Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 6 árum.

Kærur vegna meiri háttar efnahagsbrota háðar samþykki stjórnar sem Bjarni skipar

Stjórn FME tek­ur ákvarð­an­ir um eft­ir­lit og að­gerð­ir gagn­vart fjár­mála­fyr­ir­tækj­um. Bjarni Bene­dikts­son skip­ar í stjórn­ina, en stjórn­ar­formað­ur­inn sem hann skip­aði ár­ið 2013 er nú með stöðu sak­born­ings vegna meintra efna­hags­brota.

Allar meiri háttar ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins eru háðar samþykki stjórnar sem er skipuð af Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra, meðal annars kærur til lögreglu er varða alvarleg efnahagsbrot.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur gagnrýnt að sjálfstæði FME gagnvart öðrum stjórnvöldum sé ekki nægilegt og að starf eftirlitsstofnunarinnar sé að vissu leyti undir viðhorfi stjórnmálamanna á hverjum tíma komið. Þá kallaði starfshópur, sem skipaður var af Benedikt Jóhannessyni, fyrrverandi fjármálaráðherra, nýlega eftir því að tekin yrðu af tvímæli um „sjálfstæði stofnunarinnar og takmarkaða aðkomu ráðherra að starfsemi hennar“ og lagði til lagabreytingar í þá átt.

Áform þess efnis er ekki að finna á þingmálaskrá núverandi ríkisstjórnar, enda eru róttækari breytingar á lagaumhverfi fjármálaeftirlits í farvatninu þar sem unnið verður að sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins.

Glitnisgögnin varpa nýju ljósi á Vafningsaðkomu Bjarna

Samkvæmt gildandi lögum er stjórn FME ætlað að taka virkan þátt í mikilvægum ákvörðunum sem varða eftirlit og aðgerðir gagnvart fjármálastofnunum og öðrum eftirlitsskyldum aðilum. Þannig kveður 4. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi á um að yfirstjórn FME sé á hendi þriggja manna og allar meiri háttar ákvarðanir skuli bornar undir stjórnina til samþykktar eða synjunar. Þessi stjórn – sem gegnir lykilhlutverki við ákvarðanatöku um rannsókn efnahagsbrota á Íslandi – er alfarið skipuð af fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssyni, sem var sjálfur umsvifamikill í viðskiptalífinu fyrir hrun og hefur ítrekað þurft að svara fyrir viðskiptagjörninga sem orka tvímælis. Þess ber að geta að einn fulltrúi af þremur í stjórn er þó tilnefndur af Seðlabanka Íslands, en meirihlutinn er bæði tilnefndur og skipaður af fjármálaráðherra.

Einna erfiðast hefur reynst Bjarna að útskýra aðkomu sína að svokallaðri Vafningsfléttu sem fól í sér að áhættan á bak við stóran hluthafa Glitnis, Þátt International, var færð yfir á bankann sjálfan. Að nafninu til fólst aðkoma Bjarna einvörðungu í því að undirrita veðskjöl fyrir hönd eignarhaldsfélaganna BNT, Hafsilfurs og Hrómundar fyrir hönd föður síns og föðurbróður, en veðsetningin var forsenda þess að Glitnir gæti veitt 100 milljóna evra peningamarkaðslán til Milestone.

Málsvörn Bjarna í Vafningsmálinu hefur alltaf verið sú að hann hafi nær ekkert vitað um málavexti. „Mér var ekki einu sinni kunnugt um að Milestone hefði verið veitt lánið,“ sagði Bjarni í Kastljóssviðtali þann 14. febrúar 2012. Glitnisgögnin sýna hins vegar að Bjarni átti í samskiptum við Guðmund Ólason, forstjóra Milestone, vegna málsins þann 8. febrúar, sama dag og lánið var greitt út til fyrirtækisins. Þá sýna þau að Bjarni tók sjálfur ákvarðanir um málefni Hafsilfurs á árunum fyrir hrun og átti t.d. í samskiptum við starfsmann hjá einkabankaþjónustu Glitnis vegna málefna Hafsilfurs, Hrómundar, Máttar og Milestone, lykilfélaga í Vafningsfléttunni í júlí 2008. 

Seldu í Sjóði 9 á sama tíma og innherjar

Vafningsmálið var rannsakað, fyrst af Fjármálaeftirlitinu og svo sem sakamál hjá sérstökum saksóknara sem ákærði Glitnisstjórnendurna Lárus Welding og Guðmund Hjaltason og taldi lánveitinguna hafa átt þátt í falli bankans. Þótt Lárus og Guðmundur væru að lokum sýknaðir taldi Hæstiréttur engan vafa leika á því að ásetningurinn á bak við lánveitinguna hefði „staðið til misnotkunar“; hinir ákærðu hefðu misnotað aðstöðu sína í bankanum og tekið hagsmuni lántaka fram yfir hagsmuni Glitnis. Þótt Bjarni hafi aðeins verið vitni í Vafningsmálinu og ekkert liggi fyrir um að hann hafi brotið lög er ljóst að með aðkomu sinni, undirritun veðskjala, gerði hann þessa misnotkun mögulega. Vikurnar á eftir, í kjölfar þess að hann fundaði sem þingmaður um „lausn“ á „vanda bankanna“ með Lárusi Welding, forstjóra Glitnis, seldi svo Bjarni hlutabréf sín í Glitni fyrir 119 milljónir.

