Ásgerður Jóna Flosadóttir, varaborgarfulltrúi Flokks Fólksins, var skipuð í mannréttinda- og lýðræðisráð Reykjavíkurborgar á fyrsta borgarstjórnarfundi nýkjörinnar borgarstjórnar. Ásgerður hefur tengst stjórnmálaflokkum sem gagnrýndir hafa verið um kynþáttafordóma og deilt áróðri gegn múslimum á Facebook-síðu sinni.
Ásgerður greindi frá því árið 2010 í samtali við Vísi að hún hefði mismunað fólki sem leitaði til Fjölskylduhjálpar eftir þjóðerni. „Ástæðan fyrir því að þessi ákvörðun var tekin í dag er sú að að þegar að við fórum að kanna röðina núna áður en við opnuðum að þá voru örugglega hátt í 200 Pólverjar og útlendingar í röðinni hjá okkur. Og eitthvað urðum við að gera og bara menning margra þjóða er þannig að fólk reynir að hjálpa sér sjálft og það sýnir sjálfsbjargarviðleitni og er mætt hérna mjög snemma og allt það og þetta fólk er velkomið, en við tókum Íslendingana fram fyrir, þetta var bæði töluvert um gamalt fólk og síðan ungt fólk með börn og ég tók alla Íslendingana fram fyrir og þeir voru afgreiddir og þeir sem voru hérna í röðinni og þurftu að bíða, ég bað Pólverjana um að bíða á meðan við afgreiddum þennan stóra hóp Íslendinga sem voru þarna alveg út að Miklubraut í röðinni,“ sagði Ásgerður. Forsvarsmenn velferðarsviðs Reykjavíkurborgar sáu sig knúna til að funda með Ásgerði vegna ummælanna og lofaði hún bót og betrun.
Ásgerður var á meðal stofnenda Fjölskylduhjálpar og starfar þar sem formaður. Árið 2013 hjólaði hún í samtökin Amnesty International og sagði að samtökin „skiptu sér af arfa í görðum í útlöndum“. Hún spurði „hvernig getur jafn illa stödd þjóð og okkar hjálpað öðrum þjóðum?“
Ári síðar deildi hún upploginn frétt um nauðgun og morð í Miðausturlöndum á Facebook en fjarlægði færsluna þegar henni var bent á að um fölsun væri að ræða.
Flakkað á milli flokka
Á undanförnum árum hefur Ásgerður látið til sín taka í stjórnmálastarfi og farið úr einum flokknum í annan. Formleg stjórnmálaþátttaka hennar virðist hafa hafist árið 2003 með flokknum Nýtt afl þar sem Jón Magnússon, hæstaréttarlögmaður, var formaður en áður fylgdi hún Sjálfstæðisflokknum að málum.
Nýtt afl var með fyrstu flokkum á Íslandi sem settu takmarkanir á innflytjendur á oddinn. Í stjórnmálaályktun flokksins frá árinu 2003 segir í kafla um flóttamenn og innflytjendur: „Nýtt afl berst fyrir fjölbreyttu íslensku samfélagi sem byggt er á grundvelli mannúðar og kristnum lífsskoðunum. Nýtt afl telur að á grundvelli þeirra sjónarmiða beri okkur að taka á móti þeim einstaklingum sem eru flóttamenn svo fremi sem þeir uppfylla þau skilyrði sem Sameinuðu þjóðirnar setja í því efni. Við móttöku flóttamanna ber að leggja áherslu á að flóttamönum sé veitt viðtaka í þeim löndum sem hafa svipaða menningu og þeir koma frá. [...]“
Í kosningum árið 2003 var Ásgerður Jóna í öðru sæti á lista flokksins í Reykjavíkur suður. Árið 2006 rann Nýtt afl inn í Frjálslynda flokkinn, þar sem hún skipaði annað sæti flokksins við þingkosningar 2007 í Reykjavík norður. Það var einmitt á því tímabili sem umræða um rasíska stefnu flokksins stóð sem hæst. Tveimur árum síðar sagði Ásgerður Jóna sig úr flokknum vegna ósættis við Guðjón Arnar Kristjánsson heitinn sem þá var formaður flokksins.
