Meðalatvinnutekjur karla voru hátt í tveimur milljónum hærri en meðalatvinnutekjur kvenna árið 2017. Meðaltal atvinnutekna hjá körlum sem þénuðu slíkar tekjur voru 6,6 milljónir en 4,9 milljónir hjá konum. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofunnar um tekjur eftir sveitarfélögum og kyni árin 1990 til 2017.
Tekjumunur kynjanna er talsverður hvort sem litið er til heildartekna, atvinnutekna, fjármagnstekna eða ráðstöfunartekna. Hins vegar hafa tekjur kvenna aukist hlutfallslega meira en tekjur karla í uppsveiflunni frá 2011 til 2017. Séu tölur Hagstofunnar núvirtar kemur í ljós að heildartekjur karla hækkuðu að meðaltali um 22,6 prósent á tímabilinu en heildartekjur kvenna um 32 prósent. Heildartekjur karla voru að meðaltali 7,2 milljónir í fyrra en heildartekjur kvenna 5,6 milljónir.
Heildarmánaðartekjur einstaklinga voru að meðaltali 534 þúsund krónur í fyrra sem er 6,7 prósentum hærra en árið áður sé miðað við verðlag ársins 2017. Í tilkynningu á vef Hagstofunnar er bent á að meðaltekjur hafa aukist talsvert undanfarin ár og eru nú nálægt því sem þær voru árið 2007 á verðlagi ársins 2017. Hins vegar sé hlutdeild fjármagnstekna í heildartekjum minni í dag en hún var á útrásarárunum. Meðaltal heildartekna er hæst í Garðabæ eða 8,2 milljónir króna. Þar á eftir koma Seltjarnarnes og Kópavogur.
Athugasemdir