Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu og Sýslumaðurinn á Suðurlandi skilgreina umgengnistálmanir sem ofbeldi gegn börnum og senda gjarnan barnaverndarnefndum tilkynningar um slíkt ofbeldi eftir uppkvaðningu dagsektarúrskurða.
Hrefna Friðriksdóttir, prófessor í fjölskyldurétti við Háskóla Íslands og einn af höfundum frumvarps sem lá til grundvallar endurskoðun á barnalögum árið 2012, er ósammála túlkun sýslumanns og bendir á að því sé hvergi slegið föstu í lögum eða lögskýringargögnum að tálmun á umgengni jafngildi ofbeldi.
„Það er mjög umdeilanlegt hvort skilgreina eigi tálmun sem ofbeldi og það er sérstaklega umdeilanlegt hvort það sé nokkur þörf á því eða hvort nokkur sé neinu bættari við það,“ segir hún.
Stundin hefur undir höndum tvær tilkynningar sem sýslumannsfulltrúar á höfuðborgarsvæðinu sendu barnaverndarnefnd í fyrra. Í báðum tilvikum er um að ræða mæður sem sýslumannsfulltrúar saka um andlegt ofbeldi gegn börnunum sínum, einvörðungu á þeim grundvelli að kveðinn hafi verið upp dagsektarúrskurður og sýslumaður telji þær hafa tálmað umgengni.
Tilkynningarnar virðast staðlaðar; þær eru orðaðar með svipuðum hætti og einungis tilgreint að „móðir hafi tálmað umgengni barnsins við föður“ og þannig beitt barnið „tilfinningaleg[u]/sálræn[u] ofbeldi“. Konurnar fengu ekki að vita af tilkynningunum fyrr en um ári eftir að þær voru sendar og í hvorugu tilvikinu hafði sýslumannsfulltrúi eða sérfræðingur í málefnum barns rætt við barnið sem átti í hlut.
Athugasemdir