Við upplifum það reglulega að stjórnmálamenn vilji endurrita söguna og fela þannig eigin mistök. Til dæmis er oft nefnt í þessu sambandi þegar Björn Bjarnason, þáverandi menntamálaráðherra, fékk um síðustu aldamót prófessor frá Háskóla Íslands til þess að setja saman myndbandaseríu um þróun íslensks samfélags á síðustu öld. Í þessari seríu var sagan endurrituð og því blákalt haldið fram að öll aukin réttindi og betri tryggingar launamanna væru tilkomnar frá ráðherrum Sjálfstæðisflokksins, en í myndböndunum var ekki minnst á áratuga baráttu launamanna fyrir þessum réttindum og hvernig þeim tókst að þvinga þáverandi ráðherra til aðgerða. Þessa dagana erum við að upplifa sams konar athafnir þar sem sami prófessor, og reyndar einnig stjórnarmaður Seðlabankans þann tíma sem um er rætt, er fenginn til þess að semja skýringar á því hvað olli efnahags- og kerfishruni íslenska hagkerfisins haustið 2008. Í söguskýringum prófessorsins er því haldið fram að erlendir menn hafi valdið hruninu, en íslenskir ráðherrar hins vegar unnið mikil afrek við að bjarga íslenskum almenningi. Hrunið hér varð margfalt umfangsmeira en í nágrannalöndum okkar, algjört kerfishrun og Seðlabankinn gjaldþrota, fjártjón íslensks hagkerfis var heimsmet. Tugir þúsundir íslenskra heimila misstu allt sem þau áttu og sátu að auki uppi með óviðráðanlegar skuldir. Kaupmáttur hrundi um helming og allar skuldir tvöfölduðust, það er að segja hjá þeim sem voru læstir inni í krónuhagkerfinu og gátu ekki komið eignum undan til skattaskjólseyja.
„Það er óhætt að segja að oft urðum við talsmenn aðila vinnumarkaðarins undrandi á orðræðunni á Alþingi“
Ég var í verkalýðsforystunni á árunum 1987–2012 auk þess að sitja í stjórnum norrænna og evrópskra sambanda verkalýðsfélaga og kynntist náið flestum þeim þáttum sem hafa áhrif á kaup og kjör almennings, eins og til dæmis stjórnun hagkerfisins. Það er óhætt að segja að oft urðum við talsmenn aðila vinnumarkaðarins undrandi á orðræðunni á Alþingi, svo maður tali nú ekki um söguskýringar ráðandi stjórnmálamanna þegar þeir mæta í spjallþættina og fréttatímana. Í tilefni þeirra söguskýringa sem haldið er að okkur þessa dagana um aðdraganda hrunsins finnst mér þörf á að taka saman örfá grundvallaratriði úr fundargerðum og ársskýrslum miðstjórna Rafiðnaðarsambandsins og ASÍ frá þessum tíma.
Ótrúlegur hagvöxtur
Það má leiða rök að því að ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar, síðar Halldórs Ásgrímssonar og síðast Geirs H. Haarde, hafi blindast í hinum ótrúlega hagvexti sem hafði verið nánast samfelldur frá þjóðarsáttarárinu 1990 fram til ársins 2008. Það hafi orðið til þess að ríkisstjórnirnar gripu aldrei til mótvægisaðgerða, sem varð til þess að íslenska hagkerfið flaug fram af hengifluginu á fullri ferð án þess að nokkur bremsuspor væru á bjargbrúninni. Á þessum tíma jókst þjóðarframleiðslan hér á landi um 77%. Lífsskilyrði höfðu aukist mikið og svo var komið árið 2007 að þau mældust best á Íslandi í úttekt Sameinuðu þjóðanna. Þessi hraða og um leið stutta velgengni íslensks samfélags varð til þess að þjóðin átti auðvelt með að trúa því að ráðamönnum landsins ásamt helstu viðskiptajöfrum okkar, með forseta landsins í fararbroddi, hefði tekist að uppgötva nýjar og betri viðskiptaaðferðir en aðrar þjóðir.
