Kynning fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssonar, á nýjum tillögum að breytingu á sköttum launafólks, er samansafn af missögnum og misskilningi sem enginn getur sent frá sér nema hann skilji þær ekki sjálfur.
Kynningin samanstendur af fréttatilkynningu og skýringaleppum sem varpað var upp á stóran skjá. Þarna er ein lítil breyting útfærð í ótrúlegum ruglingi.
Ég tók saman einfalt excelskjal sem sýnir hvernig núverandi skattar eru reiknaðir af nokkrum mismunandi upphæðum og á sama skjali hvernig þeir munu reiknast þegar tillögur BB verða komnar á að fullu.
Til samanburðar tók ég svo hámarks skattalækkun úr tillögum BB og setti í stað hennar sömu hækkun á persónufrádrætti til að sýna hverju það munar fyrir hvaða tekjuhópa.
Tillögur BB eiga að koma „til framkvæmda í skrefum á árunum 2020-2022“ samkvæmt kynningu BB en ekki á þessu ári.
Í kynningunni var gerður samanburður á sköttum og barnabótum ársins 2018 annars vegar og hins vegar eftir þessum nýju tillögum. Eðlilegra væri að miða við núverandi stöðu á árinu 2019, þar sem þessi tillaga er breyting á henni. Mikið af þeim skattabreytingum sem BB er að sýna, hafa þegar tekið gildi og fólk hefur greitt staðgreiðslu sína samkvæmt þeim frá 1. janúar á þessu ári og fær nú barnabætur eftir þeim líka. Þær eru inni á vef rsk.is.
Skatthlutföll beggja skattþrepa eru þau sömu milli áranna 2018 og 2019, en viðmiðunarmörk milli þeirra hafa hækkað úr skattskyldum launum kr. 893.713,- í kr. 927.087,- á mánuði. Á það að halda sér í nýju tillögunni, en við breytinguna verður gamla lægra skattþrepið að milliskattþrepi milli þess nýja og þess áður efra en nú efsta.
Í nýju tillögunni verður til nýtt lægsta skattþrep sem miðast við 325.000,- króna laun, en ekki er ljóst af kynningunni hvort þar er átt við heildarlaun eða skattskyld laun, sem einnig kallast skattstofn.
Hér er tímabært að skýra hvernig skattaútreikningur er: Heildarlaun mínus iðgjöld í lífeyrissjóð (sem eru bæði 4% í almenna lífeyrissjóði og allt að 4% í séreignasparnað) = skattskyldar tekjur (skattstofn). Af skattstofni er reiknuð skattaprósenta (sem getur verið mismunandi eftir upphæðum í skattstofni) og kallast þá reiknaður skattur. Frá reiknuðum skatti dregst persónufrádráttur og þá verður útkoman skattar til greiðslu. Skattleysismörk eru þær tekjur og tilheyrandi skattstofn sem leiða til að reiknaður skattur er jafn hár persónufrádrætti.
Persónufrádráttur í tillögum BB er óbreyttur frá því sem nú er og á að vera það næstu þrjú árin líka. Mánaðarlegur persónufrádráttur hefur nú þegar hækkað frá árinu 2018 um kr. 2.552,- og létt skatta allra skattgreiðenda sem því nemur.
Breyting á barnabótum, hækkun þeirra frá 2018 til 2019, hefur líka þegar tekið gildi og það er ekkert nýtt þar í nýjum tillögum BB. Þar sem kynning BB sýnir breytingu á barnabótum er sýnt það sem þegar er komið til framkvæmda á árinu 2019.
Í skýringarleppi á kynningu BB segir að skattleysismörk verði við mánaðarlaun kr. 159.174. Svo segir að „Áætluð skattleysismörk miðað við verðlagsþróun verða 178.503 á árinu 2022, persónuafsláttur helst fastur á aðlögunartímabili.“ Rétt er að núverandi skattleysismörk eru við heildarlaun kr. 159.174,- og þau munu verða við kr. 178.503 þegar tillaga BB hefur verið framkvæmd að fullu, hvað sem verðlagsþróun líður.
