Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 6 árum.

Dauðinn er bara hinn endinn á fæðingunni

Ólöf Elfa Leifs­dótt­ir ótt­ast ekki dauð­ann eða þyk­ir óþægi­legt að tala um hann, þrátt fyr­ir að vita að hann muni sækja hana heim fyrr en síð­ar. Hún ætl­ar sér að njóta lífs­ins og vera ham­ingju­söm þrátt fyr­ir erf­ið­an sjúk­dóm.

Dauðinn er bara hinn endinn á fæðingunni
Lítur á það sem stórsigur að geta ryksugað Ólöf Elfa Leifsdóttir hefur verið veik af krabbameini í á sjötta ár. Hún lætur það ekki buga sig, jafnvel þótt hún hafi misst mátt í höndum að mestu, og lítur á það sem stórsigur að geta sett í uppþvottavél eða ryksugað. Mynd: Davíð Þór

Ólöf Elfa Leifsdóttir var 54 ára þegar hún greindist með ólæknandi krabbamein, sem hún hefur síðan tekist á við með því sem þeir sem til hennar þekkja lýsa sem ótrúlegu æðruleysi og krafti. Þrátt fyrir að veikindin hafi versnað og svipt hana lífsgæðum eftir því sem á hefur liðið hefur Ólöf ekki misst sjónar af því sem máli skiptir í lífinu, fjölskyldu og hamingjunni. Hún lítur á það sem meiri háttar afrek að geta tekið úr uppþvottavélinni heima hjá sér en lætur það ekki á sig fá að þurfa að fá aðra til að sjá um þvottinn. Ólöf segist bara einu sinni hafa farið að grenja yfir sjúkdómnum, hún sé búin að skipuleggja útförina sína og hún hvorki óttist dauðann né finnist óþægilegt að tala um hann. „Dauðinn er bara hinn endinn á fæðingunni og hann er ofur sjálfsagður hlutur. Fólk gengur bara sitt æviskeið á enda, hvort sem það er stutt eða langt.“

Ólöf, sem býr á Akureyri, veiktist af krabbameini fyrir fimm og hálfu ári síðan, árið 2013. Þá var hún starfandi sem yfirmaður í starfsþjálfun og vinnustað fyrir fatlaða hjá Akureyrarbæ. „Ég ætlaði náttúrlega bara að fara í brjóstnám og gerði síðan ráð fyrir að gera, eins og 80 prósent kvenna sem fara í brjóstnám gera, að mæta í vinnu að veikindaleyfi loknu, einhverjum mánuðum eða ári seinna. Krabbameinið fannst þarna um vorið en það uppgötvaðist hins vegar mjög fljótt að meinið væri komið í bein og lifur. Þá skipti ég um kúrs og sá að ég væri ekkert að fara að vinna aftur í bráð samhliða reglulegum lyfjameðferðum.

„Ég fór því í að hugsa hvað kæmi fólki best og ég held að það sé svona hæfileg blanda af afneitun og af skynsemi“

Ég hóf strax meðferð og hugarfarið fór eiginlega strax í meðferð líka. Ég er iðjuþjálfi, menntuð og búin að vinna við endurhæfingu lengst af mitt líf og ég leitaði í mína reynslu þaðan. Ég velti því upp hvað það er sem hefur reynst fólki best til að ná bata og hvað það er sem hefur gert það að verkum að fólk nær ekki endurhæfingu, að það nær ekki lífsgæðum. Af minni reynslu er það ekki líklegt til árangurs að skella skuldinni á einhvern annan, að leita að sökudólgi og að huga ekki að sjálfum sér. Ég var svo heppin sjálf að greiningin á mínu meini gekk mjög vel. Ég skil hins vegar vel þá sjúklinga sem hafa strögglað við að fá greininguna, hafa gengið milli lækna og verið greindir svefnlausir, móðursjúkir eða jafnvel geðsjúkir, ég skil þá einstaklinga mjög vel að skella skuldinni á einhvern annan þegar loks kemur í ljós hvað að þeim amar.

