Þegar ég var á þingi þá hófst umræðan um fullveldishátíðina á Þingvöllum. Hátíðin var strax skipulögð eins og hún varð. Ákveðið var að setja þingmenn og fína fólkið á palla og leyfa almenningi að vera handan Almannagjár, áhorfendur en ekki þátttakendur.
Ég lagði til að í stað þess að breikka enn gjána á milli þings og þjóðar, að boða frekar til þjóðfundar og byggja brú á milli þings og þjóðar, en það þótti of dýrt.
Ef ég hefði verið á þingi þegar þessi rándýra sjálfhverfa var haldin, hefði ég ekki mætt, hefði ekki látið þetta renna mótbárulaust áfram eins og raunin varð og enginn fjallaði um þetta allt saman af nokkurri gagnrýni fyrr en upp komst að fulltrúi nýlenduherra okkar fyrrverandi var boðið að halda ræðu á sýndarveruleika-útifundi.
Það hefði verið betri bragur á því ef formanni Stjórnarskrárfélagsins hefði verið boðið að stýra þjóðfundi með þingi og þjóð en að bjóða, af öllum mögulegum embættum óháð því hver situr í því, fulltrúa frá nýlenduherraþjóðinni sem okkur tókst að heimta fullveldi okkar frá.
En Grímur er snjall, í stað þess að fólk myndi láta hugann reika til þeirrar stundar að þingið sjálft hafði af þjóðinni nýja stjórnarskrá, þá fór öll athyglin á að forseti danska þjóðþingsins er þjóðernissinni og fer fyrir flokk með miður fagra stefnu er lúta að innflytjendum.
Öll umræðan fór að snúast um heimapólitík fyrrum föðurlandsins í stað þess að vera fullveldishátíðin okkar, fólksins í landinu. Það hefur hreinlega ekki verið neinn áberandi fögnuður yfir því, á þessu hátíðarári, að við fengum að ráða okkur sjálf án þess að þurfa að bera það undir ráðamenn í Danmörku.
„Öll umræðan fór að snúast um heimapólitík fyrrum föðurlandsins í stað þess að vera fullveldishátíðin okkar“
Það gekk á með reiðiöldum og almennri hneykslan sem reis og hneig býsna hratt á öldum samfélagsmiðla hér heima. Nokkrir þingmenn fengu 15 mínútna alheimsfrægð í Danaveldi og undirritaðri bauðst að leggja mitt á vogaskálarnar í dönskum fjölmiðlum um hvort að rétt hefði verið að bjóða rasista til Íslands, en ég afþakkaði og sagðist frekar vilja ræða um fullveldið okkar.
Reiðin, sem var eins snögg að hverfa og sumarið í ár, snerist ekki um að samfélagssáttmálanum var stolið af okkur, eða að hér var boðaður, í trássi við núgildandi stjórnarskrá, forseta þings fyrrum nýlenduherrans. Heldur um pólitísk viðhorf viðkomandi forseta. Ef það er ekki táknrænt fyrir ákveðinn undirlægjuhátt og nýlenduþjóðarheilkenni, þá veit ég ekki hvað.
Nú vil ég halda því til haga að ég hef ekki hugmynd um það hverjir voru verri við Íslendinga þegar við vorum nýlenduþjóð; Danir eða hinir íslensku þjónar þeirra. Það er samt athyglisvert að velta því fyrir sér hverjir höfðu tök á að senda börn sín til æðri menntunar til Danmerkur og hverjir tóku svo við stjórnsýslunni þegar við fengum að ráða okkur sjálf, náðarsamlegast.
Það sem er svolítið dapurlegt að fylgjast með er að á einhvern hátt virðist þjóðarsálinni almennt vera slétt sama um þetta frelsi til að vera sjálfráða og enn meira sama um að nýrri stjórnarskrá var hreinlega hent í ruslið og kveikt í henni.
„Leyfið okkur, vinnuveitendum ykkar, að hafa raunveruleg áhrif á störfin ykkar fyrir okkur.“
Forseti Alþingis slapp nokkuð vel frá þessu öllu. Baðst afsökunar fyrir hönd þings og þjóðar á upphlaupi allra þingmanna sem sýndu forseta danska þingsins vanvirðu og fannst mörgum það bara stórmannlegt af honum. En kannski er ekki við Dani að sakast, þeir fengu bara boð í partí og mættu. Skömmin af þessu klúðri er alfarið Alþingis. Allir flokkar bera þar ábyrgð með því að vera þátttakendur í því að láta bjóða okkur þá hneisu að halda einhvern fáránlegan fund á Þingvöllum með prjáli og pompi, sem í raun og sann hefði aldrei átt að eiga sér stað. Ótrúlega hallærislegt.
Alþingi hefur enn tíma til að skipuleggja þjóðfund og samtal við fólkið sem heldur við þessu formi að lýðræði með þjóðkjörnum fulltrúum. Komið nú, þingmenn, og hittið okkur, fólkið sem réð ykkur í vinnu. Opnið vef í anda Betri Reykjavík, sem getur hreinlega heitið Betra lýðræði, og leyfið okkur, vinnuveitendum ykkar, að hafa raunveruleg áhrif á störfin ykkar fyrir okkur.
Höfundur er fyrrverandi þingmaður og kapteinn Pírata.
Athugasemdir