Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur gefið út yfirlýsingu til að svara tilkynningu frá ASÍ þar sem sagt var að ummæli hennar um frystingu launa þeirra sem áður heyrðu undir kjararáð séu „bæði röng og villandi“. Í Kastljósi RÚV í gær sagði hún að frysting launa þeirra sem áður heyrðu undir kjararáð kæmi launum þeirra í „ákveðið samræmi“ við almennt launafólk í árslok 2018.
Benti Magnús Norðdahl, lögfræðingur ASÍ á að minnihluti starfshóps um málefni kjararáðs sem skipaður hafi verið í ársbyrjun lagði til lækkun launa forseta, ráðherra, þingmenn, ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra með það að markmiði að stuðla að sáttum á vinnumarkaði. Ákvörðun stjórnvalda um frystingu launa í stað „leiðréttingar og lækkunar“ þessara aðila muni kosta ríkissjóð 1,3 milljarða króna til ársloka 2021.
Katrín bendir á að ASÍ hafi lagt fram minnihlutaálit í starfshópi, en meirihlutinn hafi komist að annarri niðurstöðu í skýrslunni. „Alþýðusamband Íslands talar um það að ég hafi farið með rangt mál í Kastljósi gærkvöldsins þegar ég benti á að meðaltalslaunaþróun þeirra sem heyra undir kjararáð verði sambærileg við aðra hópa frá árinu 2013 til 2018 svo fremi sem laun þeirra breytist ekki frekar á þessu ári og verði fryst út árið,“ segir Katrín. „Er það í samræmi við niðurstöður skýrslu sem unnin var í samráði stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins og kom út í febrúar á þessu ári en þar segir orðrétt:
„Ef ekki verður um frekari endurskoðanir að ræða á árinu 2018, þ.e. laun haldist óbreytt frá síðustu úrskurðum kjararáðs til ársloka 2018, yrði launaþróun kjararáðshópsins að meðaltali við þau mörk sem rammasamkomulagið setti og að framan hafa verið metin á bilinu 43-48%. Eins og fram kemur í skýrslunni er launaþróun innan hópsins mjög ólík. Til dæmis hafa héraðsdómarar fengið 35% hækkun en ráðherrar 64% hækkun á sama tímabili. Ef litið er til lengri tíma, t.d. starfstíma kjararáðs frá árinu 2006, blasir við önnur mynd en á því tímabili hafa laun þessara starfsgreina þróast með svipuðum hætti.““
Athugasemdir