Fyrir borgarstjórnarkosningarnar árið 2014 gekk hún til liðs við Framsóknarflokkinn og skipaði 22. sæti á lista Framsóknar og flugvallarvina. Hreyfingin fékk mikla fjölmiðlaumfjöllun vegna daðurs við rasisma í aðdraganda kosninganna. Eftir kosningar tók Ásgerður sæti sem áheyrnarfulltrúi í innkauparáði fyrir hönd flokksins.
Í Alþingiskosningunum í fyrra skipaði Ásgerður fjórða sætið á lista Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi suður. Þá var hún í fjórða sæti í síðustu borgarstjórnarkosningum og er varaborgarfulltrúi flokksins á meðan Karl Berndsen er í leyfi.
Skipunum í nefndir og ráð breytt vegna Gústaf Níelssonar
Miklar deilur komu upp á fyrsta borgarstjórnarfundi nýkjörinnar borgarstjórnar í kjölfar þess að Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, upplýsti um að Marta Guðjónsdóttir myndi sitja í nýju umhverfis- og skipulagsráði. Voru starfsmenn borgarinnar sakaðir um að hafa „lekið“ þeim upplýsingum til meirihlutans.
Í kjölfar þess sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri að verklagi við kosningar í ráð og nefndir borgarinnar hefði verið breytt í kjölfar þess að Framsókn og flugvallarvinir buðu fram Gústaf Níelsson til setu í mannréttindaráð.
„Það var hins vegar ekki upplýst í borgarstjórn þá að þessi tiltekni einstaklingur hefði látið falla ummæli opinberlega sem samræmdust illa setu hans í mannréttindaráði Reykjavíkurborgar. Úr þessu var töluvert veður gert, meðal annars í fjölmiðlum, og borgarfulltrúar báðust afsökunar á því að hafa ekki mátt vitað eða ekki vitað af þessum ummælum og þáverandi oddviti Framsóknar og flugvallarvina fór meðal annars í Kastljóssviðtal þar sem hún lét fræg ummæli falla um að hún hefði átt að gúggla hann betur. Ég er bara að rifja þetta upp vegna þess að þetta er ástæðan fyrir því að tekin upp sú vinnuregla að fá nöfn á föstudegi fyrir borgarstjórnarfund þannig að kjörnir fulltrúar í öðrum flokkum gætu kynnt sér fólk og tekið afstöðu til þeirra,“ sagði Dagur meðal annars um málið.
Ekki var kosið í einstök ráð heldur lagðir fram listar meirihlutans og minnihlutans sem samþykktir voru án kosninga. Þannig hlaut Ásgerður Jóna stuðning allra borgarfulltrúa til setu í mannréttinda- og lýðræðisráði. „Það er ekki bara meirihluti eða minnihluti sem með atkvæðum sínum styður einstök nöfn heldur erum við öll að greiða atkvæði um alla sem eru bornir hér fram,“ sagði Dagur á borgarstjórnarfundinum.
Gústaf hafði sætt harðri gagnrýni vegna ummæla sinna í garð múslima, innflytjenda og réttinda samkynhneigðra.
Braut gegn trúnaði skjólstæðing Fjölskylduhjálpar
Nýlega var Ásgerði Jónu stefnt vegna þess að hún nafngreindi skjólstæðing Fjölskylduhjálpar í útvarpsviðtali við Bylgjuna fyrir síðustu jól. „Þetta var hrein og klár hefndaraðgerð. Að vel athuguðu máli þá sá ég að ég yrði að leita réttar míns fyrir sjálfa mig, börnin mín og ekki síður aðra skjólstæðinga Fjölskylduhjálpar sem eru í viðkvæmri stöðu,“ sagði Kolbrún Dögg Arnardóttir í samtali við DV vegna málsins.
Kolbrún hafði leitað til samtakanna fyrir síðustu jól en varð fyrir miklum vonbrigðum með þær matvörur sem hún fékk. Margt var útrunnið og kvartaði Kolbrún vegna þess í færslu í lokuðum Facebook-hópi. Í viðtali við Ásgerði í DV í kjölfar málsins krafðist hún að fá að nafngreina Kolbrúnu en því var hafnað. Síðar fór hún í viðtal í þáttinn Í bítið á Bylgjunni þar sem hún ákvað að nafngreina Kolbrúnu. Aðalmeðferð málsins fer fram í héraðsdómi Reykjavíkur þann 3. september næstkomandi.
Athugasemdir