Skiptum í þrotabúi félagsins Moxom ehf. er lokið án þess að neitt hafi fengist upp í lýstar kröfur sem voru um 170 milljónir króna. Tilkynnt var um þetta í Lögbirtingablaðinu fyrir helgi. Áður hét félagið NF Holding ehf., var í eigu Ágústs Magnússonar og tengdist þyrlufyrirtækinu Norðurflugi.
Norðurflug var í eigu fjárfestingarfélagsins Sunds fyrir hrun en á meðal eigenda þess voru Páll Þór Magnússon, Páll Kristjánsson og Birgir Ómar Haraldsson.
Stundin greindi frá því árið 2016 að fjórir fyrrverandi stjórnendur og eigendur Sunds, þau Páll Þór, Jón Kristjánsson, Gabríela Kristjánsdóttir og Þórunn Jónsdóttir, væru prókúruhafar í þremur skattaskjólsfélögum á Seychelles-eyjum samkvæmt upplýsingum úr Panamaskjölunum. Fram kom að þau hefðu skilið eftir sig skuldaslóð á Íslandi en notað félögin í skattaskjólinu til að halda utan um eignir hérlendis. Þá var haft eftir skiptastjóra að torvelt hefði reynst að innheimta kröfur sem fyrri eigendur Sunds voru dæmdir til að greiða þrotabúinu.
Áður en Sund varð gjaldþrota árið 2012 seldu stjórnendur þess Norðurflug út úr fyrirtækinu til NF Holding (síðar Moxom ehf.) – félags Ágústs Magnússonar, viðskiptafélaga Sundaranna – með 120 milljóna seljendaláni sem aldrei var greitt.
Áður en NF Holding fór svo í þrot var Norðurflug selt aftur til fyrri eigenda Sunds. NF Holding reyndist eignalaust og fékkst ekkert upp í kröfurnar sem lýstar voru í þrotabú þess.
Í lok árs 2014 voru fyrrverandi eigendur og stjórnendur Sunds og aðilar tengdir þeim dæmdir til að endurgreiða þrotabúi félagsins tæplega 500 milljónir króna. Páli Þór Magnússyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Sunds, var gert að greiða búinu 120 milljónir, en Fréttablaðið greindi frá því að fimm dögum eftir að dómurinn féll hefði Páll selt helming í húsi sínu í Garðabæ til eiginkonu sinnar og þrotabúinu ekki tekist að innheimta skuldina.
Athugasemdir