Icelandair mun innleiða valkvæðan öryggisbúnað í Boeing 737 MAX vélar sínar í kjölfar mannskæðra flugslysa véla af sömu gerð. Flugmenn félagsins töldu ekki þörf á búnaðinum á sínum tíma, að sögn framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Icelandair.
Skortur á slíkum búnaði er talinn tengjast því að tvær vélar af þessari gerð hafi hrapað á undanförnum mánuðum og á fjórða hundrað manns látist. Vél Lion Air hrapaði 29. október 2018 við Indónesíu og létust allir um borð, 189 manns. Vél Ethiopian Airlines hrapaði í Eþíópíu 10. mars með 157 manns um borð og lifði enginn af. Hvorug vélanna var með þennan öryggisbúnað, sem Boeing seldi aukalega.
„Flugmennirnir okkar meta hvaða búnað þarf og svara tugum eða hundruðum spurninga um búnað í vélarnar,“ segir Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair í samtali við Stundina.
„Öryggi snýst líka oft um að tryggja það að skilaboð sem flugmenn fá séu einföld og skýr. Okkar flugmenn töldu á sínum tíma út frá sinni reynslu og þekkingu að þetta væri búnaður sem bætti ekki miklu við í öryggi vélarinnar. Þar af leiðandi var hann talinn vera óþarfur. Það er ekki boðið upp á búnað sem er krítískur fyrir öryggi sem einhvern valkost.“
Um er að ræða búnað sem Boeing bauð upp á gegn gjaldi, að setja í mælaborð upplýsingar úr afstöðuskynjurum flugvélarinnar. „Það er það sem við völdum ekki og við getum séð afstöðu vélarinnar með öðrum búnaði,“ segir Jens.
Þá hefur Boeing tilkynnt að viðvörunarljós, sem sýnir hvort afstöðuskynjararnir gefa misvísandi upplýsingar, verði sett í allar vélarnar. „Það er búnaður sem var ekki boðið upp á í vélinni en Boeing er að leggja til að sett verði í vélina núna sem viðbragð við þessum vandamálum,“ segir Jens.
Flugmenn taki ákvarðanir um flugtæknileg atriði
Jens segir að í vélarnar hafi verið settur annar öryggisbúnaður sem hefur sambærilega virkni. „Það sem við vitum í dag um þessi slys er að þessi búnaður hefði ekki komið í veg fyrir Lion Air slysið, en mögulega hjálpað mönnum að átta sig fyrr á hvað var að gerast,“ segir hann. „Þetta er ekki þannig að þetta hefði haft úrslitaáhrif. Eftir slysið höfum við endurmetið þetta og þetta fer í allar vélar, það er ekki spurning um það.“
Aðspurður segir Jens að ákvörðunin um búnaðinn hafi verið tekin eftir mat flugmanna Icelandair. „Um svona atriði, sem eru eingöngu flugtæknileg, er það þeirra hópur sem segir til um hvað á að gera og við gerum það,“ segir hann. „Þetta eru sérfræðingarnir sem eru að fara að fljúga vélinni. Það eru stundum skiptar skoðanir innan hópsins en við náum sátt og gerum það sem þarf að gera samkvæmt þeim.“
Vélar af þessari gerð, Boeing 737 MAX hafa verið kyrrsettar um allan heim í kjölfar flugslyssins í Eþíópíu. Icelandair á þrjár vélar af þessari gerð og eru sex til viðbótar væntanlegar í vor. Jens segir að öryggisbúnaðurinn verði í þeim öllum.
Aðspurður segir Jens að aðrar flugvélar í eigu félagsins séu með mikla flugreynslu og að ekkert í þessu samhengi hafi kallað á endurskoðun öryggiskerfa í þeim. „Alltaf á rekstrarlíftíma flugvéla kemur öðru hverju ný tækni og við innleiðum slíkt reglulega.“
Athugasemdir