Talsverð umræða hefur skapast að undanförnu um þátttöku hljómsveitarinnar Hatari í forkeppni Eurovision. Nokkurs konar Hatara-æði hefur gripið þjóðina, og umræðan hefur borist út fyrir landsteinana. Kannanir hér heima sýna að þeir eru mjög sigurstranglegir. Hljómsveitin hefur gefið þá skýringu á þátttöku sinni að með henni vilji þeir gagnrýna stefnu Ísraelsríkis gagnvart Palestínu.
Sviðssetningin
Ég sjálf er vinur hljómsveitarmeðlima og hef unnið með þeim. Þegar ég, fyrir um ári síðan, frétti af fyrirhugaðri þátttöku þeirra í keppninni fannst mér hugmyndin frábær og ég hugsaði með mér að það yrði gaman að hrista aðeins upp í þessari stöðnuðu keppni. Eftir að kom í ljós að keppnin yrði haldin í Ísrael ímyndaði ég mér að þeir hefðu hætt við, myndu bíða kannski í eitt ár. En þvert á móti þykir þeim víst núna ennþá meiri ástæða til þátttöku.
„Ég ætla ekki að efast um að Hatari séu einlægir í ásetningi sínum að hjálpa Palestínu, en með þessum gjörningi gera þeir þvert á móti“
Ég gleymi því ekki þegar ég sá Hatara spila í fyrsta skipti. Loksins eitthvað nýtt, band sem vinnur með performanslist, með framsetningu sem er erfitt að greina nákvæmlega hvað stendur fyrir. Framkoma þeirra á sviði, líkamsbeitingin, og samspil hins ógnvekjandi, hins annarlega, hins kvenlæga og hins kynferðislega – heillaði mig. Ég tók undir þegar einhver sagði að þeir væru kannski GusGus minnar kynslóðar. Textarnir snertu mig í sínu djúpa svartnætti, og ég missti mig í dansi við þessa grípandi tónlist. Ég fílaði tvöfeldnina. Annars vegar að sviðssetja eins konar andstöðulist sem á að vekja fólk úr álögum kapítalismans og rútínu. Hins vegar að taka fullan þátt í þeim sama mekanisma og keyrir kapítalískt þjóðfélag áfram – strax komnir í Kastljósið. Eins og ég sá þetta þá var sviðssetningin myndlíking fyrir nýfrjálshyggjuna, græðgissamfélagið, karlmenn að segja eitt en gera annað – í heimi þar sem sannleikurinn skiptir ekki lengur neinu máli. Konseptið „Hatari“ fór í hringi.
Mér var þó ljóst að það er margt próblematískt við svona sviðssetningu, sérstaklega þar sem framkoma hópsins, raddbeiting, yfirbragð og klæðnaður ber með sér skýrar tilvísanir til fasisma og jafnvel kynþáttahyggju. Klæðnaðurinn ber einnig með sér ýmis tákn BDSM-hreyfingarinnar. Ég spurði sjálfa mig hvaða tilgangi það ætti að þjóna fyrir Hatara að eigna sér (e. appropriate) þessa menningu og þessa sögu, nema þá til að vera kúl. En það var fleira. Ég átti erfitt með að leiða það hjá mér þegar þeir síðar bættu við tveimur kvenkyns dönsurum á sviðið, sem hafa það eina hlutverk að skreyta og magna upplifunina. Nú voru strákarnir búnir að taka á sig birtingarmynd valdsins, á meðan konurnar voru sýndar sem undirgefnar, vélrænar og raddlausar.
„Nú voru strákarnir búnir að taka á sig birtingarmynd valdsins, á meðan konurnar voru sýndar sem undirgefnar, vélrænar og raddlausar“
Þessir fyrirvarar mínir komust á annað stig þegar ég frétti að Hatari ætlaði þrátt fyrir allt að bjóða sig fram í Eurovision í Ísrael. Bæði ætla þeir að setja konseptið „Hatari“ í þetta samhengi, og gera það í þeim tilgangi að fremja einhvers konar gjörning til að gagnrýna framgöngu Ísraelsríkis. Nú var þetta ekki lengur leikur. Nú var þetta spurning um hvað það þýðir að notfæra sér þennan vettvang sem Eurovision er til að koma sjálfum sér og list sinni á framfæri undir yfirskini mannréttindabaráttu, í þessu tilfelli baráttu þjóðar sem í marga áratugi hefur þurft að búa við kúgun og harðræði. Hér er mikilvægt að nefna að það er að sjálfsögðu ljóst að það er stjórn og stjórnkerfi Ísraelsríkis sem er ábyrg fyrir ofbeldi gagnvart Palestínumönnum, en ekki ísraelska þjóðin, hvað þá heldur gyðingar um allan heim.
