Króatískur matreiðslumaður sem vann 425 klukkustundir á veitingastað í Snæfellsbæ segir að eigandi staðarins hafi ekki borgað sér neina yfirvinnu. Eftir að hann ræddi við stéttarfélagið sitt, sem staðfesti grun hans, rak eigandinn hann úr vinnu.
Maðurinn hóf að mótmæla daglega fyrir utan veitingastaðinn og íslensk kona sem hafði unnið hjá sama eiganda gekk til liðs við hann. Sjálf hafði hún þurft að sækja vangoldin laun sín í atvinnuleysistryggingarsjóð þegar fyrirtæki eigandans fór á hausinn.
Eigandi veitingastaðarins segir málið vera uppspuna og tekur skýrt fram að ef hann hafi ekki greitt rétt laun þá hafi hann ekki vitað betur, en staðfestir að hann hafi haldið aftur síðasta launaseðli starfsmannsins.
Leiga dregin af launum án leigusamnings
Hinn 36 ára Robert Zubcic flutti til Íslands í ágúst síðastliðnum eftir að honum bauðst starf á veitingastaðnum Hrauni í Ólafsvík sem kokkur. Robert segist hafa lokið þriggja ára kokkaskóla í Króatíu og að hann hafi starfað sem kokkur í Þýskalandi og liðið vel þar, en að hann hafi heillast af Íslandi. „Ég hafði heyrt að Ísland væri mjög framsækið og virti mannréttindi, og að hér væri hægt að fá góð laun,“ segir Robert. „Ég ræddi við eigandann í símann og hann lofaði að ef ég myndi koma fengi ég um 3.000 evrur á mánuði [um 412.000 kr.]. En þegar ég kom hingað byrjaði martröðin.“
„En þegar ég kom hingað þá byrjaði martröðin.“
Robert segir að Jón Kristinn Ásmundsson, sem er framkvæmdarstjóri og eigandi veitingarstaðarins til hálfs á móti konu sinni, hafi ráðskast með sig og komið illa fram við sig og aðra. „Hann lét alltaf eins og hann væri mikilmenni, eins og að hann gæti ekki gert nein mistök.“ Roberti var útvegað herbergi í íbúð sem hann segir að hafi verið mjög skítug, illa lyktandi og að það hafi ítrekað ekki verið rennandi vatn í íbúðinni.
Athugasemdir