Kröfu fjögurra þingmanna Miðflokksins um gagnaöflun og vitnaleiðslur fyrir héraðsdómi vegna fyrirhugaðrar málssóknar gegn Báru Halldórsdóttur, sem hljóðritaði samskipti þeirra á Klaustri þann 20. nóvember síðastliðinn, hefur verið hafnað. Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp úrskurð þess efnis rétt fyrir hádegi.
Í úrskurðinum er bent á að sóknaraðilar hafi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að upplýst verði um hver stóð fyrir upptökunni á Klaustri, enda hafi Bára stigið fram og játað á sig þá háttsemi. Þingmennirnir hafi ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að skilyrðum sé fullnægt til að fram fari vitnaleiðslur og öflun sýnilegra sönnunargagna fyrir dómi á grundvelli undantekningarheimild í lögum um meðferð einkamála.
„Slíkar kenningar og vangaveltur verða þó að mati dómsins að byggjast á einhverju öðru en því að hlutaðeigendur telji þetta eða hitt líklegt“
Dómarinn, Lárentsínus Kristjánsson, telur rökstuðninginn í beiðni þingmannanna ekki nógu skýran. „Það markast þó af þeirri augljósu staðreynd að ekki er vitað hvernig atvikum var háttað eða hvort einhverjir aðrir aðilar en varnaraðili hafi komið að málum, eins og sóknaraðilar virðast telja líklegt. Slíkar kenningar og vangaveltur verða þó að mati dómsins að byggjast á einhverju öðru en því að hlutaðeigendur telji þetta eða hitt líklegt án þess að það sé rökstutt sérstaklega og með afmörkuðum hætti hvers vegna slíkar grunsemdir séu uppi.“ Tekur dómarinn fram að ekkert bendi til þess á þessu stigi málsins að Bára Halldórsdóttir hafi átt sér vitorðsmenn þegar hún hljóðritaði samskipti þingmannanna á Klaustri.
„Þarna var nú ekki feitan gölt að flá svo við bjuggumst kannski frekar við þessu,“ segir Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Báru, í samtali við Stundina. „En nú liggur fyrir erindi hjá Persónuvernd og þingmennirnir hafa boðað að þeir ætli í einkamál. Svo við bíðum bara og sjáum hvert framhaldið verður.“
Eins og Stundin hefur fjallað um undanfarna daga vilja þau Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Anna Kolbrún Árnadóttir og Bergþór Ólason að Bára Halldórsdóttir sæti refsingu, greiði þeim miskabætur og verði sektuð af Persónuvernd vegna ólögmætrar „njósnaaðgerðar“ sem þingmennirnir telja sig hafa orðið fyrir á veitingastaðnum Klaustri.
Að því er fram kom í bréfi lögmanns þeirra, Reimars Péturssonar, til héraðsdóms fyrr í mánuðinum telja þingmennirnir aðgerðina hafa falið í sér „saknæma og ólögmæta meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu“ þeirra.
Kallað var eftir því að fyrirsvarsmenn og starfsmenn Klausturs yrðu leiddir fyrir dóm til vitnis um mannaferðir og aðstæður á barnum þann 20. nóvember. Þessari kröfu, sem var gerð vegna undirbúnings fyrirhugaðs einkamáls gegn Báru, hefur nú verið hafnað.
Athugasemdir