Eftirminnilegasta dæmið um slík viðbrögð er að finna á fyrri hluta ársins 2006 þegar yfir okkur reið hrina neikvæðra greiningarskýrslna frá stórum erlendum bönkum og greiningarfyrirtækjum þar sem þau lýstu yfir áhyggjum af ofhitnun í íslenska hagkerfinu, skuldsetningu þjóðarbúsins og mikla stærð fjármálafyrirtækja miðað við landsframleiðslu. Í skýrslunum var dregin upp dökk mynd af stöðu íslensku bankanna og ríkisins og spáð hér fjármálakreppu eða í það minnsta harkalegri lendingu efnahagskerfis Íslands í lok árs 2006 eða byrjun árs 2007. Hagdeildir aðila vinnumarkaðarins tóku undir þessi ábendingar og lögðu um leið fram hugmyndir um sameiginlegt átak aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda til að minnka fyrirsjáanlega niðursveiflu hagkerfisins og ná snertilendingu frekar en brotlendingu, eins og það var jafnan orðað.
„Drengir, sjáið þið ekki veisluna?“
Íslenskir ráðherrar vísuðu öllum þessum viðvörunum til föðurhúsanna og röktu gagnrýnina til vanþekkingar, óvildar eða gengu jafnvel svo langt að vísa til öfundar þeirra sem settu hana fram. Míníkreppan árið 2006 hefði átt að vekja stjórnvöld, og sérstaklega eftirlitsstofnanir Seðlabankans og Fjármálaeftirlitisins, til stóraukinnar árvekni og vera þeim hvatning til aðgerða til að draga úr kerfislægri áhættu. En það varð ekki raunin, heldur ríkti mikil samstaða allt fram að hruni um að verja bankana gagnrýni og telja þjóðinni trú um að traust ríkti á milli stjórnvalda og bankanna og hér væri allt í besta standi.
„Vonandi batna þessar greiningar þeirra, því miður gætir alltof oft misskilnings og allt að því rangfærslna“
Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, sagði í viðtali á RÚV í október 2006 að þessar yfirlýsingar vektu furðu. Ingimundur Friðriksson, aðstoðarbankastjóri Seðlabanka Íslands, tók í sama streng í viðtali við RÚV 2006. Sigurður Einarsson, þáverandi starfandi stjórnarformaður KB banka, gaf ekkert fyrir þetta og og bætti raunar við að „allir þokkalega viti bornir menn hljóti að sjá að svo væri ekki“. Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans, dró í viðtali við RÚV í mars 2006 í efa hæfni og þekkingu skýrsluhöfunda og sagði: „oftast er hér um að ræða alveg nýja aðila sem að eru að hefja greiningar og vonandi batna þessar greiningar þeirra, því miður gætir alltof oft misskilnings og allt að því rangfærslna í þessum nýju greiningum.“ Tryggvi Þór Herbertsson, þáverandi forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, sagði í viðtali við RÚV í febrúar 2006 að matið væri glannalegt.
Matthías Johannessen, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins í yfir 40 ár, sagði um þetta: „Gírugir kaupmenn héldu áfram að leggja markaðinn undir sig og ljóst að engum mundi takast að hefta þá þróun. Þeir fóru um alla sjóði landsins eins og engisprettur og fluttu milljarða úr landinu eins og síðar kom í ljós. Höfðu landið í raun í herkví. Stjórnmálamönnum var ógnað eða þeir settir til hliðar eins og hver önnur peð, sumir urðu lakæjar, aðrir leigupennar. Sá sem hefði reynt að sporna við þessari plágu hefði verið púaður niður eins og ástandið var.“
Ummæli sem Árni M. Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra, viðhafði á Alþingi þann 17. mars 2007 hafa gjarnan verið notuð þegar fjallað er um hið mikla andvaraleysi sem einkenndi viðhorf stjórnvalda gagnvart því hvert stefndi í efnahagsmálum Íslands. „Hér er fólk að tala sem sér bara ekki til sólar, það bara sér ekki til sólar fyrir einu eða neinu ... Háttvirkur þingmaður sem hér galar fram í tekur meira mark á greiningardeildunum úti í heimi en verkalýðshreyfingunni, það er alveg augljóst, og hún sér ekki til sólar ... Ég verð að segja eins og vinur minn, Björn á Hofsstöðum, sagði: Drengir, sjáið þið ekki veisluna? Þetta fólk sér ekki hvað hefur verið að gerast hér á undanförnum árum. Það sér það bara ekki, sennilega af því að það vill það ekki.“ Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, spurði síðar í bók sinni „Uppreisnarmenn frjálshyggjunnar“ hvort Sjálfstæðisflokkurinn hefði orðið fórnarlamb „óhefts og ruddalegs kapítalisma“.
