Guðrún Vilhjálmsdóttir leitaði á bráðadeild með aldraðan föður sinn í byrjun sumars vegna gallsteina. Faðir hennar hefur verið heilsuhraustur alla sína tíð og var að hennar sögn hress í anda, sjálfbjarga og skýr, áður en komið var á spítalann. Eftir röð atvika sem hún segir að hægt hefði verið að koma í veg fyrir er ástand hans hins vegar nú tvísýnt og efast hún um að hann nái sér aftur. Vilhjálmur, faðir hennar, átti meðal annars eftir að verða fyrir því að falla ítrekað í gólfið og brotna oftar en einu sinni í umsjá spítalans.
Stundin ræddi við Guðrúnu um málið og leitaði viðbragða Landspítalans, en hún vakti upphaflega athygli á því á Facebook. „Þann 6. júní fór ég með pabba minn á bráðadeild og útkoman var gallsteinar. Hann er fullorðinn mjög en sá um sig sjálfur, glaður og einstaklega geðgóður maður,“ útskýrir Guðrún í færslu í Facebook-hópnum Góða systir. Faðir hennar var sendur í aðgerð en þar fór eitthvað úrskeiðis og var hann því sendur í aðra aðgerð. Hann náði sér þokkalega að sögn Guðrúnar og var sendur í endurhæfingu á Landakotsspítala. Allt gekk vel í fyrstu en svo fór að bera á veikindum hjá föður hennar. „Ég tók eftir því að hann var farinn að hósta mikið, fékk hita og var bara veikur. Ég bað deildarlækni að hlusta hann því ég var hrædd um lungnabólgu. Hann sá ekki ástæðu til þess.“
Vildi ekki „kolruglað“ gamalt fólk
Læknirinn sagði sýklalyfin sem faðir hennar væri á dekka lungnabólguna ef svo væri komið, og vildi því ekki hlusta hann. Guðrún fékk hins vegar aðstoðarlækni til að hlusta hann og þar kom í ljós að brak var í lunga, sem bendir til lungnabólgu. Aðstoðarlæknirinn gat ekki sett hann á lyf þar sem deildarlæknir tæki þá ákvörðun. Þremur dögum seinna lét deildarlæknir hana vita að faðir hennar væri með lungnabólgu og fengi lyf við því, þrátt fyrir fyrri orð um að lyfin sem hann væri á dekkuðu lungnabólguna. Hafði faðir hennar á þessum dögum veikst enn þá meira. Guðrún segir í samtali við Stundina samskiptin við deildarlæknin hafa einkennst af útúrsnúningum af hans hálfu. „Ég náði engu sambandi við hann. Pabbi er til dæmis enginn pillumaður og hefur bara tekið vítamín og hjartalyf yfir ævina. En eitt kvöldið var hann rosalega kvíðinn og hræddur og spurði hvort hann gæti fengið eitthvað til þess að slaka á. Ég spurði deildarlækni hvort það mætti ekki létta honum þetta aðeins og fékk þau svör að starfsfólkið vildi ekki hafa gamalt fólk hérna kolruglað á göngunum af lyfjaáti. Svo snéri hann sér frá mér og sagði „sorrí“. Guðrún segir framkomu deildarlækni þó ekki hafa verið almenn meðal starfsfólks. „Það er fullt af yndislegu fólki sem var að vinna þarna, en það eru skemmd epli inni á milli.“
„Þar lá hann í sínum hægðum, engin bjalla.“
Faðir Guðrúnar var settur í einangrun vegna þvagfærasýkingar og fékk hann herbergi þar sem aðeins var handvirk bjalla, sem honum var ætlað að nota ef hann þyrfti á aðstoð að halda. Þegar að því kom að hann þurfti hjálp til að komast á salernið og hringdi bjöllunni, kom hins vegar enginn þegar hann hringdi. Hann þurfti því að fara sjálfur. Vegna einangrunarinnar var honum fenginn bekkenstóll.
