Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, bendir á að mikill meirihluti mannkynsins lifi á lakari kjörum en sem nemur 235 þúsund íslenskum krónum á mánuði. Sjálfur hafi hann búið við slík kjör og verið „skrambi glaður“. Þetta segir hann í umræðum um ójöfnuð á Twitter.
Tilefnið er umfjöllun Viðskiptaráðs undanfarna daga um tekjudreifingu á Íslandi. Hagstofan birti gögn um dreifingu heildartekna á föstudag. Þar er ekki að finna upplýsingar um ráðstöfunartekjur né heildardreifingu milli tekjutíunda. Hins vegar er gerð grein fyrir þróun svokallaðra tekjutíundamarka milli ára. Viðskiptaráð telur ljóst af þeim tölum að tekjujöfnuður hafi aukist árið 2017. Haft var ettir framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs á Stöð 2 í gær að varast þyrfti „óupplýsta umræðu um vaxandi misskiptingu í samfélaginu“.
Í umfjöllun Viðskiptaráðs um tölur Hagstofunnar kemur fram að „til dæmis hækkuðu atvinnutekjur hjá einstaklingi með hærri tekjur en 10% einstaklinga, eða við 10% tíundamörkin, um 12% árið 2017 og um 13% hjá einstaklingi með hærri tekjur en 20% einstaklinga“ en „á hinn bóginn hækkuðu atvinnutekjur um 5% hjá einstaklingi með hærri tekjur en 90% framteljenda“.
Í krónutölum felst í þessu að neðstu tekjutíundamörkin hækkuðu um 115 þúsund á ári meðan efstu tíundamörkin hækkuðu um 474 þúsund, eða rúmlega fjórum sinnum meira.
Konráð Guðjónsson hefur tjáð sig um tekjudreifingartölurnar á Twitter og hæðst að umræðu um sívaxandi ójöfnuð. Andri Sigurðsson forritari spyr hann hvort hann myndi glaður lifa á 235 þúsund krónum á mánuði, eða lágmarkslaunum eftir skatt.
„Ég hef lifað á lægri fjárhæðum og verið skrambi glaður,“ svarar Konráð og bætir við: „Ca. 96% mannkyns lifir á lægri fjárhæðum.“
Konráð starfaði áður sem hagfræðingur á skrifstofu forsetans í Tansaníu og sótti starfsnám hjá Þróunarsamvinnustofnun í Úganda. Einnig hefur hann starfað á greiningardeild Arion banka, veitt leiðsögn við laxveiði og kennt hagfræði fasteignamarkaðarins við Endurmenntun Háskóla Íslands.
Síðasta vor greindi hann frá því að honum hefði verið hótað eftir að hann skrifaði greinina „Hálaunalandið Ísland“. Hann útskýrði málið í samtali við Fréttablaðið. „Það er hreinlega þannig að laun á Íslandi, ef þú mælir þau í erlendri mynd, þá eru þau með þeim hæstu í heimi, þau eru önnur hæstu í heimi á vinnustund. Það er staðreynd. En svo, eins og er tekið fram í greininni, þá er verðlagið hér hærra en víðast annars staðar. Þannig kaupmátturinn er ekki eins hár og annars staðar, en hann er samt sem áður ellefti mesti á vinnustund samkvæmt, OECD og því sá ellefti mesti í heiminum. Það er mögulega þessi einfalda staðreynd, sem er þó studd með gögnum OECD, eða Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, og eflaust hægt að styðja með gögnum fleiri alþjóðlegra stofnanna. Það er fjallað um ýmislegt meira í greininni, eins og hvernig kaupmátturinn skiptist og ólíkar ástæður þess að fólk sé óánægt. Með hliðsjón af þessu þá verð ég að játa að ég átta mig ekki alveg á því af hverju fólk er ósátt.“
Athugasemdir