Í þessu sambandi er oft vitnað í fræga ræðu Ólafs Ragnars Grímssonar, þáverandi forseta Íslands, „How to succeed in modern business. Lessons from the icelandic voyage“ þar sem hann var á ferð með helstu viðskiptamönnum Íslands að kynna útrásarvíkingana við opnun bækistöðvar Avion Group við Gatwick-flugvöll í Bretlandi 24. febrúar 2005. Ólafur Ragnar forseti sagði í lok ræðu sinnar að Avion Group væri einstakt dæmi um afrek á heimsmælikvarða. Afbragðsgóð sönnun á hæfileikum íslenskra athafnamanna og lauk ræðu sinni með orðum sem hann að eigin sögn fékk lánuð frá Hollywood: „You ain’t seen nothing yet.“ Í Rannsóknarskýrslu Alþingis er í löngum kafla fjallað um nauðsyn þess að forsetaembættinu væru settar skýrar siðareglur. „Þegar horft er til baka yfir þá atburði sem leiddu til hruns í íslensku efnahagslífi vekur þáttur forseta Íslands sérstaka athygli. Þótt stjórnkerfið í heild beri með margvíslegum hætti ábyrgð á því sem gerðist verður ekki hjá því komist að skoða embætti forseta Íslands sérstaklega, svo hart gekk forsetinn fram í þjónustu sinni við útrásina og þá einstaklinga sem þar voru fremstir í flokki.“
Fyrirmynd annarra þjóða
Viðskiptaráð Íslands setti saman skýrslu árið 2006 um stöðu íslensks efnahagslífs og spá að auki hver staða Íslands yrði árið 2015. Skýrslan var umtöluð og varð meðal annars aðhlátursefni á ráðstefnum norrænu verkalýðshreyfingarinnar, þar sem íslensku fulltrúarnir voru gjarnan teknir afsíðis og spurðir um hvað í ósköpunum væri í gangi á Íslandi. Íslenskir fjárfestar væru að kaupa upp hvert gjaldþrota fyrirtækið á fætur öðru á Norðurlöndunum og í Bretlandi og selja þau síðan sín á milli og í hvert skipti með gríðarlegum hagnaði sem var myndaður með innistæðulausum bókhaldsbrellum.
Í skýrslu Viðskiptaráðs stóð meðal annars: „Íslensku fyrirtækin sem leitt hafa útrásina á undanförnum árum byggja öll meira eða minna á þeim kostum og einkennum sem við teljum okkur hafa sem þjóð í augum útlendinga. Við erum lítil þjóð, vel tengd innbyrðis, erum fljót að átta okkur á stöðu mála, erum hugmyndarík, tökum ákvarðanir strax og lærum fljótt og örugglega af reynslunni.“ Í lok skýrslu Viðskiptaráðs er lögð fram aðgerðaráætlun til ársins 2015 með það markmið að gera Ísland að samkeppnishæfasta landi í heimi. Lagt er til að íþyngjandi regluverki sem hvíldi á viðskiptalífinu verði afnumið. Íslendingar ættu að láta vinda viðskiptafrelsis leika um sem flest svið hagkerfisins. Því meira sem frelsið væri, þeim mun meira svigrúm hefði viðskiptalífið til að vaxa og dafna. „Viðskiptaráð leggur til að Ísland hætti að bera sig saman við Norðurlöndin enda stöndum við þeim framar á flestum sviðum. Ísland ætti þess í stað að bera sig saman við þau ríki sem standa hvað fremst á hverju sviði fyrir sig.“
Á þessum árum stofnuðu Íslendingar mikinn fjölda aflandsfélaga og stunduðu þannig kerfisbundið skattaundanskot með aðstoð íslenskra banka í skjóli slakra skattalaga og lítils eftirlits stjórnvalda. Til dæmis birti Landsbankinn röð af heilsíðuauglýsingum þar sem eigendur peninga eru hvattir til þess að fara með þá úr landinu og leggja þá inn á aflandsreikninga: „Rekstur Fortuna sjóðanna fer fram á Guernsey, alþjóðlegri fjármálamiðstöð á Ermarsundi. Þar vaxa peningar í góðu skjóli og ná ávöxtun eins og hún gerist best í heiminum.“ Þrátt fyrir ábendingar um veikleika kerfisins brugðust stjórnvöld ekki við. Þvert á móti var það markviss stefna stjórnvalda árin fyrir hrun að hafa ekki eftirlit með útstreymi fjármagns frá Íslandi inn í félög í skattaskjólum á aflandseyjum. En íslensk stjórnvöld létu sér ekki nægja að skera niður skattaeftirlit og draga það að setja reglur til að hindra verstu skattsvikin heldur héldu þau í öfuga átt.
