Fyrir kirkjuþing hefur verið lögð tillaga um að leggja niður Saurbæjarprestakall á Vesturlandi og afleggja þar með búsetu á prestsetrinu Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Ástæðan, sem sett er fram í greinargerð með tillögunni er sú að ellegar bíður kirkjumálasjóðs umtalsverður kostnaður. Glímt hefur verið við myglu í prestbústaðnum í Saurbæ um árabil, án þess að tekist hafi að komast fyrir hana að fullu. Er nú svo komið að sóknarpresturinn, Kristinn Jens Sigurþórsson, hefur flutt úr prestbústaðnum, með tímabundnu leyfi biskups, þar eð hann telur að húsnæðið sé heilsuspillandi. Í stað þess að ráðast í frekari framkvæmdir til að komast fyrir myglun eða byggja hreinlega nýjan prestbústað hefur nú verið lagt til að leggja Saurbæjarprestakall niður.
Kristinn Jens tók við embætti í Saurbæ árið 1996 og hefur búið á jörðinni síðan þá og þjónað prestakallinu. „Þetta á sér langa sögu. Strax þegar við komum í húsið árið 1996 bentum við á að það væri sennilega raki í kjallaranum og með jöfnu millibili frá þeim tíma hefur verið farið í endurbætur á húsinu. Það var síðan árið 2013 sem við áttuðum okkur á því, fjölskyldan, að sennilega stæði bágborið heilsufar okkur í tengslum við þennan raka,“ segir Kristinn Jens en fjölskyldan hefur meðal annars glímt við astma, meltingarsjúkdóma og ýmis önnur veikindi.
Verulegar framkvæmdir ekki skilað árangri
Gerð var úttekt á húsinu og ráðist í framkvæmdir 2014 sem stóðu til ársins 2015 með hléum. Kristinn Jens og hans fjölskylda þurftu að flytja úr húsinu í fjóra mánuði á þeim tíma á meðan að á framkvæmdum stóð. Árið 2015 var húsið afhent Kristni Jens að nýju og flutti fjölskyldan inn á ný. „Við finnum upp úr þessu að okkar heilsufar verður heldur skárra, þrátt fyrir að við vitum að það taki nokkuð langan tíma að jafna sig eftir að hafa búið við langvarandi búsetu við myglu. Svo haustið 2016 fæ ég aftur flensu og þá er ég jafn slæmur eða verri en ég hafði nokkru sinni verið.“
Kristinn Jens segir að þá hafi hann, í október 2016, óskað eftir því við Odd Einarsson, framkvæmdastjóra Kirkjuráðs, að fá nýja mælingu á myglu í húsinu og jafnframt að annar aðili en áður hafði komið að verkinu yrði fenginn til starfans. Niðurstaða Odds var hins vegar sú að fá tvö fyrirtæki til mælinga, Verkís, sem áður hafði haft yfirumsjón með mælingum og endurbótum á prestsetrinu, og verkfræðistofuna Eflu. Bæði fyrirtækin gerðu sínar mælingar árið 2017 og komust að mjög mismunandi niðurstöðu. Í tilfelli Verkís fannst mygla og raki í tveimur sýnum en í tilfelli Eflu mældist mygla í öllum sýnum sem tekin voru, á öllum hæðum hússins, og mikinn raka á sumum stöðum, að sögn Kristins Jens. „Samkvæmt niðurstöðu Eflu var viðgerðum sem gerðar höfðu verið í kjallara mjög ábótavant og þar mældist mikill raki og mygla ennþá. Ráðast þyrfti í aðgerðir og Efla lagði fram aðgerðaráætlun í þeim efnum. Staðreyndin er hins vegar sú að í frekari aðgerðum í Saurbæ, nú á þessu ári, hefur nánast eingöngu verið fylgt tillögum Verkís en aðgerðaráætlun Eflu að mestu verið hunsuð.“
Kristinn Jens og fjölskylda fluttu á Akranes í janúar á þessu ári. Hann fékk síðan prestbústaðinn á ný afhentan 31. júlí í sumar en tók við honum með fyrirvara og hefur enn ekki flutt þar inn á nýjan leik. Hann segir að hann hafi fengið leyfi biskups Íslands til að búa tímabundið utan sóknarinnar, en samkvæmt lögum er prestum almennt skylt að hafa aðsetur og lögheimili á prestsetri þar sem þau eru lögð til.
