Það er hefð fyrir því að horfa um liðin veg við endalok árs, líta til framtíðar en minna fer fyrir núinu. Andartakinu þegar allt smellur saman í núvitund. Ástandinu þar sem maður finnur fyrir smæstu hreyfingu í orkunni allt um kring og missir sig í að skynja það sem samfellu þess sem verður og var. Sumir kalla þetta ástand hugleiðslu en aðrir kalla þetta að vera. Í nútímanum er mjög erfitt að finna næði fyrir síbyljunni til að fara inn í þetta ástand. Síbyljan er nefnilega ekki lengur í útvarpi eða sjónvarpi, síbyljan er veira sem hefur tekið sér bólfestu inni í okkur. En markmið þeirra er að finna hýsil (okkur). Til að fjölga sér koma þær á stríði inni í okkur til að fjölga sér hratt og örugglega uns hugsanir okkar springa helsjúkar út á samfélagsmiðlunum og finna sér nýja hýsla til að fjölga sér enn frekar með ranghugmyndum og írafári um oftast ekki neitt á meðan við sem mannkyn færumst á ægihraða nær hengiflugi afleiðinga manngerðra hörmunga vegna hlýnunar jarðar.
Það er rifist um allt og ekkert alls staðar, enda markmið bláskjás að soga okkur inn í eins konar bipolar hugarástand þar sem við getum ekki slitið okkur frá rifrildinu nema til að fylla tómið með einhverju drasli sem við verðum skyndilega að eignast. Ástandið er orðið svo alvarlegt að sumir standa ekki upp frá skjánum til að sinna grunnþörfum, það er alltaf eitthvað nýtt til að fanga hugann, við erum búin að tylla okkur rækilega í fiskabúrið og viljum ekkert frekar en að fá 1.000 hjörtu og broskalla á fagurlega ýktar gluggaskreytingarnar á meðan tómið nær aldrei alveg að fyllast af innihaldslausu draslinu.
„Þetta fólk er allt eins, það er fallegt, það hefur aldrei liðið skort, það hefur frá unga aldri verið undirbúið fyrir leiðtogahlutverk“
Þetta á auðvitað ekki bara við um Ísland. Þetta er svona úti um allan heim og yfirborðsmennskan hefur alið af sér öld heimsku og ótta. Alls staðar eru fasistar, nýnasistar, rasistar, öfgamenn og einræðisherrar að ná völdum. Á móti þeim er teflon-fólkinu telft fram, fólk sem hefur enga tengingu við almenning sem nær ekki endum saman. Þetta fólk er allt eins, það er fallegt, það hefur aldrei liðið skort, það hefur frá unga aldri verið undirbúið fyrir leiðtogahlutverk og það mun allt eiga stutta og áhrifalausa setu í forsætisráðherrastól. Teflon-fólkið er eiginlega hættulegra en ljótu karlarnir. Það gefur nefnilega fólki von, sem það svo markvisst drepur, með svikum og vanhæfni vegna þess að þetta fólk hefur enga dýpt, engan skilning, það er ekkert nema yfirborðið og þægilegheitin.
Popúlistarnir okkar
Úti í stóra heiminum eru flestir popúlistar hægri öfgamenn sem daðra við fasisma og ofbeldi. Úti í hinum stóra heimi eru popúlistar þeir sem ala á ótta og sundrung gagnvart og meðal minnihlutahópa sem eiga sér fáar varnir eða málsvara sem geta ofið saman mynd sem sýnir hverjir það eru í raun og sann sem þarf að sameinast gegn í stað þess að berjast gegn hvort öðru.
„Okkar popúlistar vita hvernig það er að þurfa að berjast fyrir tilverurétti sínum“
Við erum rosalega heppin með popúlistana okkar. Þeir eru oftast venjulegt fólk sem er búið að fá nóg af mismunun og valdníðslu og eru tilbúnir að berjast fyrir réttindum annarra. Okkar popúlistar eru leikskólakennarar, reiðhjólasalar, öryrkjar, listamenn, hugsjónafólk, innflytjendur og sjómenn, svo fátt eitt sé nefnt. Okkar popúlistar vita hvernig það er að þurfa að berjast fyrir tilverurétti sínum sem og annarra og kann að byggja brýr á milli ólíkra hópa sem höfðu ekki áratugum saman fundið leiðir til að verja sig gegn þeim sem gjarnan eru kenndir við efsta lagið, við kolkrabba og útrásarvíkinga og ættarboga í valdastólum, innan stjórnarráðsins sem utan.