Á sama tíma og önnur lönd gripu til allra ráða til að sporna við flutningi fjár yfir í skattaskjól gerðu íslensk stjórnvöld hið gagnstæða. Það varð opinber stefna stjórnvalda að draga úr skattheimtu af auðfólki og fyrirtækjum og gera Ísland að skattaparadís fyrir hina ríku og stóru. Það er talið að á árunum 2000–2008 hafi allt að 1.150–1.800 milljörðum króna verið haldið utan skattskila. Um aldamótin var fjármunaeign Íslendinga í útlöndum um 122 milljarðar króna. En árið 2008 var þessi eign orðin um 3 þúsund milljarðar króna, eða álíka fjárhæð og nemur einni landsframleiðslu. Á þessum árum rann því um fjórðungur til þriðjungur landsframleiðslunnar út úr íslenska hagkerfinu á hverju ári. Það er því ekki hægt að segja að hagkerfið hafi lekið, réttara væri að segja að það hafi sprungið og fjármunirnir flætt út. Á þessum árum keyptu íslensk félög fyrirtæki í útlöndum. Hluti þeirra kaupa var fjármagnaður með lántökum á Íslandi.
„Í fjármálaráðherratíð Geirs H. Haarde var kerfisbundið dregið úr skattaeftirliti og ekkert gert með tillögur skattsvikanefndarinnar“
Það var gríðarlega mikið fjármagn sem rann út vegna ívilnandi skattareglna og var gjarnan gert með því að greiða út arð úr fyrirtækjum, jafnvel þótt þau væru rekin með miklum halla, arðgreiðslurnar voru lagðar inn í nýtt félag, til dæmis félag á aflandseyju sem Landsbankinn eða Kaupþing í Lúxemborg keyptu og héldu utan um. Í viðtali við Skúla Eggert Þórðarson ríkisskattstjóra kom fram að áætlað sé að frá aldamótum til 2008 hafi skattaundanskot á Íslandi með útstreymi til aflandseyja numið allt að 1.800 milljörðum króna. Í fjármálaráðherratíð Geirs H. Haarde var kerfisbundið dregið úr skattaeftirliti og ekkert gert með tillögur skattsvikanefndarinnar 2004. Þar lögðu Snorri Olsen tollstjóri, Indriði H. Þorláksson skattstjóri og Skúli Eggert Þórðarson til aðgerðir til að mæta breyttu viðskiptaumhverfi.
„Vinur er sá er til vamms segir.“
Verkalýðshreyfingin varaði við afleiðingum þess að ríkisstjórnin ákvað um aldamótin að hverfa frá fastgengisstefnunni. Aðilar vinnumarkaðarins bentu ítrekað á að ríkisstjórnin ætti að leggja fyrir hæsta kúfinn af tekjunum í þenslunni frekar enn að lækka skatta, sem þjóðin ætti þá í handraðanum til mögru áranna. Skuldatryggingarálag íslensku bankanna fór að hækka haustið 2005 og tvöfaldaðist á skömmum tíma. Lánshæfismatsfyrirtækið Fitch Ratings sendi frá sér fréttatilkynningu 22. febrúar 2006 þar sem horfur um lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins voru sagðar neikvæðar, ósjálfbær viðskiptahalli og himinháar erlendar skuldir sem væru komnar vel yfir 400% af erlendum tekjum.
