Fjöldi fasteigna í eigu félaga fjárfestisins Sturlu Sighvatssonar hefur verið boðinn upp til nauðungarsölu undanfarna mánuði. Fasteignafélag hans er ógjaldfært og sum dótturfélög í mjög alvarlegum vanskilum. Fyrrverandi aðstoðarmaður forsætisráðherra og viðskiptafélagi Sturlu vísar alfarið á hann í tengslum við nauðungarsölu á fasteign þeirra á Óðinsgötu í Reykjavík sem brann í vor.
Þorri fasteigna félags Sturlu, Laugavegar ehf., hafa verið settar á nauðungaruppboð undanfarna mánuði. Félagið er skráð ógjaldfært og hefur ekki skilað ársreikningi síðustu tvö ár, en það heldur utan um eignarhluti í 22 öðrum félögum og teygja umsvif þess sig víða. Þá var gert nauðungaruppboð í eign félags hans Ingólfshvols ehf. á Frakkastíg vegna mjög alvarlegra vanskila. Námu kröfur tæpum 30 milljónum króna.
Loks voru tvær fasteignir við Óðinsgötu seldar á nauðungaruppboði í lok október. Eignirnar átti hann með Matthíasi Imsland, fjárfesti og fyrrverandi aðstoðarmanni Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þá forsætisráðherra, en önnur þeirra brann í apríl og lofaði Sturla því að hún yrði gerð upp með glæsibrag.
Athugasemdir