Almenningur á Íslandi verður fyrir lífskjaraskerðingu vegna gjaldþrots WOW air. Spurningin er bara hversu mikil hún verður og með hvaða hætti hún birtist.
„Ég held að við eigum ekki að efast um markaðsöflin þegar rekstrarerfiðleikar eins og þessir birtast okkur,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í Kastljósi aðspurður hvort stjórnvöld hefðu sofið á verðinum gagnvart ævintýramennsku WOW air. „Það er engin leið önnur en að láta framboð og eftirspurn ráða þessum hlutum.“
Krónan hefur þegar veikst síðan WOW air hætti starfsemi og Seðlabankinn fann sig knúinn til að bregðast við með inngripi á gjaldeyrismarkaði í dag.
Greiningardeild Arion banka kynnti hagspá í vikunni þar sem gert var ráð fyrir tæplega 2 prósenta samdrætti landsframleiðslu árið 2019 ef WOW air færi í þrot. Telur greiningardeildin að brotthvarf fyrirtækisins af markaði muni valda aukinni verðbólgu, veikja gengi krónunnar og draga úr atvinnuvegafjárfestingu.
Með veikari krónu og aukinni verðbólgu munu verðtryggð lán hækka og fyrir vikið skuldabyrði heimila þyngjast. Allt felur þetta í sér kaupmáttarskerðingu fyrir almenning en auk þess eru horfur á að atvinnustig verði lægra næstu misserin en verið hefur undanfarin ár.
Raunar er vel hugsanlegt að Íslendingar standi frammi fyrir minniháttar kreppu í þeim skilningi að þjóðarframleiðsla muni dragast saman tvo ársfjórðunga í röð eða meira. Már Guðmundsson seðlabankastjóri efast þó um að áhrifin af falli WOW air verði svo mikil. „Fall Wow mun hafa neikvæð áhrif á hagvöxt, sérstaklega á þessu ári. Ólíklegt er þó að það eitt og sér nægi til að það verði beinlínis samdráttur á árinu,“ sagði hann í ræðu sinni á ársfundi Seðlabankans.
Högg fyrir ferðaþjónustuna
Samdráttur í ferðaþjónustu er óhjákvæmilegur eftir að WOW hætti flugrekstri. Að hluta til hafa áhrifin af vanda WOW air þegar komið fram; rekstur fyrirtækisins hefur dregist saman undanfarna mánuði og fækkað í flugflotanum.
Nýlegar áætlanir Isavia gerðu engu að síður ráð fyrir að WOW air væri með 20 prósenta hlutdeild í farþegaflutningum á tímabilinu apríl til október á þessu ári.
Önnur flugfélög munu eflaust fylla upp í tómarúmið að verulegu leyti, en það gerist ekki á einni nóttu. Þannig verður ferðaþjónustan fyrir talsverðum skelli – og það á háannatíma þegar fyrirtækin eiga mikið undir því að skapa tekjur.
Fyrstu áhrifin eru aukið atvinnuleysi. Meira en þúsund manns missa vinnuna hjá flugfélaginu sjálfu en óljóst er hve margir missa vinnuna hjá helstu þjónustuaðilum fyrirtækisins, svo sem Airport Associates, fyrirtæki sem glatar um helmingi af verkefnum sínum vegna gjaldþrots WOW air.
Samdrátturinn mun hafa neikvæð áhrif á afkomu fleiri ferðaþjónustufyrirtækja. Sum eru þegar farin að hagræða og draga úr starfsemi sinni. Þannig tilkynntu Kynnisferðir síðdegis í gær að 59 starfsmönnum yrði sagt upp. „Það er fyrirséð að rekstrartekjur fyrirtækisins munu minnka á næstu mánuðum. Aðalástæðan er sú að WOW Air er hætt rekstri sem þýðir að færri ferðamenn koma til landsins,“ segir í yfirlýsingu frá rútufyrirtækinu.
Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir auknu atvinnuleysi á yfirstandandi ári og því næsta. Gengið er út frá því að atvinnuleysi verði allt að 4 prósent á áætlunartímanum og að útgjöld vegna atvinnuleysistrygginga þróist með hliðsjón af því. Fall WOW air og áhrif þess gætu aukið atvinnuleysið enn frekar. „Að missa framfærsluöryggi er alvarleg staða. Stéttarfélögin leita nú leiða til að miðla upplýsingum, aðstoða sitt fólk og minnka höggið,“ skrifar Drífa Snædal, forseti ASÍ, á Facebook.
Inngrip vegna veikingar krónunnar
Seðlabanki Íslands er með öflugan gjaldeyrisforða og í betri stöðu en nokkru sinni fyrr til að halda aftur af veikingu krónunnar án mikilla vaxtahækkana. Atburðir dagsins, þar sem bankinn brást við gengisveikingu með inngripum á gjaldeyrismarkaði, eru skýr birtingarmynd þess.
Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor benti á það í viðtali við Stundina í fyrra að markaðsaðilar á gjaldeyrismarkaði hafa tilhneigingu til að bregðast við atburðum umfram tilefni. „Ef innlendir fjármagnseigendur misstu trúna á krónunni og flyttu fé út í stórum stíl, þá gæti reynt talsvert á vilja Seðlabankans til að synda gegn straumnum,“ sagði hann.