Ekki hægt að tala um tvær hliðar
Ég er enginn sérfræðingur í málefnum Palestínu. Ég fór þó þangað fyrir rúmu ári síðan. Fyrst var ég Ísraelsmegin, og tók þátt í opinberri listahátíð í Jerúsalem, sem var styrkt af utanríkisráðuneyti Ísraels. Ég er sviðslistamaður, listgagnrýnandi og framleiðandi – og mig langaði til að kynnast listasenunni þar, sem og í Palestínu, og mynda sambönd. Áður en ég fór stóð ég í þeirri trú að hægt væri að tala um deiluna milli Ísraels og Palestínu frá báðum hliðum, og hunsaði viðvaranir fólks um að ég ætti að sniðganga allt sem tengist Ísrael. Mér var tekið vel á hátíðinni og ég kynntist fullt af fólki. Þarna var komið saman listafólk og framleiðendur, en samt var látið eins og allt væri þarna í fína lagi, og glansmyndin um paradísarríkið Ísrael var vel teiknuð upp. Stóra málið sem var undirliggjandi var aldrei rætt, það var eins og Palestína væri ekki til. Þegar ég minntist á Palestínu mætti ég nístandi þögn, fyrir utan eitt skipti þegar ein kona lýsti því yfir að „arabar“, eins og hún kallaði Palestínumenn, væru aldir upp í þeim eina tilgangi að drepa almenning í Ísrael.
„Þegar ég fór yfir til Palestínu fékk ég örlitla innsýn inn í líf þeirra sem búa við þetta hernám og hrylling“
Þegar ég fór yfir til Palestínu fékk ég örlitla innsýn inn í líf þeirra sem búa við þetta hernám og hrylling. Ég kynntist fólki í þeirra daglega umhverfi, og vinsemd þess og gestrisni snerti mig djúpt. Meðferðin sem Palestínumenn þurfa að upplifa er svo hræðileg að orð fá því varla lýst. Eitt dæmi var þegar ég sat í rútu við eftirlitsstöð þar sem Palestínumönnum var smalað út í kuldann til að gangast undir niðurlægjandi athugun á skilríkjum líkt og dýr í búri, meðan ég, hvíta konan, fékk að sitja inni. Ég gleymi aldrei hvernig ísraelsku hermennirnir komu fram við fólkið, sem eitthvað ómennskt, ekki verðugt snefils af virðingu. Ég hef aldrei upplifað forréttindastöðu mína jafn sterkt.
Þegar annar aðilinn í ríkjandi stöðu kúgar hinn aðilann kerfisbundið, þá er varla hægt að tala um „deilu“ milli tveggja aðila. Stefna Ísraels er ekkert annað en aðskilnaðarstefna (e. apartheid), sem birtist í því að þarna búa milljónir manns sem hafa ekki lágmarksréttindi. Ísrael notar menningu sem áróðursvopn til að hvítþvo og réttlæta hernám sitt og landtöku gagnvart Palestínumönnum. Í Suður-Afríku var það þrýstingurinn og sniðgangan frá alþjóðasamfélaginu sem hafði mikil áhrif á að aðskilnaðarstefnunni þar var aflétt. Mikill meirihluti Palestínumanna (rithöfundar, listamenn, menningarstofnanir meðtalin) lítur svo á að það besta sem fólk og stofnanir frá öðrum þjóðum geta gert til að hjálpa, sé að sniðganga Ísrael, þar með talið menningarviðburði.
Glansmynd Ísraels
Eurovision er sameiginlegur vettvangur ríkisrekinna sjónvarpsstöðva allra Evrópulanda, þar sem keppendur koma fram sem fulltrúar sinna ríkja. Það má deila um tilgang og gildi keppninnar, en þó er ljóst að hún hefur oft verið notuð í hálfpólítískum tilgangi. Það var því ljóst að þegar Ísrael vann réttinn til að halda keppnina að þá myndi skapast einstakt tækifæri fyrir ríkið að sýna glansmyndina af sjálfu sér og láta sem svo að um eðlilegt ástand sé að ræða í landinu. Tveimur dögum eftir að Ísrael vann keppnina 2018 myrti Ísraelsher 62 Palestínumenn á Gaza, þar af sex börn. Í sömu viku sagði sigurvegarinn, Netta Barzilai, opinberlega að „nú munu allir sjá hvað við erum frábær, besta fólkið, besti staður í heimi“.
