Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir útboð vegna breikkunnar Suðurlandsvegar sýna hversu stóran þátt kjördæmapólitík leiki á Íslandi. Framkvæmdin er að sönnu brýn og forgangsmál en svo hafi verið um árabil. Það gerist hins vegar loksins nú, þegar sestur sé í stól samgönguráðherra maður sem noti veginn nánast dags daglega. Samgönguráðherra er Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Suðurlands, en Sigurður Ingi er búsettur að Syðra-Langholti í Hrunamannahreppi.
Björn Leví velti þessu upp á Facebook þar sem hann tengir við frétt þar sem fjallað er um undrun bæjarastjóra Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar á útboðinu um breikkun Suðurlandsvegar. Undrun þeirra stafar af því að Suðurlandsvegur sé tekinn fram fyrir Reykjanesbraut en enn á eftir að ljúka við tvöföldun hennar. Björn Leví sagði í færslu sinni að svartsýnispúkinn í honum segði að það þurfi að fá samgönguráðherra sem búi á svæðinu til að klára Reykjanesbrautina. „Svona fyrst það þarf fyrst að klára heimreiðina fyrir núverandi samgönguráðherra.“
Kjördæmapólitík einkenni Ísland
Í samtali við Stundina segir Björn Leví að hann hafi verið að beita kaldhæðni í færslunni. Hann geri ekki lítið úr mikilvægi samgöngubóta á Suðurlandsvegi, alls ekki. „Það hefur legið fyrir í mörg ár að fara þurfi í framkvæmdir við þennan veg, svo það er ekki undarlegt að setja hann framarlega í forgangsröðina. En að það gerist loksins, að fara eigi í framkvæmdir við veginn, þegar kominn er í stól samgönguráðherra maður sem notar veginn nokkurn veginn dags daglega er í takt við það sem við höfum heyrt af óformlega all oft áður. Sem dæmi, ef það á að gera betur fyrir Landspítalann, þá er einfaldlega mælt með því að settur verði þingmaður úr Reykjavík í stól heilbrigðisráðherra,“ segir Björn Leví og vísar til þess sem kallað hefur verið kjördæmapot í gegnum tíðina.
Björn Leví segist ekki í nokkrum vafa um að breikkun Suðurlandsvegar sé brýn framkvæmd. „Ég flokka þetta sem forgangs samgöngumannvirki og álasa ekki samgönguráðherra fyrir að setja verkið framarlega, það er raunar bara mjög fínt. En að það virðist þurfa þetta til að verkefni, sem jafnvel eru í hæsta forgangi, komist á koppinn. Það er að loks sé ráðist í þessar augljóslega mikilvægu framkvæmdir, sem eru búnar að sitja á hakanum ansi lengi, þegar kominn er í stól ráðherra maður af svæðinu. Það er það sem einkennir Ísland og hvernig pólitík er stunduð hér á landi, það er kjördæmapólitík. Og þetta kemur mér ekki á óvart. Ég er að segja að ef ekki væri samgönguráðherra af svæðinu þá myndi þetta mögulega ekki vera að fara af stað, þetta verkefni. Það er hiklaust rétt ákvörðun að hefja þarna framkvæmdir en það er líka ýmislegt annað sem er jafn mikilvægt, sem ætti líka að fara af stað með, eins og Reykjanesbrautin.“
Athugasemdir