öðrum hópum bæði á almennum og opinberum markaði. Efling er einnig stolt af að hafa tryggt að sá ábati verði ekki tekinn til baka í gegnum skattkerfið, líkt og gerðist á samningstíma síðasta kjarasamnings.
Hreinar launahækkanir til þeirra sem starfa á töxtum nema 90 þúsund krónum í fjórum hækkunum yfir samningstímann, sem er til 3 ára og 8 mánaða. Þessi hækkun er rúmlega fjórðungi lægri en krafa Eflingar og annarra SGS félaga um 125 þúsund króna hækkun á þremur árum. Lág hækkun árið 2019 dregur helst niður heildarhækkunina. Með þessu er tekið tillit til stöðu atvinnulífsins vegna gjaldþrota og uppsagna í ferðaþjónustu auk þess sem sköpuð eru skilyrði til vaxtalækkunar.
Til viðbótar hefðbundnum nafnlaunahækkunum koma til ýmis atriði sem munu auka ráðstöfunartekjur og eru þannig ígildi launahækkana.
Í samningnum er nýstárlegt ákvæði sem tryggir að hagvaxtaraukning skili sér til launafólks í formi krónutöluhækkana. Að því gefnu að hagvöxtur á mann aukist um tiltekið hlutfall munu koma til sjálfkrafa hækkanir til viðbótar hefðbundnum umsömdum launahækkunum. Líkt og aðrar krónutöluhækkanir í samningnum er þessi hagvaxtartengdi launaauki útfærður þannig að hann skilar sér betur til þeirra sem vinna á töxtum. Miðað við meðalhagvöxt síðustu 30 ára gæti slíkur ábati skilað 10-24 þúsund til viðbótar við heildarhækkun launa á samningstímanum.
Ein af forsendum samningsins er að Seðlabanki Íslands lækki stýrivexti. Samningsaðilar eru sammála um að samningurinn skapi aðstæður til þess. Lækkun vaxta mun hafa mikil áhrif á útgjöld skuldsettra heimila og einnig stuðla að lækkun leiguverðs. Í samningnum verða forsenduákvæði um uppsögn hans verði vaxtalækkanir ekki að raunveruleika.
Samhliða undirritun samnings mun ríkisvaldið skuldbinda sig til að lækka skatta þannig að það skili sér í 10 þúsund króna aukningu ráðstöfunartekna á mánuði til handa tekjulægstu hópum í skrefum. Tryggt verður að hækkuð skattleysismörk haldi raungildi sínu út samningstímann. Hækkun skerðingarmarka barnabóta, til viðbótar við hækkun barnabóta sem þegar var kynnt í fjárlögum síðasta árs, mun einnig skila sér vel til tekjulágra.
Aðgerðir ríkisins í húsnæðismálum koma til með að fela í sér aukið fjármagn til byggingar íbúðarhúsnæðis fyrir tekjulága og lagasetningu sem hamlar óhóflegum hækkunum húsaleigu.
Að auki mun ríkið skuldbinda sig til kerfisbreytinga varðandi lánakjör og fjármálakerfið, sérstaklega til skrefa til afnáms verðtryggingar.
Athugasemdir