„Tveimur dögum eftir að Ísrael vann keppnina 2018 myrti Ísraelsher 62 Palestínumenn á Gaza, þar af sex börn“
Það má teljast líklegt að Ísrael noti keppnina til að beina athyglinni frá vaxandi mótmælum alþjóðasamfélagsins gegn kúguninni sem þeir eru að stunda. Jafnframt má ætla að með árangursríkri ímyndarsköpun geti keppnin aflað aukinna tekna og velvildar á alþjóðavettvangi. Fagrar náttúrumyndir munu birtast á skjánum milli sönglaganna, náttúra og land sem Ísrael tók frá öðrum. Palestína verður vel falin.
Palestínumenn hafa beðið okkur, Eurovision-neytendur og -þátttakendur, að fara þá leið að sniðganga keppnina. Á heimasíðu BDS-hreyfingarinnar, sem hefur forystu í sniðgöngunni, kemur meðal annars fram að 8% Íslendinga hafi skrifað undir ákall til RÚV um að sniðganga keppnina í ár. Eins og kunnugt er ákváðu stjórnendur RÚV þó að Ísland myndi taka þátt, með þeim rökum að þetta væri ekki pólitísk keppni.
Tilgangur gjörningsins
Hatari keppti á fyrsta kvöldi forkeppni Eurovision í Háskólabíói. Þá blasti við áhorfendum svipuð uppsetning og stíll og ég hef hér áður greint frá. Valdslegir strákar í forgrunni, stelpurnar í hlutverki sem minnir á gógódansara, og svo einn dansari í hlutverki einhvers konar undirgefins gæludýrs, allt múnderað í fasískum hernaðarstíl. Hver eru skilaboðin með þessari framsetningu? Hver er pólitíkin í þessu? Hvernig á þetta að tala inn í það umhverfi sem Eurovision er? Á þetta að skiljast sem einhver analógía fyrir samskipti Ísraels og Palestínu? Eða á þetta að vera írónía á valdamisræmi kynjanna? Og kannski ekki síst – er það ætlunin að þetta sé einhvers konar lexía fyrir Ísraelsmenn sem eru af stórum hluta afkomendur fólks sem var ofsótt af fasískum öflum með þeim hætti sem aldrei hefur sést í heimssögunni? Trúa þeir því virkilega að með því að sviðssetja fasíska tilburði að þeir séu að hjálpa því erfiða ástandi sem þarna er? Trúa þeir því virkilega að listin í þessu tilfelli hafi einhvern göfugan tilgang?
„Yfirlýsingin ber með sér ekkert nema fáfræði og forréttindablindu“
Ýmislegt fleira hefur gerst í Hataramálinu. Það kom út grein hjá The Reykjavík Grapevine með yfirlýsingu þar sem hljómsveitarmeðlimir skora á forsætisráðherra Ísraelsríkis í glímu. Þetta á auðvitað að vera grín og yfirlýsingin angar af kaldhæðni. Ég efast um að Palestínumenn, sem á hverjum degi hætta lífi sínu í baráttu fyrir því eina að fá að lifa mannsæmandi lífi, myndu hlæja. Yfirlýsingin ber með sér ekkert nema fáfræði og forréttindablindu. Jafnframt bera þeir því við að með því að taka sér hlutverk „hirðfíflsins“, eins og reyndar er alþekkt í listasögunni, og sögu Palestínu, þá geti þeir komið á framfæri skilaboðum sem annars er ekki hægt að birta. Vandinn við þessa röksemd er sá að hlutverk hirðfíflsins er ekki trúverðugt nema sá sem gegnir því geti ekki tjáð sig frjálst með öðrum hætti. Hatari er einfaldlega ekki í þeirri stöðu.
Ef Hatari kemst áfram á æðið bara eftir að magnast á næstu misserum, og forréttindablindan í samfélaginu er áþreifanleg. Nú eru fjölmargir þeirra sem sögðust ætla að sniðganga keppnina að fylgjast ákafir með, hvetja, pósta, kjósa og dást að sínum mönnum. Ástæðan: þetta er „pólitískur gjörningur.“ Þar af leiðandi er hvíta samviskubitið „okkar“ friðað að fullu og „okkur“ líður eins og „við“ séum að taka þátt í einhverju „góðu“, einhverri byltingu á móti því „vonda“. Fólk getur þannig réttlætt fyrir sjálfu sér að það styðji Palestínumenn með því að styðja Hatara. Stöldrum aðeins við. Hvað gæti mögulega verið skrítið við þessa réttlætingu?