Stóllinn brotnaði hins vegar undan honum, þótt hann væri ekki þungur, og lýsir Guðrún aðkomunni.
„Hann sest þennan stól og hann er ónýtur, dettur bara í sundur. Og pabbi lá á gólfinu. Þar lá hann í sínum hægðum, engin bjalla.“ Guðrún segir föður sinn hafa fengið byltu en sloppið við brot. Nokkrum dögum fyrir útskrift lenti hann í því aftur að enginn kom er hann hringdi bjöllunni og fór það svo að hann datt aftur og braut mjaðmakúlu. Í kjölfarið var hann sendur á bráðamóttökuna en eftir langa bið var hann sendur aftur á Landakot sökum plássleysis, án þess að gert væri að brotinu.
„Ég er ekkert svo viss um að hann pabbi nái sér nokkuð“
Guðrún sat með föður sínum allan daginn og fram á kvöld og segist hún hafa verið óörugg með hann. Daginn eftir hringdi hún til að fá staðfestan aðgerðartíma og var þá tilkynnt að hann hefði dottið úr rúminu um nóttina vegna þess að gleymst hefði að setja öryggisgrindurnar upp. Tveir hryggjaliðir lögðust saman við fallið og sprunga var í öðrum þeirra.
Liggur í og úr óráði
Núna er svo komið að faðir hennar liggur á spítala og dettur í og úr óráði vegna lyfjagjafar og aðgerðar. „Ég er búin að vera í taugaáfalli yfir þessu. Hann fór inn með gallsteina, hann var aumur eftir þessar tvær svæfingar sem hann þurfti að fara í sama dag en hann var bara orðinn hinn reffilegasti, tilbúinn í útskrift og að halda sínu lífi áfram. Ef allt hefði verið í lagi þá væri hann heima núna. En ég er ekkert svo viss um að hann pabbi nái sér nokkuð, ég efast um það,“ segir hún í samtali Stundina.
Guðrún segist ekki vita hvernig gamalt fólk fari að sem eigi enga aðstandendur. „Ég er svo til ein í þessu ferli og það hefur ekki verið létt. Það er skortur á upplýsingagjöf og samskiptum. Það hefur til dæmis aldrei verið haldinn fundur með mér eða verið útskýrt neitt fyrir mér eða talað við mig á nokkurn hátt. Mér eru bara sagðir hlutirnir á hlaupum á ganginum. Ég á bara að vita þetta sjálf.“
Þá segist hún hafa fundið fyrir því að fólk talaði oft um að faðir hennar væri nú svo aldraður, líkt og það réttlætti sinnuleysið. „Hvað kemur það málinu við þó hann sé aldraður? Hann á bara að fá alla þá þjónustu sem hægt er.“ Hún er viss um að mál föður hennar sé ekki einsdæmi, en verður þess hins vegar áskynja að fólk veigri sér við að ræða slík mál af ótta við að það bitni á sjúklingunum. „Ég held að aðstandendur séu mjög hræddir við að tjá sig um svona mál af ótta við að það bitni á sjúklingunum. Þess vegna heyrum við svo lítið um hvað er að gerast. Mér finnst það svo hræðilegt, að það sé einhver með líf ástvina manns í höndunum og ef maður þegi ekki verði komið verr fram við þá. Fólk er óttaslegið um það, þó það yrði ekkert endilega gert.“
Guðrún biður hins vegar fólk um að bera birðingu fyrir gömlu fólki.
Stundin leitaði viðbragða Landspítalans og fékk þau svör að þau geti ekki tjáð sig um einstök mál. Upplýsingafulltrúi Landspítalans segir málið þó vera í skoðun. „Málið hefur verið skráð í atvikaskráningarkerfi Landspítala og jafnframt tekið upp hjá starfsmönnum gæðadeildar spítalans sem yfirfara verklag og verkferla í því,“ segir Jón Baldvin Halldórsson, upplýsingafulltrúi spítalans, í svari við fyrirspurn Stundarinnar.
Athugasemdir