Ég fór því í að hugsa hvað kæmi fólki best og ég held að það sé svona hæfileg blanda af afneitun og af skynsemi. Þú þarft að passa upp á að gera ekki strax ráð fyrir því alversta en þú verður líka að beita skynsemi.“

Búin að skipuleggja jarðarförina

Ólöf segir að hún hafi strax farið að velta fyrir sér praktískum hlutum. Þannig hafi hún strax gert lista með fyrirmælum um hvað tæki við þegar hún félli frá, hvenær sem það yrði. „Það er ennþá í símanum mínum skjal, sem ég setti inn strax fyrir fimm og hálfu ári síðan, þar sem ég tilgreini nákvæmlega hvernig á að haga jarðarförinni minni.“

Bara einu sinni farið að grenja

Þegar fólk verður alvarlega veikt og er í raun kippt út úr sínu daglega lífi verður það mörgum mikið áfall andlega, ekki bara að þurfa að takast á við veikindin og óvissuna sem þeim fylgja heldur einnig sú breyting sem óhjákvæmilega verður á lífinu. Þannig getur fólk til að mynda einangrast. Ólöf segir að það hafi verið henni erfitt að þurfa að hætta að vinna. „Ég saknaði vinnunnar minnar hryllilega mikið. Í eina skiptið sem ég hef farið að grenja út af sjúkdómnum var þegar mér var kippt út úr Iðjuþjálfafélaginu. Það var auðvitað hætt að borga til félagsins eftir að ég hætti að vinna og þá datt ég út úr því, alveg án þess að vera spurð. Ég var ekki spurð hvort ég vildi vera fagfélagi þótt ég væri ekki í stéttarfélaginu sem slíku. Allt í einu fékk ég ekki pósta frá félaginu, ekki blað þess. Þá hugsaði ég með mér: Andskotinn! Er ég einskis nýt? Og svo grenjaði ég. Það var í eina skiptið sem ég hef grenjað yfir sjúkdómnum. Ég grenjaði ekki þegar ég greindist, ekki þegar hafa komið einhver bakslög í ferlið. Ég er grenjuskjóða í eðlinu, ég hágræt yfir einhverjum lúsíusöng og fallegum blómum sem barnabörnin færðu mér en ekki yfir þessu. Þetta er verkefni sem ég tekst á við.“

„Þá hugsaði ég með mér: Andskotinn! Er ég einskis nýt? Og svo grenjaði ég.“

„Ég á, eða átti, foreldra sem voru óhemjuseig. Pabbi minn heitinn lenti í mjög alvarlegu slysi og náði sér alveg ótrúlega upp úr því, alla vega andlega. Mamma er mjög mikill sjúklingur sem býr samt ennþá heima á kraftinum og viljanum. Þessi seigla, sem ég vil kalla það, er svo góð fyrirmynd fyrir mig. Ekki uppgjöf heldur að finna leiðir.“

Missti mátt með hverjum degiKrabbameinsmeinvörp hófu að ráðast á taugaslíður í höndum Ólafar og missti hún að mestu mátt í þeim á mjög stuttum tíma. „Ég byrjaði að finna fyrir dofa í mars og í apríl þá var fyrsta hugsunin á morgnana: Hvað get ég ekki gert í dag sem ég gat gert í gær? Það var hreinlega dagamunur á mér. Það er mjög erfit að vakna með þá hugsun.“

