Aðalmeðferð í máli íslenska ríkisins gegn þeim Jórunni Eddu Helgadóttur og Ragnheiði Freyju Kristínardóttur, sem stóðu upp í flugvél Icelandair til að mótmæla ólöglegri brottvikningu hælisleitanda, fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Athygli vekur að einu vitnin sem héraðssaksóknari kallar fyrir dóminn eru starfsmenn þess fyrirtækis sem lagði fram kæru á hendur konunum tveimur, Icelandair. Páll Bergþórsson, lögmaður kvennanna, segir þetta sérstakt, „en saksóknari hefur eflaust metið sem svo að það væri nóg til að upplýsa málið.“
Það var að morgni dags þann 26. maí 2016 sem þær Jórunn Edda og Ragnheiður Freyja stóðu upp í flugvél Icelandair til að mótmæla brottvísun hælisleitandans Eze Okafor sem hafði verið handtekinn og færður með lögregluvaldi í flugvélina þar sem vísa átti honum til Svíþjóðar. Stóðu þær upp áður en vélin tók á loft og báðu aðra flugfarþega um að sýna hælisleitandanum samstöðu en flugstjóri flugvélarinnar neitaði að taka á loft fyrr en allir farþegar höfðu sest niður. Þær voru stuttu síðar handteknar og færðar út úr vélinni í járnum. Rétt tæpum mánuði síðar, eða þann 20. júní 2016, lagði Icelandair svo fram kæru á hendur þeim Jórunni Eddu og Ragnheiði Freyju.
Leiðandi spurningar lögreglumanna
Fjórar flugfreyjur og þrír flugmenn Icelandair munu koma fyrir dóminn í dag og bera vitni um mótmæli kvennanna sem fyrirtækið sem þau starfa hjá lagði fram kæru gegn. Líkt og Stundin greindi frá í gær gagnrýna lögmenn meðal annars að umrædd vitni hafi verið spurð leiðandi spurninga í skýrslutökum lögreglu, sem virtust miða að því að fá starfsmenn kæranda til þess að segja að konurnar hefðu raskað öryggi flugvélarinnar með aðgerð sinni. Í ákæru héraðssaksóknara eru þær Jórunn Edda og Ragnheiður Freyja meðal annars sakaðar um að hafa með hátterni sínu brotið gegn 168. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa raskað öryggi flugvélarinnar, en allt að sex ára fangelsi liggur við brotinu.
Lögmenn kvennanna hafa einnig gagnrýnt það að þau hafi ekki fengið afrit af upptökum af skýrslutökum yfir vitnum málsins eins og venjan er. Lögmennirnir þurftu því að fara niður á skrifstofu héraðssaksóknara til þess að hlusta á skýrslutökur yfir vitnum, en þá kom í ljós að lögreglumenn höfðu spurt vitnin afar leiðandi spurninga, sérstaklega spurninga er vörðuðu það hvort aðgerð kvennanna hefði með einhverjum hætti raskað öryggi vélarinnar. Páll gagnrýndi þetta í samtali við Stundina í gær og sagði athygli vert hversu mikla áherslu lögreglan hefði lagt á að spyrja vitnin út í þetta tiltekna atriði.
Í endurriti af skýrslutökunum sem finna má í málsgögnum er ítrekað haft eftir vitnum að þau telji að aðgerð kvennanna hafi raskað öryggi vélarinnar. Páll benti á að þar væri hinsvegar algjörlega látið hjá líða að greina frá því að slíkar staðhæfingar hafi oftar en ekki komið fram sem svör við mjög svo leiðandi spurningum lögreglumanna þess efnis.
Athugasemdir