Norrænir ráðherrar áttu á þessum árum ítrekað viðræður við íslenska ráðherra um hið geigvænlega ástand efnahagskerfis Íslands og hvert stefndi. Þetta var einnig endurtekið til umræðu á ráðstefnum norrænu verkalýðshreyfingarinnar. Þáverandi ráðherrar Íslands ásamt stjórn Seðlabankans virtu þessar viðvaranir að vettugi og báru hins vegar þær sakir á vinaþjóðir okkar að þau væru að svíkja Ísland með því að neita þeim um fjárhagsaðstoð nema þá í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. En sú aðgerð átti eftir að bjarga því sem bjargað varð hér á landi eftir hrunið. „Vinur er sá er til vamms segir.“
Miðstýrt hagkerfi
Margt af því sem gerði kreppuna hér verri en annars staðar má finna í sögu íslenska hagkerfisins og stofnana þess. Íslenska hagkerfið hefur ávallt verið miðstýrðara og stjórnað í meira mæli af pólitískum öflum en hagkerfi flestra annarra vestrænna ríkja. Efnahagsstjórnin hér á landi var frekar reist á brjóstviti en viðurkenndum reglum auk þess að náin tengsl voru á milli fyrirtækja í einkageira og tiltekinna stjórnmálaflokka. Íslenska krónan hefur ætíð hentað vel fyrir þessa stefnu, hún er skaðræði og eyðir í raun verðmætum, eins og ítrekað var bent á í ályktunum frá verkalýðshreyfingunni. Þetta birtist vel í því hversu mikill hvati er hjá fyrirtækjum að halda sem mest af verðmætum utan krónuhagkerfisins.
Á fundum innan samtaka launamanna á árinu 2007 og fram á vorið 2008 var meðal annars bent á að sá óstöðugleiki sem hafi verið í efnahagsmálum stefndi öllum ávinningi kjarasamninga undanfarinna ára í voða. Gengissveiflur væru miklar og viðskiptahalli í sögulegu hámarki. Sýnt var fram á að efnahagsstjórnin frá aldamótum hefði einkennst af athafnaleysi stjórnvalda. Verðbólga væri nú orðin tvöfalt meiri en viðunandi væri og hún stefndi í að verða fjórfalt meiri. Kaupmáttur launa væri að dragast saman samhliða því að greiðslubyrði lána færi hratt vaxandi. Ríkisstjórnin hefði notað byggingar- og verktakaiðnaðinn sem kælitæki fyrir efnahagslífið og spilaði þannig af fullkomnu tillitsleysi með efnahag tugþúsunda heimila.
„Svör forsvarsmanna stjórnarflokkanna voru á þann veg að þeir væru staðfastir í þeirri trú að ríkisstjórnin hefði ekkert hlutverk í hagstjórninni.“
Ítrekað var bent á að stjórnvöld kæmust ekki hjá því að taka höndum saman við atvinnulífið í að vinna að langtímalausnum á efnahagsvandanum. Nútíma íslenskt atvinnulíf gæti ekki starfað við þær aðstæður sem því væru búnar af stjórnvöldum. Allt stefndi í að gildandi kjarasamningar yrðu í uppnámi. Svör forsvarsmanna stjórnarflokkanna voru á þann veg að þeir væru staðfastir í þeirri trú að ríkisstjórnin hefði ekkert hlutverk í hagstjórninni. Bjart væri framundan en eftir góða veislu yrðu menn að takast á við timburmennina. Fyrri ríkisstjórn Geirs H. Haarde féll vorið 2007 og hann fór fram aftur undir kjörorðinu „Traust og ábyrg efnahagsstjórn“ og hann myndaði aðra stjórn sína með Samfylkingunni, sú stjórn var síðan hrakin úr stjórnarráðinu með búsáhaldabyltingunni.
Glansmyndin: „Traust og ábyrg efnahagsstjórn“
Stjórnmálamenn héldu áfram á sömu braut og gerðu ekkert með þessar viðvaranir og forsætisráðuneytið gaf út glansskýrslu sem hún gaf út í mars 2008, sem var reyndar kostuleg en segir allt um afneitun og veruleikafirringu stjórnmálamanna. Skýrslan skilgreindi þjóðareinkenni Íslendinga og þar voru tillögur um hvernig mætti nota þau einkenni til að byggja upp jákvætt alþjóðlegt orðspor, einkum í þágu viðskiptaútrásarinnar.
