Hann var hláturmildur og hamingjusamur í starfi. Samstarfsfólk hans lýsti honum sem „hjarta og sál“ hótelsins. Ástríða hans í lífinu var að vera morgunverðarkokkur. En þetta átti eftir að breytast hratt. „Það slökknaði á eldmóði hans fyrir lífinu,“ segir vinnufélagi hans. Síðasta haust reyndi hann að svipta sig lífi. Hann rekur vanlíðan sína til breytinga í vinnuumhverfi hans. „Ég elskaði þessa vinnu svo mikið, en hún var orðin að martröð,“ segir hann.
Stundin ræddi við kokkinn Joao Paulo De Brito Linheiro Da Silva, eða Paulo eins og hann er kallaður, ásamt fimm samstarfsmönnum hans á fjögurra stjörnu hótelinu Radisson Blu 1919 í miðborg Reykjavíkur. Starfsmenn hafa kvartað undan því að fá sjaldnast rétt útborgað og greina frá niðurbrjótandi framkomu yfirmanna í þeirra garð. Öllu morgunverðarstarfsfólkinu á vakt Paulo var sagt upp með tilboði um skertan vinnutíma og verri kjör.
Öll eru þau sammála um að starfsaðstæðum hafi farið hrakandi eftir að nýr hótelstjóri var ráðinn síðastliðið haust. Rekstur hótelsins hefur gengið misjafnlega, en árið 2017 var það rekið með sjö milljóna króna tapi samanboriðvið 38 milljóna króna hagnaði árið áður.
Athugasemdir