Í miðri hrunupprifjun októbermánaðar fór ég í bíó. Bíómyndin Lof mér að falla var skerandi átakanleg og gaf enga skýra orsök á ástandinu. Á tíunda ári hruns afhjúpaðist mér að orsökin var líklegast of viðamikil til að fjalla um í bíómyndinni. Hliðstæður með hrunupprifjuninni voru svo sláandi.
Líkt og fíklar bíómyndarinnar byrjuðu á því að koma dópinu undan, áður en hringt var á sjúkrabíl fyrir deyjandi stúlkuna, komu auðvaldsfíklar samfélagsins auðnum undan áður en hringt var í björgunarsveit og tilkynnt um hrun.
Líkt og fíklar myndarinnar selja vinkonur sínar fyrir dóp, selja auðvaldsfíklar veraldarinnar vinkonu sína móður jörð ásamt öllum hennar börnum, fyrir auð (hið alkunna þrælahald á verkamönnum var líka til umfjöllunar í októbermánuði ásamt umfjöllun allra mánaða um plastfyllt hafið).
Líkt og fíklar myndarinnar eiga sér enga undankomuleið og kerfi samfélagsins sem ættu að koma til hjálpar virðast gerð til þess að halda þeim í fíkn, eigum við þegnar í auðvaldssamfélagi okkur enga undankomuleið þegar samfélagskerfin eru smíðuð úr breytum auðsöfnunar. Heimur nýfrjálshyggju býður ekkert skjól.
Alþjóðafjármálakerfið sem við búum við er ekki náttúrulögmál. Hinn kapítalíski strúktúr, svo sem fjármálakerfið, er mannanna verk og háð þeim reglugerðum og lögum sem sett eru, eða afnumin hverju sinni. Það er hægt og það má breyta fjármálakerfi. Þegar kerfið er komið í slíkt ójafnvægi sem tölurnar bera vitni um, hlýtur að vera brýn ástæða til þess að endurskoða lög, reglur og þær breytur sem kerfið er smíðað úr, svo að mögulegt sé að koma á jafnvægi með sjálfbærni kerfisins að leiðarljósi.
„Heimur nýfrjálshyggju býður ekkert skjól.“
Kerfi sem er smíðað þannig að útkoman úr breytunum sem settar eru inní það skilar sláandi ójafnvægi sem birtast í tölum eins og að 1% mannfólks stýrir 99% af verðmætum jarðarinnar í krafti fjármagns, er ósjálfbært kerfi eins og hrunið sannar. Það hlýtur því að vera brýn nauðsyn að skipta út þeim breytum kerfisins sem skila þessari útkomu og færa inn aðrar sem stuðla að jafnvægi. Um þetta þarf vart að vera barátta, enda tóm auðsöfnunarkerfisins jafn átakanlegt fyrir þetta 1% mannfólks sem og alla aðra.
Samfélagskerfi fjármálavæðingarinnar eins og við þekkjum þau í dag, krefjast sífelldrar arðsemi – það er aldrei nóg komið. Arðsemiskröfur fjármálakerfisins fara langt fram úr náttúrulegum vexti og því er ekki að undra að birtingarmyndin sé átakanlega. Til þess að framleiða vöxtinn er stöðugt gengið á náttúru og mannauð, sem þarf að sætta sig við sífellt lægri laun og þrælahald ekki tiltökumál til þess að viðhalda arðsemiskröfunum á markaðstorginu Allt er falt.
Í afkomukvíða og ótta er erfitt að gagnrýna og meðvirknifíknin ræður því ríkjum í fjármálavæddu samfélagi. Að óttast yfirvaldið eða týraninn, hver svo sem hann er hverju sinni, er ekkert nýtt í mannkynssögunni. Við mannfólkið þekkjumst vart annað en það form – að óttast skort og yfirvald. Það er því ekki langsótt fyrir okkur þegar yfirvaldið lýtur fyrir lýðræði, að búa til nýjan týrann – fjármálakerfi þrælahaldsins.
Kjarni beggja, hrunsins og fíklabíómyndarinnar, virðist mér vera sá sami: að þurfa alltaf meira og fá aldrei nóg. Og það er sama hversu mikið er fengið þá er það heldur ekki nóg. Það þarf alltaf meira, burtséð frá þeim hræðilega harmi, sársauka og eyðileggingu sem það veldur. Meira. Í nafni hagvaxtar. Í nafni græðgi. Í nafni fíknar. Auðvaldsfíklar munu aldrei fá nóg fremur en aðrir fíklar og við hin sem búum við samfélagskerfi þeirra ekki gert kleift annað en að raunverulega hafa ekki nóg (sbr. lágmarkslaun sem duga ekki fyrir framfærslu) og þar með búa við stöðugan kvíða sem er eitt einkenni fíknar. Það er hægt og það má horfast í augu við að við erum búin að skapa samfélagskerfi fíknar og við lifum í fíkn. Sem við köllum neyslumenningu.