„Hvað get ég ekki gert í dag sem ég gat gert í gær?“

Framan af höfðu veikindi Ólafar ekki þau áhrif að hún gæti ekki lifað nokkuð venjubundnu lífi. Vissulega tóku geislameðferðir og lyfjakúrar á, hún var þreklítil og veik eins og gefur að skilja. Engu að síður gat hún, á góðum dögum, gert flest það sem hún vildi, sinnt heimilisstörfum og hagað lífi sínu eftir eigin höfði án aðstoðar. Það breyttist hins vegar til hins verra á síðasta ári. „Það var alveg bærilegt að vera veik, þannig lagað. Ég fann mér verkefni heima, prjónaði mikið og gerði margt þegar ég átti góða daga. Svo var það hins vegar vorið 2017 að krabbameinsmeinvörp réðust á taugaslíðrin í höndunum á mér þannig að ég missti máttinn í höndunum og varð ósjálfbjarga. Ég hætti að geta prjónað og gert flest. Þetta gerðist mjög hratt. Ég byrjaði að finna fyrir dofa í mars og í apríl þá var fyrsta hugsunin á morgnana: Hvað get ég ekki gert í dag sem ég gat gert í gær? Það var hreinlega dagamunur á mér. Það er mjög erfitt að vakna með þá hugsun.“

„Þegar ég hætti að geta gert þessa venjulegu hluti, að vera öðrum háð með alla hluti, þá fann ég fyrir frelsisskerðingunni“

„Það tók reyndar dálítið langan tíma að finna út hvað væri að gerast, þetta mun vera mjög sérstakt og íslenskir læknar hafa, skilst mér, aldrei séð þetta áður. Þetta gerir það að verkum að hendurnar eru nánast lamaðar til allra verka, ég þarf alla aðstoð til að sjá um mig. Að vera orðin fötluð er að mínu viti miklu erfiðara en að vera veik. Þú veist að veikindi ganga upp og niður en að vera fatlaður og geta ekki gert neitt á góðu dögunum er snúið. Þegar ég hætti að geta gert þessa venjulegu hluti, að vera öðrum háð með alla hluti, þá fann ég fyrir frelsiskerðingunni.

Þessi lömun gengur ekki til baka en með þjálfun hefur mér tekist að æfa upp aðra vöðva, axlavöðvana fyrst og fremst, til að hjálpa mér í daglegu lífi. Það er stórsigur fyrir mig að geta tekið úr uppþvottavélinni, hvað þá að geta raðað í hana eins og ég vil að það sé gert. Að ná að ryksuga gólfið með svona þráðlausri ryksugu, ég lít á það sem sigur fyrir mig, að geta sinnt þessum litlu hlutum sem í sjálfu sér eru hundleiðinlegir.“

Ekkert töff við að deyja úr sýkingu

Áður en krabbameinið réðst á taugarnar í höndum Ólafar, með fyrrgreindum afleiðingum, hafði hún allt eins átt von á því að geta haldið lífi sínu áfram með sama hætti næstu ár, að takast á við sjúkdóminn en lifa lífi sem innihéldi þau lífsgæði sem vænta mátti miðað við allt og allt. „Við höfum fyrirmyndir í fólki sem hefur lifað með svona krabbamein í nokkuð langan tíma, fólk sem hefur kannski lifað í átta til tuttugu ár. Ég kannast til að mynda við konu sem hefur lifað með þessu í eitthvað á annan áratug. Mitt markmið var því að halda bara annars sæmilegri heilsu, vegna þess að sýkingarhætta fyrir krabbameinssjúklinga er svo mikil. Það er nefnilega ekkert töff við að deyja úr sýkingu, magasýkingu eða slíku. Það er hvunndagur margra krabbameinssjúklinga, að kljást við sýkingar með sjúkrahúsinnlögnum, næringu í æð og jafnvel í einangrun. Ég lenti í því á síðasta ári sjálf. Það er lítið talað um þetta en það er mjög leiður fylgifiskur krabbameins því ónæmiskerfi sjúklinga hrynur auðvitað við lyfjagjöf, þegar lyf ráðast gegn krabbameinsfrumunum þá ráðast þær á sama tíma gegn hvítu blóðkornunum og svo framvegis. Það er því býsna hátt hlutfall ástæðu dauðsfalla krabbameinssjúklinga, sýkingar en ekki krabbameinið sem slíkt.

