Ísland er aðili að alþjóðasamningi sem fjallar um réttinn til húsnæðis, en hefur ekki fullgilt valkvæða bókun sem tryggir einstaklingum möguleikann á að kæra brot á honum til nefndar Sameinuðu þjóðanna. Þingsályktunartillaga um fullgildingu bókunarinnar sofnaði í nefnd á Alþingi í vetur.
Frumkvæðisathugun umboðsmanns Alþingis á húsnæðisvanda utangarðsfólks leiddi í ljós að „almennur og viðvarandi vandi“ sé til staðar, sérstaklega hjá þeim sem glíma við fjölþættan vanda. Í áliti umboðsmanns sem birt var í gær kom fram að Reykjavíkurborg tryggi ekki utangarðsfólki lausn við „bráðum húsnæðisvanda“ í samræmi við lög, stjórnarskrá og fjölþjóðlegar mannréttindareglur.
Vísar umboðsmaður sérstaklega í alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi sem Ísland fullgilti árið 1979. Í samningnum er kveðið á um „rétt sérhvers manns til viðunandi lífsafkomu fyrir hann sjálfan og fjölskyldu hans, þar á meðal viðunandi fæðis, klæða og húsnæðis og sífellt batnandi lífsskilyrða. Aðildarríkin munu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að þessum rétti verði framfylgt.“
Málið sofnaði í nefnd
23 ríki Sameinuðu þjóðanna hafa fullgilt valkvæða bókun við samninginn frá 2009 sem heimilar einstaklingum í ríkjunum að kvarta yfir brotum á honum til réttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Þingmenn Pírata lögðu fram þingsályktunartillögu um fullgildingu bókunarinnar í desember, en málinu hafði ekki verið hleypt úr utanríkismálanefnd við þinglok í vor.
„Ýmis mikilvæg réttindi falla þar undir, meðal annars rétturinn til viðunandi fæðis, klæða og húsnæðis og sífellt batnandi lífsskilyrða,“ sagði í umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna um málið. „Til þess að tryggja slík réttindi er nauðsynlegt að einstaklingum á Íslandi sem telja að brotið sé gegn þeim, verði gert kleift að beina málum sínum til þar til bærrar nefndar Sameinuðu þjóðanna.“
Þá mælti Þroskahjálp einnig með fullgildingu bókunarinnar. „Með því að fullgilda valfrjálsu bókunina verður virkara aðhald með ríkjum um að framfylgja samningnum og að tryggja öllum, þ.m.t. fötluðu fólki, þau efnahaglegu, félagslegu og menningarlegu mannréttdindi sem þeir eiga að njóta, án mismununar,“ sagði í umsögn samtakanna.
Athugasemdir