Biðja Palestínumenn um að hvítir, efristéttar forréttindastrákar vopnaðir elektró-tónlist tali þeirra máli? Nei, það sem Palestínumenn biðja um er að keppnin verði sniðgengin. Hatari lætur þessar óskir sem vind um eyru þjóta, og ákveða sjálfir hvað sé réttast fyrir Palestínu, á eigin forsendum. Þetta er ekki að sýna samstöðu, þetta er að hunsa samstöðu, því raunveruleg samstaða felst í því að hlusta og taka svo til hendinni á grundvelli þess sem maður heyrir. Einnig er ekki hægt að líta framhjá því að þátttakan í Eurovision þjónar, að einhverju leyti að minnsta kosti, þeim tilgangi að vekja athygli á hljómsveitinni og koma þeim sjálfum á framfæri. Skiptir þá kannski ekki öllu máli hvort þeim tekst að komast að í sjálfri keppninni, því hitt, að vera bannað að taka þátt, á eftir að vekja ekki síðri athygli. Hatari er í win-win stöðu.
Að bjarga heiminum
Hugtakið „White Saviour Complex“ kemur í hugann. Í grunninn á það við um hvítt fólk sem ákveður að „hjálpa“ hörundsdekkra fólki, oft í fátæku landi. Ætlunin er kannski að gera gott, en að baki býr löngun til að öðlast tilfinningalega og innihaldsríka reynslu sem þjónar þeirra eigin egói. Sjálfboðaliða-túrismi er talinn vera gott dæmi um þetta. Ég ætla ekki að efast um að Hatari séu einlægir í ásetningi sínum að hjálpa Palestínu, en með þessum gjörningi gera þeir þvert á móti. Þeir taka röddina frá Palestínumönnum og ákveða fyrir þeirra hönd hvað sé rétt. Um leið slá þeir þessu öllu saman upp í eitt stórt við-ætlum-að-bjarga-heiminum-partí. Slík nálgun er ekki einsdæmi, og hefur átt sér margar birtingarmyndir. Frægt dæmi er þegar ofurmódelið Kendall Jenner tók þátt í Pepsi-auglýsingu sem var harðlega gagnrýnd þar sem fyrirtækið var að notfæra sér Black Lives Matter-hreyfinguna til eigin hagsmuna.
„Hatari skreyta sig með baráttu sem þeir hafa engan rétt á að representera. Þeir taka réttindabaráttu heillar þjóðar og gera hana að tískuyfirlýsingu“
Hatari skreyta sig með baráttu sem þeir hafa engan rétt á að representera. Þeir taka réttindabaráttu heillar þjóðar og gera hana að tískuyfirlýsingu. Um leið er það líka staðreynd að þeir hafa aldrei sýnt það í verki að þeir séu andkapítalískir í raun, til dæmis með því að styðja við verkalýðsbaráttu eða berjast fyrir réttindum minnihlutahópa. Þetta eru hvítir karlmenn sem fatta að þeir geta verið geðveikt töff ef þeir gera svona list, fasíska og harðsvíraða. Slík list virðist höfða til samtímans þar sem fólk leitar að alternatífum lausnum við ríkjandi valdakerfi og popúlísk öfl með sterkum valdsmönnum ná áhrifum í viðsjárverðum heimi. Boðskapurinn sem birtist í texta lagsins er niðurdrepandi og fullur sjálfseyðingar. Það hjálpar engri réttindabaráttu að opinbera að það sé engin von, að „tómið heimtir alla ... hatrið mun sigra, ástin deyja.“
Að hlusta og taka ábyrgð
Ef ég þyrfti að svara þeirri spurningu hvort mér finnist betra að sá sem velst sem fulltrúi Íslands syngi hefðbundið lag, frekar en að hann sviðsetji pólítískan gjörning, þá er svar mitt „já“. Já, mér finnst betra að Friðrik Ómar fari til Tel Aviv að syngja um hyldýpi ástarinnar og láti eins og ekkert sé. Mér finnst það betra heldur en að fyrir okkar hönd fari þarna hópur sem í einfeldni sinni gefur út pólitískar yfirlýsingar sem hvorki eiga sér samsvaranir hjá okkur hér heima né heldur hjá þeim sem verða fyrir kúguninni. Mér finnst það betra því mér finnst allt betra en að eigna sér rödd annarra. Palestínumenn vilja ekki láta bjarga sér, þeir vilja fá jöfn réttindi við aðra og frelsi til að lifa eigin lífi. Þeir munu halda áfram baráttu sinni hvort sem einhver hljómsveit hér á Íslandi fer í Eurovision eða ekki, og sú barátta er háð á mörgum vígstöðvum. Fyrir okkur er valið hvort við sýnum samstöðu með því að sniðganga keppnina eða hvort við tökum þátt og göngum þannig eigin erinda. Hatari hefur valið það síðara. Listin getur verið afl til að knýja fram breytingar, en afli fylgir ábyrgð, ábyrgð á því hvað og hvernig er verið að segja eitthvað, hver er að segja það, og við hvern.
Athugasemdir