Ragna Sigurðardóttir, varafulltrúi Samfylkingarinnar í borgarstjórn Reykjavíkur, flutti jómfrúarræðu sína á borgarstjórnarfundi í dag.
Í ræðu sinni rakti Ragna uppbyggingu leikskóla borgarinnar á undanförnum áratugum. „Árið 1994 voru 30 prósent barna á leikskólaaldri með leikskólapláss í Reykjavík. Á næstu tveimur kjörtímabilum vann Reykjavíkurlistinn, meðal annars undir stjórn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, markvisst að því að byggja upp leikskólana í Reykjavík og árið 2002 voru 80 prósent barna á leikskólaaldri í Reykjavík komin með leikskólapláss. Síðan þá hefur hlutfallið aukist í yfir 90 prósent, sem er mun hærra hlutfall en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar,“ sagði Ragna og fullyrti að nú stæði til að gera enn betur með aðgerðum borgarinnar til að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Tillögur um slíkar aðgerðir voru samþykktar á fundi borgarstjórnar í dag.
Ragna er 26 ára læknanemi og fyrrverandi formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Hún tók við því hlutverki í fyrra eftir að hafa leitt Röskvu, samtök félagshyggjufólks, til stærsta sigurs sem hreyfingin hefur unnið í kosningum til Stúdentaráðs síðan 1994. Það vill svo til að þá var líka ungur læknanemi efsti maður á lista hreyfingarinnar, en sá hét Dagur B. Eggertsson.
Athugasemdir