Skýrsluhöfundar notuðu þar kunnugleg stef frá forseta landsins eins og hinn séríslenska kraft sem byggi í þjóðinni og legði grunn að kröftugu viðskiptalífi. Hinn náttúrulega kraft sem greindi þjóðina frá öðrum þjóðum og hafi skilað henni í hóp samkeppnishæfustu landa heimsins. Ísland sé best í heimi, land sem bjóði mestu lífsgæði sem þekkist. Hinn náttúrulegi kraftur einkenndi það ferskasta í menningu og hinn einstaka hljóm nýsköpunar í tónlist og sjónlistum, sem kallaðist á við hrynjanda rímna og Íslendingasagna. Mikilvægasti menningararfurinn væri hin lifandi íslenska tunga. Bjartur í Sumarhúsum byggi í hverjum manni á Íslandi. Minna mátti það nú ekki vera. Þjóðarrembingur og einangrunarstefna varð einkenni málflutnings þáverandi stjórnarliða í tilraunum þeirra til þess að beina athygli almennings frá því hvert stefndi. Ímyndarskýrslan endurspeglaði þá ímynd sem þáverandi leiðtogar landsins vildu að íslenskir kjósendur og erlendar þjóðir hefðu um Ísland. Grunnhyggin sjálfumgleði reistri á efnishyggju.
„Þjóðarrembingur og einangrunarstefna varð einkenni málflutnings þáverandi stjórnarliða“
Vorið 2008 kemur fram í ályktunum og samþykktum verkalýðshreyfingarinnar að ef íslenska hagkerfið myndi brotlenda á komandi hausti, eins og sumir spáðu, yrði sú litla kreppa sem hefði verið um veturinn mjög lítil og samsvaraði því að lenda í tímabundnu atvinnuleysi. Með haustinu gæti hins vegar komið kreppa sem færi verst með þá sem ekkert hefðu gert til þess að verðskulda það mótlæti. Yfirgnæfandi hluti heimila almennra launamanna væri það skuldsettur að þau myndu ekki þola að missa tekjur í nokkra mánuði. Ef svo færi að aðgengi að lánsfjármagni myndi hverfa þá blasti við fjölmörgum heimilum gjaldþrot og það myndi taka þau langan tíma að vinna sig upp úr því. Það er því til mikils að vinna við að halda kerfinu í lagi og ná snertilendingu í stað brotlendingar. En ríkisstjórn Geirs H. Haarde og stjórn Seðlabankans héldu sig áfram á braut aðgerðarleysisins, með þeim afleiðingum sem við öll þekkjum.
Tilraun til að ná erlendum eignum lífeyrissjóðanna heim
Á sama tíma og ráðandi stjórnmála- og athafnamenn nýttu alla möguleika til þess að koma eignum út úr krónuhagkerfinu hafði Tryggvi Þór Herbertsson, efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar, samband við stjórnir lífeyrissjóðanna um miðjan föstudag 3. október 2008 og fór fram á að þeir flyttu strax þá um kvöldið heim til Íslands um 100–200 milljarða af erlendum eignum lífeyrissjóðanna. Það myndi duga til þess að koma fótunum undir íslenskt efnahagslíf. Nokkrum klukkustundum bætti hann við og fór fram á að lífeyrissjóðirnir flyttu heim með allar sínar erlendu eignir, það er að segja um 500 milljarða, það myndi duga til þess að bjarga Íslandi. Þessu var hafnað af hálfu stjórna lífeyrissjóðanna.
Það er vart hjá því komist að velta því fyrir sér hvort ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi í raun verið svo fjarri veruleikanum allt fram á síðustu stundu eða sem verður að teljast líklegra að tilgangurinn hafi verið að ná erlendum eignum lífeyrissjóðanna inn í fjármagnsflutningana sem fóru fram úr landinu yfir hrunhelgina. Í þessu sambandi má benda á vitnaskýrslu hjá sérstökum saksóknara árið 2012 en þar sagði Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta og fjárstýringar Seðlabankans, að hann hefði varað Davíð Oddsson við því að innherjar gætu nýtt sér það hversu seint neyðarlögin voru sett. Geir H. Haarde hefði átt að stöðva einum sólarhring fyrr og ástæða að hafa áhyggjur yfir því að bankarnir skyldu opnaðir á mánudeginum. Neyðarlögin hefðu átt að koma sólarhring fyrr. Það hefði átt að samþykkja neyðarlögin og „blessa Ísland“ á sunnudagskvöldið. Allt þetta ferli kallar á að það verði rannsakað til hlítar hvert þessir fjármunir fóru, en Seðlabankinn hefur ávallt vikið sér undan því að framkvæma þá rannsókn.