Á meðal annarra mála er varða Glitni sem Fjármálaeftirlitið rannsakaði sérstaklega eftir hrun voru úttektir innherja og tengdra aðila úr Sjóði 9, annars vegar dagana áður en tilkynnt var um yfirtöku ríkisins á Glitni 29. september 2008 og hins vegar rétt áður en neyðarlögin voru sett þann 6. október. Fyrir liggur að Bjarni Benediktsson, bróðir hans og föðurbróðir,  innleystu samtals um 2,2 milljarða úr Sjóði 9 þessa daga auk þess sem Glitnisgögnin sýna að Bjarni átti í miklum og nánum samskiptum við stjórnendur Glitnis í aðdraganda hruns og virðist hafa miðlað upplýsingum um vinnu Fjármálaeftirlitsins til millistjórnanda hjá bankanum. 

Ekki hefur komið fram opinberlega hvort Engeyingarnir voru á meðal þeirra fjölmörgu sem Fjármálaeftirlitið kærði til sérstaks saksóknara vegna innlausna úr Sjóði 9 í mars 2009, sama mánuði og FME vísaði Vafningsmálinu til sérstaks saksóknara. Hins vegar er ljóst að fjármunatilfærslur Benedikts Sveinssonar og Einars Sveinssonar vöktu sérstaka athygli endurskoðenda á vegum slitastjórnar Glitnis eftir hrun. Kom til álita að höfða riftunarmál – í tilviki Benedikts vegna þess að talið var hugsanlegt að hann hefði búið yfir innherjaupplýsingum – en á endanum þótti ekki ástæða til að láta reyna á slíkt.

Stjórnarformaður FME hætti og er nú til rannsóknar

Hætti í kjölfar fréttaflutningsHalla Sigrún Hjartardóttir lét af stjórnarformennsku hjá FME eftir að greint var frá viðskiptum með hlutabréf Skeljungs árið 2014.

Þegar Bjarni Benediktsson tók við embætti fjármálaráðherra árið 2013 skipaði hann Höllu Sigrúnu Hjartardóttur sem stjórnarformann FME. Halla er náinn viðskiptafélagi Einars Arnar Ólafssonar, sem var millistjórnandi í Glitni og er fyrirferðarmikill í Glitnisgögnunum. Einar átti í stöðugum samskiptum við Bjarna í aðdraganda hruns og virðist hafa tekið við upplýsingum frá honum um aðgerðir FME rétt áður en neyðarlögin voru sett 6. október 2008. 

Halla Sigrún hætti sem stjórnarformaður FME síðla árs 2014 eftir að greint hafði verið frá 830 milljóna króna hagnaði hennar af viðskiptum með hlutabréf Skeljungs. Halla Sigrún og Einar Örn eru nú sakborningar í Skeljungsmálinu svokallaða þar sem grunur leikur á um að eignir Glitnis hafi verið seldar út úr bankanum á undirverði og aðilar hagnast með óeðlilegum hætti á viðskiptunum.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Glitnisgögnin

Selur bankann sem fjölskyldan átti
Úttekt

Sel­ur bank­ann sem fjöl­skyld­an átti

Bjarni Bene­dikts­son upp­lýsti ekki um að­komu sína að fjár­fest­ing­um Eng­ey­inga á með­an hann sat á þingi í að­drag­anda hruns. Fjöl­skylda hans átti ráð­andi hlut í Ís­lands­banka sem lán­aði fé­lög­um þeirra tugi millj­arða króna og einnig Bjarna per­sónu­lega. Nú mæl­ir hann fyr­ir sölu rík­is­ins á hlut í bank­an­um. For­sag­an skað­ar traust, að mati sam­taka gegn spill­ingu.
Atburðarásin í aðdraganda hruns: Hvað vissum við og hvað vissu þeir?
Rannsókn

At­burða­rás­in í að­drag­anda hruns: Hvað viss­um við og hvað vissu þeir?

Þeg­ar erf­ið­leik­ar komu upp hjá Glitni og stór­um hlut­höf­um, fyrst í fe­brú­ar 2008 og svo í sept­em­ber, skipt­ist Bjarni Bene­dikts­son á upp­lýs­ing­um við stjórn­end­ur Glitn­is og sat fundi um stöðu bank­anna með­an hann sjálf­ur, fað­ir hans og föð­ur­bróð­ir komu gríð­ar­leg­um fjár­mun­um í var. Hér er far­ið yf­ir at­burða­rás­ina í máli og mynd­um.
Hæstiréttur veitir Glitni HoldCo áfrýjunarleyfi til að úrskurða hvort Stundin eigi að afhenda gögn
FréttirGlitnisgögnin

Hæstirétt­ur veit­ir Glitni HoldCo áfrýj­un­ar­leyfi til að úr­skurða hvort Stund­in eigi að af­henda gögn

Lög­bann­ið er fall­ið úr gildi en mál Glitn­is HoldCo gegn Stund­inni held­ur áfram fyr­ir Hæsta­rétti, sam­kvæmt ákvörð­un rétt­ar­ins. Hæstirétt­ur ætl­ar að fjalla um kröf­ur Glitn­is HoldCo þess efn­is að við­ur­kennt verði að Stund­inni sé óheim­ilt að byggja á Glitn­is­skjöl­un­um og beri að af­henda gögn­in.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár