Við erum stödd í lítilli blokkaríbúð á jarðhæð í Mosfellsbæ árla morguns. Tónlist Ellýar Vilhjálmsdóttur, túlkaðri af Katrínu Halldóru Sigurðardóttur, leik- og söngkonu, ómar um rýmið í bland við pensilstrokur listamannsins Þóris Gunnarssonar, sem er betur þekktur undir listamannsnafninu Listapúkinn. Hann situr við stofuborðið umkringdur málningu, penslum og litum, algjörlega niðursokkinn í málverk dagsins – mynd af bróður hans og eiginkonu, þeim Þormari Vigni Gunnarssyni og Helenu Benjamínsdóttur, sem giftu sig á dögunum. „Fólk verður að sjá Listapúkann að verki,“ segir Þórir og skellir upp úr eins og honum einum er lagið.
Listapúkinn er fyrir löngu orðinn landsþekktur fyrir sín næfísku verk þar sem menn og dýr eru á meðal helstu mótífa. Hann hélt sína fyrstu einkasýningu í Álafosskvos undir nafni Listapúkans árið 2012 og var með stærðarinnar yfirlitssýningu af vatnslitamyndum sínum á vinnustofunni Hvirfli í Mosfellsdal í tilefni af fjörutíu ára afmæli sínu í fyrra. Listamaðurinn hefur haft í nógu að snúast undanfarið enda hefur færst í vöxt að fólk panti myndir hjá honum yfir jólavertíðina. Á tímabili voru pantanirnar svo margar að hann átti hreinlega erfitt með að anna eftirspurn en það hafðist þó allt saman á endanum.
Athugasemdir