Lífsnauðsynleg lyf ekki til á landinu

Það var síðan til að bæta gráu ofan á svart, þegar verið var að takast á við sýkinguna, að það vantaði lífsnauðsynleg lyf á landinu. Ég var með þessa mjög alvarlegu magasýkingu, sem veldur dauða fólks sem er jafn veikt og ég í tuttugu prósentum tilvika, og það er til eitt lyf við þessari sýkingu. Það var ekki til hér á landi. Það var til í Noregi og læknirinn reyndi mikið til að fá það sent. Þetta var í janúar á síðasta ári og það var sagt að það væri svo mikið frost að það væri ekki hægt að senda það til landsins. Það var sem sagt fixað og mixað þannig að ég lifði af, ég segi ekki hvernig það var gert. En lyfið var sem sagt ekki til, þrátt fyrir að vera eitt af þeim lyfjum sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur gefið út að skuli vera tiltækt í hverju landi. Ég lifði af en þetta er algjörlega óboðlegt ástand, að svona skuli geta komið fyrir.“

Fólk gengur bara sitt æviskeið

Spurð hvort henni þyki ekkert óþægilegt að tala svona um dauða sinn, yfirvofandi, og hvort hún sé ekkert hrædd við hann, svarar Ólöf því neitandi. „Nei. Nei, mér finnst það ekki. Ég er fædd og alin upp í sveit, og kannski hefur það eitthvað að segja að hafa fylgst þar með lífsins gangi. Dauðinn er bara hinn endinn á fæðingunni og hann er ofur sjálfsagður hlutur. Fólk gengur bara sitt æviskeið á enda, hvort sem það er stutt eða langt. En það er hins vegar ekki töff að deyja úr sýkingu, kannski í einangrun þar sem fólk fær ekki einu sinni að heimsækja mann undir það síðasta. Ég nota aldrei það hugtak að ég sé að berjast við krabbamein. Ég er ekki að berjast við það, ég er að vinna með sjúkdóm sem er þarna og ég er auðvitað að reyna að lifa sem lengst og sem bestu lífi en maður kemur alltaf til með að tapa baráttunni gegn krabbameini. Þess vegna vil ég ekki nota þetta orðalag, krabbameinið er óþreytandi en ég er það ekki.“

Áfram húsmóðir á sínu heimili

Stórstígar framfarir hafa átt sér stað á síðustu árum í lækningum og lyfjagjöf í meðferð krabbameinssjúklinga. Fólk getur því í sumum tilfellum, þó það sé alls ekki einhlítt, lifað árum saman með krabbamein ólíkt því sem var fyrr þegar ólæknandi krabbamein var dauðadómur í langflestum tilvikum. Spurð hvort íslenskt heilbrigðiskerfi og félagsþjónusta sé reiðubúið til að takast á við meðferð langtímaveikra krabbameinssjúklinga segir Ólöf að hennar reynsla sýni að svo sé. „Ég get bara talað fyrir Akureyri því ég bý þar, og ég verð að segja að á Akureyri er það þannig. Við njótum góðrar þjónustu, þangað koma krabbameinslæknar tvisvar í viku og veita frábæra þjónustu. Við höfum mjög góða dagdeild, mjög góða heimaaðhlynningu og heilsugæslu með góða heimahjúkrun. Ég fæ líka mjög góða þjónustu frá Akureyrarbæ, ég fæ aðstoð þrisvar í viku í tvo tíma í senn og ég ráðstafa þeim tíma sjálf. Það eru ekki bara þrif eins og einhver kynni að ætla heldur bara það sem ég vil og þarf að láta gera. Það er séð um allan þvott, sem ég get alls ekki gert sjálf, til dæmis. Ég elska blóm og það skiptir mig miklu máli að hafa það verkefni sjálf að vökva þau en ég get ekki umpottað þau og við það fæ ég aðstoð. Ég er áfram húsmóðir á mínu heimili með þessu. Fyrir fimm árum síðan hefði verið sagt: Þú átt mann og hann getur séð um þvottinn en við getum sent einhvern til að hátta þig klukkan níu. En sko, maðurinn minn háttar mig bara þegar við förum að sofa og hann hjálpar mér á fætur þegar við förum á fætur. Það þarf ekki annan í það en það þarf einhvern til að aðstoða við önnur verk. Þetta er sem sagt komið í átt að notendavænni þjónustu og það er ótrúlega jákvætt.“