Það nýja í tillögum BB er: Nýtt neðsta skattþrep (32,94%) verður til á tekjur (á væntanlega að vera skattskyldar tekjur eða skattstofn) undir kr. 325.000 ,- á mánuði. Eftir það taka gamla neðra og efra skattþrepið við með sömu prósentum og áður og sömu skiptingu milli þeirra.
Þetta þýðir að í skrefum á næstu þremur árum, ekki á þessu ári, þá munu:
– Allir sem eru með skattstofn YFIR kr. 325.000,- á mánuði fá skattalækkun um kr. 13.000,- á mánuði.
– Allir sem eru með LÆGRI skattstofn en kr. 325.000,- á mánuði fá minni lækkun en það og fellur lækkunin út þegar núverandi skattleysismörkum er náð.
6.760 hvað!
Svo mótsagnakennd sem fréttatilkynningin er, þá er skýringaleppasýningin alveg úti í mýri. Á fjórða skýringarleppi BB, sem skartar bæði súluriti og grafi, ægir saman mótsögnum og villum:
Grafið sýnir sama byrjunarpunkt fyrir skattleysismörkin fyrir og eftir breytingu, en slíkt stenst auðvitað ekki. Þegar breyting verður á lægstu skattaprósentunni, en persónufrádrátturinn stendur í stað, þá breytast skattleysismörkin með breyttri skattaprósentu.
Vitlausast er samt það sem stendur hægra megin við markalínu 325 þúsundanna. Þar segir: „Mánaðarlaun: 325.000 Meðalskattur 2018: 20,01% Meðalskattur nýtt: 17,85% Mismunur: -2,16% Breyting á ári: -81.120 kr. Breyting á mánuði: -6.760 kr.“
Þarna lítur út fyrir að reiknimeistari fjármálaráðuneytisins hafi farið að reikna áhrif skattbreytinganna á tekjur ríkisins, en grafíkerinn sem bjó til línuritin hélt að hann væri að tala um áhrif breytinganna á einstaka launaseðla fólks og kynnirinn, BB, misskildi báða og hélt um það hjartnæma tölu. Svo fjalla stjórnmálamenn, verkalýðsleiðtogar, fréttamenn og bloggarar um þessar tölur BB eins og þær séu marktækar!
1. Ef nýtt skattþrep miðast við heildarlaun kr. 325.000 á mánuði þá reiknast lægsta skattþrepið af skattstofni undir kr. 312.000 á mánuði, en ef miðað er við skattstofn kr 325.000 á mánuði þá þurfa heildarlaun að ná kr. 338.542 á mánuði, í báðum tilvikum miðað við 4% iðgjald í lífeyrissjóð.
2. Að setja Mánaðarlaun efst í upptalninguna, gefur í skyn að það sem á eftir fer eigi við um þau laun. Það eru villuboð.
3. Enginn borgar meðalskatt neins hóps, sérhver borgar skatta af nákvæmlega þeim launum sem hann hefur sjálfur.
4. Þessi „meðalskattur“ hlýtur því að eiga við meðaltal þeirra sem eru hinu megin við línuna, þ.e. með tekjur undir viðmiðunarmörkunum (þessum 325 þús).
5. Fyrst á annað borð er verið að eltast við smotterí, þá er meðalskattur ársins 2019 lægri en ársins 2018 af því það varð hækkun á persónufrádrætti milli áranna og miða á við breytingu frá núverandi stöðu.
6. Mismunur á prósentu og prósentustigi er grundvallarmunur, sem margar reikningsskekkjur hafa hrasað um. Ef skatthlutfall lækkar úr 20,01% í 17,85% þá er það lækkun um 2,16 prósentustig, en ekki um 2,16% heldur um 0,9%.
