Endurgreiðslur vegna aksturskostnaðar þingmanna voru hærri á þeim tímabilum sem kosningabarátta stóð yfir árin 2013, 2016 og 2017. Ferðir „vegna kosninga“ geta talist „í tengslum við störf“ alþingismanna.
Þetta kemur fram í svari Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, við fyrirspurn Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata. Fram kemur að frá janúar til júní 2013 hafi endurgreiðslur verið 11 milljónum krónum hærri en seinni hluta sama árs. Kosningar fóru fram í apríl það ár.
Þá sést að seinni hluta árs bæði 2016 og 2017 voru endurgreiðslur hærri en á fyrri hlutanum. Bæði árin fóru þingkosningar fram í lok október.
„Almennt verður að líta svo á að ferðir „vegna kosninga“ geti verið „í tengslum við störf“ alþingismanna,“ segir í svari forseta Alþingis. „Tilefni slíkra fundarferða, oftast í aðdraganda kosninga, getur verið mjög mismunandi, t.d. að hitta kjósendur að eigin frumkvæði eða að ósk einstaklinga eða hagsmunaaðila til að fara yfir þau störf sem þingmaður hefur unnið á kjörtímabilinu og hvað standi honum næst á komandi þingi. Litið hefur verið svo á að í slíkum tilvikum sé þingmaður að sinna starfi sínu gagnvart kjósendum sínum.“
Þá segir að ekki sé hægt að álykta að allar ferðir þingmanns í aðdraganda kosninga séu vegna kosninga. Ekki sækist allir þingmenn eftir endurkjöri þó svo að þeir eigi fundi með kjósendum sínum í kjördæmum undir lok kjörtímabils.
„Forseti hefur eigi að síður íhugað, og það alllengi, hvort gera þurfi breytingar á reglum um ferðakostnað sem tækju til þingmanna sem leita endurkjörs í þeim tilgangi að girða fyrir mögulegan aðstöðumun á milli þeirra og frambjóðenda sem ekki sitja á þingi á tilteknu tímabili í aðdraganda kosninga,“ segir í svarinu. „Forseti hefur rætt það mál við varaforseta, formenn þingflokka og fleiri og hyggst taka málið upp í forsætisnefnd á þessu kjörtímabili. Ljóst er þó að setning reglna um ferðir þingmanna í aðdraganda kosninga getur verið vandasöm.“
Í færslu á Facebook segir Björn Leví að svar forseta sé „steypa“. Hann gagnrýnir framsetningu gagna í svarinu og þá niðurstöðu forseta að það „geti verið“ að ferðir þingmanna tengist störfum þeirra í þinginu en ekki kosningabaráttu.
„Já, “geti verið“,“ skrifar Björn Leví. „Það þýðir ekki að þær séu það. Það er á ábyrgð forseta að sjá til þess að nægum gögnum sé skilað til þess að hægt sé að sýna fram á að fundargerð sé endurgreiðanleg. Þetta svar er steypa. Forseti þarf að svara þessu aftur.“
Athugasemdir