Ósátt við að þurfa að borga 340 þúsund fyrir klósett

En þrátt fyrir þessa jákvæðu upplifun Ólafar af heilbrigðiskerfinu og félagsþjónustunni er ekki alveg það sama að segja um tryggingakerfið sem sjúklingar og öryrkjar þurfa að nýta sér. Þannig sé til að mynda ekki endilega gert ráð fyrir því að fólk þurfi að nýta sér mismunandi hjálpartæki, sem kosti mismikið. „Það er til þetta stórkostlega tæki, sem er salerni með skoli og þurrki. Það breytti lífi mínu eftir að þessi lömun varð í höndunum þegar við fengum slíkt salerni, ég varð þá aftur sjálfbjarga á salernið. Þessi græja, sem er hverrar krónu virði, ekki misskilja mig, kostaði 600 þúsund krónur með öllu. Sjúkratryggingar Íslands greiddu hins vegar bara 240 þúsund krónur af því. Það mun vera þannig að það sé til einhver seta í Eirbergi sem er svona ríkisseta en passar víst eiginlega ekki á neitt klósett, en endurgreiðslan er sem sagt miðuð við verð á henni. Í þetta spáir eiginlega ekki nokkur maður fyrr en viðkomandi er orðinn ósjálfbjarga með að fara á klósettið. Það er ekki eðlilegt að fá kvíðahnút í magann ef eiginmaður manns segir að hann þurfi að fara á fund og verði ekki tiltækur næstu klukkutímana, að maður fari þá að hafa áhyggjur af því að þurfa mögulega að fara á klósettið á meðan. Fólk sem hefur misst kraft í höndum getur ekki þrifið sig sjálft og það eru mjög margir til sem eru með skerta hreyfigetu í höndum eða öxlum. En þetta er aldrei rætt.

„En sko, maðurinn minn háttar mig bara þegar við förum að sofa og hann hjálpar mér á fætur þegar að við förum á fætur. Það þarf ekki annan í það en það þarf einhvern til að aðstoða við önnur verk.“

Ég er ekkert sátt við að þurfa að borga 340 þúsund krónur úr eigin vasa fyrir klósett, sem er algjört hjálpartæki fyrir mig. Ég þurfti líka að borga þessar 600 þúsund krónur og sækja síðan um endurgreiðsluna. Ég bý svo vel að vera vel gift þannig að við áttum pening til að gera þetta en öryrkjar sem eru ekki í þeirri stöðu, það á ekki endilega 600 þúsund kall til að punga út í svona, hvað þá að það eigi þennan 340 þúsund kall sem það þarf að greiða úr eigin vasa. Þetta er óþolandi því þetta er bara hjálpartæki sem er fólki nauðsynlegt.“

Kerfið á að grípa fólk

Að sama skapi bendir Ólöf á að sú aðstoð sem sjúklingar sem greinast með alvarlega, lífshótandi sjúkdóma þurfi á að halda sé fjarri því að vera næg, hvorki í fjárhagslegu né félagslegu tilliti. „Á þeim tíma þegar ég veiktist var ekki búið að setja á það greiðsluþak sem búið er að setja á læknisþjónustu og lyfjakostnað nú. Tíminn strax eftir að fólk greinist var, og er enn, mörgum gríðarlega erfiður. Fólk er að missa tekjur, þrátt fyrir að það sé kannski með góðan veikindarétt þá eru þær greiðslur yfirleitt bara hlutfall tekna en ekki fullar tekjur. Fólk getur notið þeirra í mislangan tíma, jafnvel upp í átta mánuði en á meðan nýtur það ekki afsláttar sem örorkulífeyrisþegar fá. Nú eru örorkulífeyrisþegar ekki ofsælir af því sem þeir fá, fjarri því, en þegar fólk er komð í þessa stöðu, að takast á við alvarleg veikindi og veit ekkert hvernig framtíðin verður, að greiða dýrar rannsóknir, þá er það mjög erfið staða. Það er vissulega búið að innleiða greiðsluþak fyrir alla en það er þónokkuð hærra en fyrir þá sem eru örorkulífeyrisþegar þannig að þetta tímabil er oft mjög dýrt tímabil. Réttur þeirra sem ekki eru komnir með örorkumat er miklu minni en annarra.