Vilja afleggja prestakallið til að losna við kostnað
Nú hefur hins vegar verið lögð fram umrædd tillaga fyrir kirkjuþing sem hefst á morgun að leggja niður Saurbæjarprestakall og þrjár sóknir þess verði færðar undir Garðaprestakall á Akranesi. Í greinargerð með tillögunni segir: „Ein meginástæða þess að tillaga þessi er flutt á þessu kirkjuþingi, er sú að mjög miklir fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi ef ekkert er að gert. Nánar tiltekið er um að ræða útlagðan viðbótarkostnað kirkjumálasjóðs að fjárhæð tæplega fimm milljónir króna á ári, vegna stöðu mála.“ Þá segir í tillögunni að Kristni Jens verði tryggt prestsembætti í Garðaprestakalli með breytingunum.
Enginn haft samband við prestinn
Kristinn Jens segir að enginn hafi haft samband við sig varðandi þessa tillögu og hann hafi frétt af henni fyrir tilviljun síðastliðið sunnudagskvöld. Þá viti hann að ekki hafi verið haft samráð við sóknarnefndir neinna þeirra þriggja sókna sem séu undir Saurbæjarprestakalli. Ekki hafi heldur verið rætt við sóknarprestinn á Akranesi, ekki starfandi prest þar og ekki sóknarnefnd Garðaprestakalls heldur. Það hafi því ekki verið haft samráð við neinn þeirra sem málið snerti. „Það hefur enginn kirkjuþingsfulltrúi haft samband við mig eða rætt þetta við mig. Það hefur enginn heyrt af þessu.
„Á Saurbæ hefur verið prestsetur í 800 ár, þar sat Hallgrímur Pétursson sem prestur og þar orti hann sína Passíusálma.“
Yrði af þessu yrðu breytingar á mínum högum, án míns vilja. Ég yrði í fyrsta lagi ekki lengur sóknarprestur heldur bara starfandi prestur í sameinuðu prestakalli. Svo má ekki gleyma því að ég er einn af síðustu prestunum sem er æviráðinn, samkvæmt hinum gömlu lögum um opinbera starfsmenn. Um mig gilda því önnur lög og önnur ákvæði en um venjulega embættismenn í dag. Tilfærsla á mér í embætti er háð því að ég lækki ekki í mínum lögkjörum og partur af mínum lögkjörum eru kirkjujörðin Saurbær og hlunnindi þar auk búsetu á prestsetrinu. Þau kjör verða því ekki af mér tekin, eða ígildi þeirra.“
Kristinn Jens segir að í ofanálag myndi þessi gjörningur hleypa öllu starfi í sóknum Saurbæjarprestakalls í uppnám. „Þar er það mál manna að þetta sé algjört virðingarleysi gagnvart þeim. Á Saurbæ hefur verið prestsetur í 800 ár, þar sat Hallgrímur Pétursson sem prestur og þar orti hann sína Passíusálma. Það er ekki verið að sýna sögunni mikla virðingu með þessu, ekki frekar en sóknarbörnum eða mér.“
Þingmaður fordæmir framgöngu þjóðkirkjunnar
Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksin, er búsettur á Reyn undir Akrafjalli og er í sóknarbarn í Saurbæjarprestakalli. Hann skrifaði færslu á Facebook í dag þar sem hann kallaði vinnubrögð, aðferðarfræði og framgöngu yfirvalda þjóðkirkjunnar í málinu forkastanleg. Sjá má færslu Haraldar hér að neðan.
Athugasemdir