Gengisþróunin gæti haft sitthvað að segja um atvinnuhorfur en veiking krónunnar hefur sögulega gegnt lykilhlutverki í eflingu útflutningsgreina og þannig ýtt undir atvinnusköpun í kjölfar efnahagsáfalla.
Seðlabankinn hefur það lögbundna hlutverk að stuðla að efnahagslegum stöðugleika og halda aftur af verðbólgu en engar skyldur þegar kemur að því að halda uppi háu atvinnustigi. Sú spurning vaknar hins vegar hvort stjórnarmeirihlutinn á Alþingi sé viljugur að grípa til ráðstafana á sviði ríkisfjármála til að örva hagkerfið, dempa fallið og stuðla að aukinni atvinnu.
Forsendur fjármálaáætlunar brostnar
Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir talsverðri útgjaldaaukningu til flestra málaflokka og skattalækkunum en einnig 2 prósenta aðhaldi á flestum sviðum ríkisrekstrar og verulegum skorðum við launahækkunum ríkisstarfsmanna.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur látið hafa eftir sér að áfall á borð við gjaldþrot WOW air „myndi þýða að við þyrftum að draga úr útgjaldaáformum“.
Gjaldþrot WOW air setur tekjuáætlun fjármálaáætlunar í uppnám. Samdrátturinn í ferðaþjónustu mun rýra skattstofna, draga úr tekjuöflun ríkissjóðs og gera ríkisstjórninni erfiðara um vik að uppfylla þau afkomumarkmið sem sett voru í fjármálastefnu.
Ef ríkisstjórnin heldur fast við afkomumarkmiðin og bregst við WOW air-skellinum með niðurskurði ríkisútgjalda til að mæta tekjurýrnuninni mun það væntanlega auka enn á samdráttinn í efnahagslífinu. Á Bjarna Benediktssyni mátti þó skilja í Kastljósi að vel kæmi til greina að endurskoða afkomumarkmiðin.
Skilur eftir „umtalsvert skarð“
Hlutdeild WOW air í áætlunarflugi til og frá Íslandi var 25 til 30 prósent árið 2018 miðað við fjölda farþega og með tengifarþegum var hlutdeildin hátt í 40 prósent.
Í fréttatilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu kemur fram að ekki þurfi að fjölyrða um að „brotthvarf WOW af íslenska markaðnum skilur eftir sig umtalsvert skarð“ og „samþjöppun í flugi mun[i] því aukast verulega“ til skamms tíma.
Brotthvarf WOW air gæti haft talsverð áhrif á rekstur Keflavíkurflugvallar og afkomu Isavia sem hefur verið í stækkunarfasa undanfarið. „Isavia mun á næstunni fara yfir hver þau áhrif kunni að verða,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.
„Það verður högg í sumar“
Þórólfur Matthíasson bendir á að hafa þurfi í huga að WOW air og Icelandair hafi í raun starfað á þremur mörkuðum: við Atlantshafsflug, milli Íslands og Evrópu og Íslands og Ameríku. Trans Atlantic-markaðurinn sé stærri en hinir og þar sé samkeppnin í verði jafnframt miklu harðari. „Icelandair hefur náð jafnvægi með því að rukka hærra fyrir leggina en fyrir Trans Atlantic en verðlagningar- og sölukerfi Wow leyfði ekki svoleiðis,“ segir hann í samtali við Stundina.
„Trans Atlantic-markaðurinn þýðir mikið fyrir ISAVIA, en lítið fyrir innlenda ferðaþjónustu. Fall Wow þarf ekki að breyta miklu varðandi flutning farþega á mörkuðunum tveimur milli Íslands og Evrópu og Íslands og Ameríku. Þriðji markaðurinn minnkar, en það skapar ekki högg nema fyrir ISAVIA, Airport Associates og nokkra aðra.
Spurningin er þannig hvort það haldi áfram að vera sæti fyrir farþegana sem vilja bara skoða Ísland. Það fer eftir vali á leiðum og verði og auglýsingum og áherslum Icelandair á Transatlantic-rútuna. Þessu er ekki auðvelt að breyta í sumar, þannig að það verður högg í sumar. Næsta spurning er svo hvort greiðsluvilji farþega fyrir Íslandsferð sé nægur til að halda uppi komu tveggja milljóna farþega á ári. Það mun koma í ljós.“
Fjárfestar búast við veikari krónu
Viðskipti á gjaldeyrismörkuðum og hlutabréfamörkuðum í dag bera þess skýrt merki að markaðsaðilar búist við veikari krónu. Gengi krónunnar hefur lækkað meðan virði hlutabréfa í útflutningsfyrirtækjum sem hafa hag af gengisveikingu, svo sem hjá Marel og HB Granda, hefur hækkað.
Ljóst er að rekja má talsverðan hluta hækkunar á húsnæðisverði síðustu ára til útleigu til ferðamanna. Því er ekki ósennilegt að fall WOW air hafi áhrif á húsnæðismarkaðinn. Athygli vekur að virði hlutabréfa í fasteignafélögum eins og Eik og Regin hefur lækkað í dag sem kann að benda til þess að fjárfestar sjái fram á að fasteignaverð lækki.
Athugasemdir