Fyrir utan þennan kostnað þá er þetta tímabil oft algjör hvirfilbylur, andlegur hvirfilbylur. Ég gagnrýni ráðgjafarleysið. Það er til mjög góð ráðgjöf hjá bæði Krabbameinsfélagi Íslands og Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis til að mynda en það er enginn sem fylgir því eftir að fólk átti sig á því að sú ráðgjöf sé til staðar. Fólk þekkir ekki rétt sinn, fólk er að leita og hefur fjárhagsáhyggjur en vantar að því sé fylgt eftir. Ég sjálf bý að því að ég vann við þetta kerfi og þekki það vel hver minn réttur er svo ég get ekki kvartað sjálf. En það eru mjög margir sem ekki þekkja þetta og það vantar einhvers konar persónulegan umboðsmann fólks sem lendir í svona veikindum. Það er vel þekkt á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu að fólk sem greinist með lífsógnandi sjúkdóma, sem hefur líka mjög alvarleg áhrif á fjárhagsstöðu, þá færðu þinn persónulega aðstoðarmann innan kerfisins. Það er ekkert til að skammast sín fyrir að sækja sér aðstoð eða sækja sér styrki, fjárhagslega líka. Kerfið á bara að grípa fólk en því miður gerist það ekki í nægum mæli. Það eru þeir sem sitja við Austurvöll, þingmennirnir, sem bera ábyrgð á því.“

Fjölskyldan var á mismunandi stað

Ólöf lýsir því hvernig hennar nánustu hafi tekið veikindum hennar með misjöfnum hætti, að fjölskyldan hafi átt miserfitt með að sætta sig við þau og takast á við stöðuna. „Þau voru misopin. Fram að því að ég veiktist af sýkingunum í fyrra, ég var auðvitað dauðveik þá, fram að þeim tíma var fjölskyldan öll á mjög misjöfnum stað, varðandi sorgarferli og varðandi úrvinnslu. Þótt sýkingin hafi verið mjög slæm þá var hún þó kannski góð að því leyti að við fundum öll sama staðinn: Þetta gæti gerst, þetta getur gerst svona fljótt og svona hratt. Þá komu allir bara saman og ákváðu að taka því sem að höndum bæri.“

Í dag notar Ólöf, og öll fjölskyldan, tíma sinn betur og nýtur þess að vera saman. „Já, það eru allir meðvitaðir um stöðuna. Ekki það að mamma sé að fara að deyja, eða að amma sé að fara að deyja, heldur að við ætlum að njóta þess að vera saman, borða saman og hafa það gott. Að njóta gæðastundanna. Ég fór út að borða með allri fjölskyldunni minni á dögunum og að sitja og þar og horfa á hópinn sinn, að hugsa að á þessum fimm og hálfa ári sem eru liðin síðan ég greindist er ég búin að eignast þrjú barnabörn, mér finnst það alveg dásamlegt. Lífið heldur nefnilega áfram.

Lagði kapal heila helgi

Þegar fólk glímir við jafn alvarleg veikindi og Ólöf gerir þá er ekki endilega hægt að gera áætlanir til langrar framtíðar. Engu að síður er ekki þar með sagt að fólk þurfi að taka hverjum degi þegar hann rennur upp, þótt það þurfi líka að kljást við áskoranir hvers dags. „Ég vil hafa eitthvað að lifa fyrir og sjá einhverja framtíð, kannski ekki mjög langa, svona ár í senn. Svo bara tekst ég á við hitt, ef og þegar það kemur upp. Óhjákvæmilega dey ég einhvern tíma en það gera það allir, lífshlaup fólks er bara mislangt.