Okkar popúlistar stofna til mótmæla og kerfjast djúpstæðra breytinga, þeir stofna til alls konar viðburða og nýrra hefða, þeir stofna alls konar stjórnmálaflokka og félagasamtök til að berjast fyrir auknum lýðræðislegum réttindum þeirra sem alla jafna eru kúgaðir og sniðgengnir.
Okkar popúlistar berjast fyrir nýrri stjórnarskrá, fyrir aukinni ábyrgð þeirra sem hafa efni á að sniðganga lögin sem þeir sjálfir áttu hönd í bagga með að skrifa. Okkar popúlistar skilja að breytingar taka oft langan tíma að raungerast og krefjast þátttöku þeirra sem aldrei héldu að hefðu rétt á að láta sínar skoðanir og raddir hafa áhrif á samfélagsgerð og réttindi.
Ég bind miklar vonir við okkar séríslensku popúlista sem vita að það þarf að byrja á réttum enda, að færa grasrót völd sem hafa raunveruleg áhrif til langtíma.
„Hættum að bíða eftir því að einhver komi og bjargi okkur frá okkur sjálfum“
Engar breytingar sem okkar popúlistar standa fyrir eru auðveldar. Þetta fólk stendur frammi fyrir linnulausum árásum tilbera þessa samfélags sem hafa komist upp með jafn fáránlega hugmyndafræði og að breytingar í þágu almennings séu eitthvað sem almenn sátt ríki um. Eina sáttin sem þetta fólk hefur viljað samþykkja er sátt um að þeir haldi áfram að fá að fleyta rjómann af öllu sem þetta samfélag á sameiginlega og þeir sem vinna mestu erfiðisvinnuna fá bara undanrennuna. Það eru átök fram undan, vegna þess að þeir sem fleyta rjómann létu það ekki nægja, þeir tóku allt og skildu ekki einu sinni eftir mysuna. Það mun kosta átök og samstöðu sem tilberarnir eru snillingar að rjúfa með alls konar sögum um að þeir sem berjast fyrir þeim sem verst eru settir í samfélaginu séu Grýlur og Leppalúðar, ógnvænlegar verur sem éta börn hinna ríku.
EN nú er lag að láta ekki glepjast af áróðri þeirra. Breytinga er þörf. Ekki bara leiðréttingar á launum, heldur leiðrétting á samfélagsgerðinni í heild. Þær breytingar sem gætu unnist í tengslum við mismunum af ýmsu tagi og skort á að grundvallar mannréttindi séu virt, munu ekki halda nema að stjórnarskráin sem almenningur fékk náðarsamlegast að breyta en ekki nota og njóta er komið í gegn.
Stjórnmálamenn hafa sýnt það áratugum saman að þeim er ekki treystandi fyrir þessu verkefni. Þeir virðast ekki geta hafið sig ofar eiginhagsmunum og sérhagsmunum á kostnað almannahagsmuna.
Þetta ár verður ekki ár dofa og vonleysis, þetta verður árið sem fólkið rís upp gegn valdníðslu og nær fram nauðsynlegum úrbótum, en aðeins ef það lætur áróður valdastéttanna sem vind um eyru þjóta og samstöðunni verður ekki sundrað. Við erum að tala um framtíðina, við erum að tala um langtímahugsun og langtímalausnir sem halda ólgusjó þessa örhagkerfis og örsamfélags.
Stöndum saman með þeim sem eru tilbúnir að standa í framlínunni og leyfum þeim að vera manneskjur. Enginn er fullkominn. Hættum á Facebook, mætum á fundi, mætum á mótmæli, stöndum saman í raunheimum og hættum að bíða eftir því að einhver komi og bjargi okkur frá okkur sjálfum. Valdið er okkar, en ekkert vald er neins virði ef það er ekki mótað af umhyggju og samhygð gagnvart öllum sem kjósa að búa í samfélaginu Ísland. Hefnd, hatur, biturð, sjálfshygð er undirrót óttans og óttinn er drifkraftur sundrungar og ofbeldis. Við erum búin að fá nóg af slíkri undiröldu. Kröfurnar eru skýrar, sýnin er tær og má finna meðal annars í nýrri stjórnarskrá sem og í þeirri baráttu sem verkalýðurinn er að knýja fram sem og þeirra sem vilja búa á lífvænlegri jörð í stað þess að dreyma um Mars.
Gleðilegt *Skuldar ár; *Verðandi ár uppreisnar
Athugasemdir