Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur skipað nýja verðlagsnefnd búvara og mun Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, gegna formennsku. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.
Annar þeirra aðila sem Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, tilnefnir í nefndina er Ásta Björg Pálmadóttir, fráfarandi sveitarstjóri Skagafjarðar og fyrrverandi starfsmaður Fisk Seafood, dótturfélags Kaupfélags Skagfirðinga. Ásmundur skipaði hana einnig í stjórn Íbúðalánasjóðs fyrr á þessu ári.
Samkvæmt búvörulögum skulu tveir fulltrúar vera tilnefndir af Bændasamtökum Íslands, tveir af Samtökum afurðastöðva í mjólkurframleiðslu og tveir af samtökum launþega auk þess sem ráðherra landbúnaðarmála skipar formann verðlagsnefndar.
Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og stjórn Alþýðusambands Íslands nýttu ekki rétt sinn til tilnefningar og féll það því í hlut Ásmundar Einars samkvæmt lögum að tilnefna tvo fulltrúa. Hann valdi annars vegar Ástu Björgu og hins vegar Ágúst Sigurð Óskarsson sem starfað hefur sem ráðgjafi hjá VIRK starfsendurhæfingarsjóði. Áður sátu Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor og Dóra Sif Tynes í nefndinni fyrir hönd velferðarráðuneytisins.
Fulltrúar Bændasamtakanna eru Margrét Gísladóttir og Sindri Sigurgeirsson en fulltrúar Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði eru Rögnvaldur Ólafsson og Jóhanna Hreinsdóttir.
Áður var nefndin svo skipuð:
Kristrún M. Frostadóttir, skipuð af ráðherra
Arnar Árnason, tilnefndur af Bændasamtökum Íslands
Sindri Sigurgeirsson, tilnefndur af Bændasamtökum Íslands
Rögnvaldur Ólafsson, tilnefndur af Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði sf.
Jóhanna Hreinsdóttir, tilnefnd af Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði sf.
Þórólfur Geir Matthíasson, tilnefndur af velferðarráðuneytinu
Dóra Sif Tynes, tilnefnd af velferðarráðuneytinu
Nú er hún svona:
Friðrik Már Baldursson, formaður, tilnefndur af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
Margrét Gísladóttir, tilnefnd af Bændasamtökum Íslands
Sindri Sigurgeirsson, tilnefndur af Bændasamtökum Íslands
Rögnvaldur Ólafsson, tilnefndur af Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði sf.
Jóhanna Hreinsdóttir, tilnefnd af Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði sf.
Ágúst Sigurður Óskarsson, tilnefndur af félags- og jafnréttismálaráðherra
Ásta Björg Pálmadóttir, tilnefnd af félags- og jafnréttismálaráðherra
Athugasemdir