7. Að lækka skatta úr 36,94% í 32,94% er lækkun um 4 prósentustig í því þrepi, en það er lækkun um 0,9%.
8. Meðaltals skattalækkun þess hóps sem við er átt í upptalningunni, er eins og segir um breytingu á ári með skattalækkun um kr. 81.120, sem svarar til breytingar á mánuði um 6.760 króna lækkun. Þetta er hins vegar langt í frá sú skattalækkun sem allir fá!
9. Hámarks skattalækkun skv. tillögum BB er kr. 13.000,- á mánuði og hana fá allir þeir sem eru með skattstofn yfir 325.000 krónum á mánuði, en þeir sem eru undir þeim mörkum fá minna.
10. Þessi skattalækkun er meiri en 2,16% hjá öllum sem eru með skattstofn undir 600 þúsund á mánuði, en minni hjá þeim sem eru yfir þeim mörkum.
Mér finnst eðlilegt að þegar fjármálaráðherra kynnir tillögu að skattabreytingum, þá sýni hann rétta útreikninga.
Hvað þá með 13.000?
Fjármálaráðherra kynnir þessa skattabreytingu svo: „Þrepamörk 1. og 2. þreps sett við 325 þ.kr. til að hámarka ávinning tekjulægri hópa ásamt öryrkjum og öldruðum“.
Fyrir það fyrsta eru öryrkjar og aldraðir ekkert ásamt tekjulægri hópum nema þeir séu tekjulágir sjálfir, sem þeir eru að vísu margir, en þeir eru líka misríkir eftir stéttum.
Hvernig getur það hámarkað ávinning tekjulægri hópa að þeir sem eru með skattstofn undir þessum 325 þúsundum fái minni skattalækkun en allir þar yfir?
Hverju myndi það breyta ef persónufrádráttur yrði lækkaður um krónur 13.000,- á mánuði, en skattþrepin stæðu annars óbreytt frá því sem þau eru núna?
Í stuttu máli myndu allir þeir sem eru með skattstofn yfir kr. 195.833,- á mánuði fá 13.000 króna skattalækkun, en ekki bara þeir sem eru með skattstofn yfir kr. 325 þúsund. Þeir sem eru með lægri tekjur en 195.833 eru nú að borga lægri skatta en 13.000 og verða því undir skattleysismörkum eftir nefnda hækkun persónufrádráttar og lækka þar með um allt það sem þeir borga núna, þótt það sé minna en 13 þúsund.
Fyrir tekjulægsta hópinn, fólkið með lægri skattskyld laun en 325 þúsund á mánuði kæmi það mun betur út að fá 13.000 króna hækkun á persónufrádrætti en að fá þessa lækkun neðsta skattþrepsins. En það munaði engu fyrir hina tekjuhærri. Slíkt myndi „hámarka ávinning tekjulægri hópa“ – en nei, ríkisstjórnin ætlar ekki að hækka persónufrádráttinn fyrr en í fyrsta lagi að sjá til eftir árið 2022.
Í stuttu máli fela tillögur BB um skattabreytingar í sér:
Þær koma til framkvæmda í áföngum á árunum 2020 til 2022.
Meiri skattalækkanir en skilja mátti á kynningu BB.
Nýtt lægsta skattþrep sem skilar 13 þúsund króna skattalækkun fyrir alla með skattskyld laun yfir 325 þúsund krónum á mánuði en minna fyrir þá tekjulægri.
Enga hækkun persónufrádráttar til ársloka ársins 2022 og áfram sömu efri skattþrep.
Enga hækkun skatta á hærri laun til að vega upp á móti öðrum skattalækkunum.
Enga breytingu á barnabótum frá því sem nú er.
Ekkert um breytingu á vaxtabótum eða húsnæðisbótum.
Ekki 6.760 króna skattalækkun á mánuði fyrir alla!
Athugasemdir