Óttast ekki dauðannÓlöf segist ekki óttast dauðann eða þykja óþægilegt að ræða hann. Einhvern tíma þurfi allir að deyja. Hún ætli hins vegar að njóta hverrar mínútu af lífinu meðan það varir.

Ég lifi því auðvitað dálítið í núinu en ég væri til í að fara að plana einhverja ferð á næstunni, til Danmerkur til dæmis. Við fórum í eina slíka í sumar, í tilefni þess að maðurinn minn varð sextugur og dóttir mín, sem býr þar úti, var nýbúin að eignast annan drenginn sinn. Við áttum þar yndislega tíu daga en þegar ég kom heim þurfti maðurinn minn nánast að ganga undir mér. Ég vissi að það var eitthvað að gerast, ég hafði fundið það úti. Þá voru komin meinvörp í litla heila og ég var búin að missa jafnvægið. Þá lagði ég kapal í símanum heila helgi. Þótt maður sé bjartsýnn og lifi í núinu þá væri mjög óeðlilegt ef maður færi ekki niður í einhvern helvítis dal þegar svona tíðindi koma, ofan á allt. Þetta notaði ég til að dreifa huganum, algjörlega heilalausa iðju. En mér tókst að rífa mig upp úr því strax eftir helgina.

Þetta er eitt það erfiðasta sem maður þarf að kljást við sem krabbameinssjúklingur, að það kemur alltaf eitthvað nýtt upp á. Að vita að það kemur alltaf eitthvað annað upp á, meinvörpin halda sig ekki til hlés heldur dreifa sér og maður er aldrei bara að berjast á einhverjum einum vígstöðvum.“

Er hamingjusöm þrátt fyrir erfiðleika

Þrátt fyrir þá erfiðleika sem illvígur sjúkdómur hefur haft í för með sér svarar Ólöf því hiklaust játandi þegar hún er spurð hvort hún sé hamingjusöm. „Já, ég er það. Ég finn það líka núna að ég þarf minna til að gleðjast heldur en í upphafi þegar ég var að takast á við sjúkdóminn, minna til að líða betur. Í byrjun var ég mikið að velta mér upp úr þjóðfélagsmálunum, upp úr ranglæti heimsins. Ég held að það megi segja að ég hafi meðvitað tekið út reiðina vegna sjúkdómsins á því í þjóðfélaginu sem ég gat verið reið yfir. Ég var kannski brjáluð yfir þingmönnunum, og ég er það stundum ennþá, en í minna mæli. Ég er ennþá brjáluð yfir misskiptingunni í þjóðfélaginu og slíku en ég hef fjarlægt mig meira frá því en var, þegar ég notaði það sem útrás.“

„Ég er ennþá brjáluð yfir misskiptingunni í þjóðfélaginu og slíku en ég hef fjarlægt mig meira frá því en var, þegar ég notaði það sem útrás“

„Ég ákvað að vera jákvæð því manni líður svo miklu betur þannig. Þegar það koma bakslög þá líður manni kannski illa í tvo, þrjá daga, en svo er ekkert annað að gera en að rífa sig aftur upp. Ef ég ætti að ráðleggja fólki í einhverjum svona aðstæðum þá er það að berjast eins og það getur til að halda í jákvæðni, í gleði. Að muna eftir því að maður hefur svo margt að lifa fyrir, ég er með mynd af barnabörnunum mínum sem skjáhvílu á símanum og þegar ég þarf að minna mig á hlutina þá kíki ég á þau. Ég hef þetta til að lifa fyrir og ég ætla að gera það á góðan hátt. Þannig að, já, ég er hamingjusöm.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár