Þriðjudaginn 18. september fór út fjöldapóstur til áskrifenda samtakanna Avaaz þar sem fólk er hvatt til að taka þátt í undirskriftasöfnun gegn hvalveiðum Íslendinga. Söfnunin ber yfirskriftina „Stöðvið hvalaslátrarann“ og hefst á orðunum „Borgurum um allan heim finnst það hryllingur að Ísland stundi ennþá hvalveiðar. Við hvetjum ykkur til að nýta tækifærið og hætta að veiða hvali til frambúðar, og leiða frekar vernd fyrir hvalastofna um allan heim.“
Undirskriftin fer undir bréf sem stílað er á forsætisráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og allra meðlima ríkisstjórnar Íslands.
Kristján Loftsson, aðalmaðurinn á bakvið fyrirtækið Hval ehf. er nafngreindur í bréfinu sem „síðasti maðurinn á plánetunni sem veiðir langreyðar sér til gróða.“
„Þetta er sjúklegt. Þeir skutu hana með sprengjuskutli, hjuggu fóstrið úr henni og hentu því. Hún var ein af þeim 125 langreyðum í útrýmingarhættu sem milljónamæringurinn Kristján Loftsson hefur drepið í ár,“ stendur meðal annars í bréfinu. Þess ber að geta að langreyðar teljast ekki í útrýmingarhættu.
Undirskriftasöfnunin vísar til máls í ágúst þar sem samtökin Sea Sheperd náðu myndum af verkun á langreyð þar sem fóstur úr dýrinu var rifið út og hent í ruslið. Svo greinir The Mirror frá.
Ráðherrar ósammála um hvalveiðar
Reglugerðin sem heimilar hvalveiðar við Íslandsstrendur rennur út á næsta ári, en reglugerðin var sett árið 2014 af Sigurði Inga Jóhannssyni, þáverandi sjávarútvegsráðherra. Katrín Jakobsdóttir lýsti yfir miklum efasemdum um það hvort hvalveiðar væru réttlætanlegar út frá umhverfislegum, samfélagslegum og efnahagslegum sjónarmiðum í svari til Stundarinnar í júní síðastliðnum.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, er ekki á sama máli og telur að það sama eigi að gilda um nýtingu hvala og annarra lifandi auðlinda hafsins.
Hvalveiðar í erlendum fréttum
Stundin hefur áður fjallað um nýlegar veiðar Íslendinga á fágætum hvölum, og eru viðbrögð erlendra fjölmiða neikvæð í flestum tilfellum.
Þá var mikið fjallað um Hval ehf. vegna dráps á hval þann 7. júlí síðastliðinn sem var talinn vera steypireyður, en tegundin er vernduð um heim allan. Efnafræðirannsóknir staðfestu samkvæmt Vísi að hvalurinn hafði verið blendingur langreyðar og steypireyðar, en slík tegund er ekki vernduð samkvæmt alþjóðlegum lögum.
Þegar frétt þessi er skrifuð er undirskriftarsöfnunin komin með 1.058.346 undirskriftir, og stendur markmiðið í 1,5 milljón undirskriftum. Bréfið má lesa í heild á heimasíðu Avaaz.
Athugasemdir