Í þrælabúðum nítíuogníuprósentanna hlaupum við á eftir meira. Öll. Löngu búin að tapa tengslunum við eitthvað annað en þetta keppnishlaupabretti þrældómsins sem boðið er uppá í kvíðakasti hins kapítalíska strúktúrs.
„Í þrælabúðum nítíuogníuprósentanna hlaupum við á eftir meira. Öll.“
Og líkt og fíkillinn á sér ekki viðreisnarvon og dauðinn blasir við þá eigum við sem samfélag okkur varla viðreisnarvon í fjármálavæddu hagkerfi. Í hagkerfi dauðans.
Hvers vegna viljum við viðhalda ósjálfbæru kerfi sem er í fullkomnu ójafnvægi? Ójafnvægi sem stigmagnast um veldisvísi. 1% verður orðið 0,1% innan skamms samkvæmt núverandi kerfi.
Getum við endurskoðað samfélagskerfin í auðmýkt og smíðað kerfi sem styðja við okkur sjálf í stað þess að skipa okkur í þrældóm, meðvirkni og fíkn. Getum við nýtt þá þekkingu sem við búum yfir til þess að smíða lífvænleg kerfi sem styðja við náttúruauðlindina sem við erum? Getum við horfst í augu við fjármálavædd samfélagskerfi sem deyðandi afl og sameiginlega fundið leið til þess að byggja heilbrigt kerfi? Ekki í baráttu heldur sameiginlega.
Barátta er ekki vænleg leið til þess að takast á við fíkn. Það mætti vera okkur ljóst eftir síendurtekna baráttu við valdafíkn í gegnum aldirnar. Átök og ólík sjónarhorn snúast ekki um keppni.
Það blasir við að ríkisstjórn og atvinnulíf þurfa að taka alvarlega ákall verkalýðshreyfinga um lágmarks framfærslugrundvöll hvers einstaklings í samfélaginu – sem grundvallarleið og fyrsta skref til þess að skapa heilbrigði í kvíðasamfélaginu. Með því að takast á við afkomukvíðann mætti búa til svigrúm til þess að hver og einn hefði möguleika á að taka ábyrgð á hinu útbreydda deyfilyfi neyslunnar. Það getur verið, eins og sífellt er haldið á lofti, að það sé lögmál að launahækkanir hafi í för með sér verðbólgu innan núverandi kerfis. Þá hlýtur að þurfa að byggja kerfið á öðrum breytum en nú er gert svo að verðbólguorðræðan drepi okkur ekki.
Auðsöfnunarkerfið er ekki einungis óvænlegt fyrir einstaklingana sem skapa auð fyrirtækjanna í kvíðakasti. Kerfið er líka sérlega kostnaðarsamt fyrir sameiginlega sjóði samfélagsins undir stjórn ríkis og sveitarfélaga. Þegar gengið er á auðlindina sem skapar auðinn birtist það í veikindum fjölskyldna, hver sem birtingarmyndin er, sem hefur í för með sér aukið álag á öll kerfi samfélagsins, með þeim kostnaði sem því fylgir.
Það hlýtur að þurfa að byggja samfélagskerfin okkar á fleiru en reiknilíkönum fjármála, banka, viðskipta og hagfræði. Með því að skoða kerfin frá fleiri sjónarhornum um hvað hagur er má búa til nýjar leiðir. Það eru til ógrynni dýrmætra brunna og sjónarhorna.
Það má smíða sjálfbær samfélagskerfi í auðmýkt.
Það má segja sig frá ráðherrastóli í auðmýkt.
Það verður enginn edrú nema í auðmýkt.
Má horfast í augu við harmleikinn?
Það læra börnin sem fyrir þeim er haft og blíðustu og viðkvæmustu börn kvíðasamfélagsins ná líklegast ekki einu sinni að átta sig á því af hverju þau byrja að deyfa sig – eru fórn og spegill hins kapítalíska strúktúrs.
1% og 99%. Hér er ekkert við og hinir. Munurinn á okkur og hinum er stigsmunur, ekki eðlismunur.
Hvort við erum þrælar efnislegrar fátæktar í formi láglaunaþrælahalds eða andlegrar fátæktar í formi (auðvalds)fíknar, skiptir ekki máli.
En fátæklegt er það. Og það þarf ekki að vera þannig. Fátækt er einmitt ekki náttúrulögmál.
Allt er 100%.
Það er nóg.
Athugasemdir