Gauti Eggertsson, prófessor í hagfræði við háskóla í Bandaríkjunum, benti á að stærsti kostnaðurinn við hrunið hefði skapast þegar Seðlabankinn lánaði bönkunum hundruð milljarða án nokkurra haldbærra veða í hinum svokölluðu ástarbréfaviðskiptum. Það er ekki nokkurt dæmi þekkt í sögu seðlabanka heimsins um viðlíka tap sem hlutfall af þjóðarframleiðslu. Með þessum hætti leyfði Seðlabankinn íslensku bönkunum beinlínis að prenta peninga fyrir sjálfa sig án nokkurra haldbærra veða, upphæðin við hrun nam um 30 prósentum af þjóðarframleiðslu. Þetta er rakið í Rannsóknarskýrslu Alþingis í smáatriðum, gagnrýnt af Ríkisendurskoðanda, OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Sé litið til framangreinds má telja næsta víst að ef stjórnir lífeyrissjóðanna hefðu farið að óskum efnahagsráðgjafa þá hefðu 500 milljarðar af skyldusparnaði launamanna farið nákvæmlega sömu leið og ástarbréfafjármunirnir og væru í dag inni á aflandseyjareikningum nokkurra auðmanna.
Heimsmet í afglöpum stjórnvalda og stjórnenda Seðlabankans
Þrír stærstu bankar Íslands urðu gjaldþrota skömmu eftir ávarp forsætisráðherra og við blasti kerfishrun á Íslandi með einni dýpstu og bráðustu fjármálakreppu sem orðið hefur á Vesturlöndum. Fjártjónið sem bankarnir íslensku lögðu á hluthafa, lánardrottna og viðskiptavini utan lands og innan nam um sjöfaldri landsframleiðslu Íslands, sem er heimsmet. Kostnaður ríkisins, það er að segja skattgreiðenda, við að hreinsa til eftir bankahrunið á Íslandi, nam 64% af landsframleiðslu. Ísland var eina landið þar sem hlutabréfamarkaður þurrkaðist hreinlega út. Landsframleiðsla og atvinna hefði minnkað meira hér á landi en raun varð á vegna þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ásamt Norðurlöndum komu til bjargar og lögðu á ráðin um skynsamlega endurreisnaráætlun með aðhaldi í ríkisbúskapnum og tímabundnum gjaldeyrishöftum til að firra krónuna frekara gengisfalli, en gengi krónunnar féll um helming í kringum hrunið. Sá skellur lenti á fullu afli á almenning sem var með allt sitt innan krónuhagkerfisins, en þeir sem náðu að koma eignum sínum út úr íslenska hagkerfinu voru með allt sitt á þurru.
Heimildir
- Ársskýrslur og fundargerðir miðstjórna Rafiðnaðarsambands Íslands og ASÍ
- Gunnar Haraldsson og Magnús Árni Magnússon, Ísland 2009: Stöðuskýrsla (Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, 2009).
- Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna, Human Development Indicator (New York: Sameinuðu þjóðirnar, 2007/2008).
- Seðlabanki Íslands, Fjármálastöðugleiki Reykjavík, 2008
- Á vígvelli siðmenningar. Matthías Johannessen. Bókafélagið Ugla 2010. Bls. 243.
- Vefur Alþingis. Árni M. Mathiesen. 17. mars 2007
- Uppreisnarmenn frjálshyggjunnar. Styrmir Gunnarsson. Veröld 2017. Bls. 32
- http://grapevine.is/mag/articles/2008/10/10/how-to-succeed-in-modern-business-olafur-ragnar-grimsson-at-the-walbrook-club/
- Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis 1. bindi. Kafli 2. 8. bindi. Bls. 161. 8. bindi. Bls. 170–178. 8. bindi. Bls. 247–269. 8. bindi. Bls. 275–276
- Skýrslur Viðskiptaráðs
- Skatteftirlit í aðdraganda hrunsins: skattsvik í boði hverra? Jóhannes Hraunfjörð Karlsson. Stjórnmál og stjórnsýsla, 6 (1) 2010. Bls. 37–56
- Sjálfsmynd Dana gagnvart Íslendingum farin að rispast“ Viðskiptablaðið 24. mars 2006.
- http://www.stjornarrad.is/Stefnuyfirlysing
- https://is.wikipedia.org/wiki/Icesave/nr/275
- Gauti Eggertsson http://blog.pressan.is/gauti/2015/02/24/gjaldthrot-sedlabanka-islands/
Athugasemdir