Ekki er hægt að fullyrða að einkarekstur í heilsugæslu bæti meðferð opinbers fjár eða auki gæði þjónustunnar.
Tvær af sautján heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu voru einkareknar árið 2012. Önnur þeirra var í fimmta sæti yfir þær stöðvar sem voru með lægstan kostnað á hvern skráðan einstakling en hin í níunda sæti.
Kostnaður á hvert stöðugildi læknis var hæstur hjá annarri einkareknu stöðinni en enginn marktækur munur var á ánægju þjónustuþega eftir rekstrarformi.
Þetta kemur fram í rannsóknargrein eftir aðjúnkt, prófessor og tvo lækna sem birtist í nýútkomnu tímariti Stjórnmála og stjórnsýslu.
Undanfarin ár hafa íslensk stjórnvöld horft sérstaklega til Svía hvað varðar aukinn einkarekstur á sviði heilsugæsluþjónustu.
„Deila má um ágæti þeirrar fyrirmyndar þar sem Svíar eiga einnig við vandamál að etja hvað varðar mönnun þjónustunnar, gæði hennar og áhrif þeirra fjárhagslegu hvata sem heilbrigðisstarfsfólki þar í landi er ætlað að taka mið af í störfum sínum,“ segir í rannsókninni.
Þá er bent á að munur á þjónustu og aðgengi þjóðfélagshópa í Svíþjóð hafi aukist með vexti einkarekinnar heilsugæslu, andstætt því sem upphaflega var stefnt að.
„Einstaklingar, sem eru betur settir og við betri heilsu, virðast fá meiri þjónustu og koma oftar til læknis en fyrir skipulagsbreytinguna. Þeir sem búa við langvinnan heilsubrest, eru illa settir félagslega eða búa í dreifbýli, fá minni þjónustu. Möguleikar á gæðaeftirliti eru auk þess færri,“ segja höfundar og vitna í skýrslu sænsku ríkisendurskoðunarinnar þessu til stuðnings.
Ekki haft afgerandi áhrif á nýliðun
„Háværustu rökin sem notuð eru fyrir víðtækari einkarekstri í heilsugæslu eru bætt nýliðun. […] Fjölgun einkarekinna heilsugæslustöðva um tvær árið 2017 hefur þó ekki haft afgerandi áhrif á nýliðun heimilislækna, en langflestir lækna nýju einkastöðvanna komu af ríkisreknum stöðvum á höfuðborgarsvæðinu,“ segir jafnframt í greininni.
Fram kemur að mismunur á kostnaði af heilsugæslu einkarekinna og ríkisrekinna starfsstöðva á Íslandi sé ekki afgerandi og viðhorfskannanir greini ekki mun á ánægju þjónustuþega eftir rekstrarformi. Gæta verði sérstaklega að því að aukið vægi einkarekstrar leiði ekki til lakari þjónustu gagnvart þeim sem höllustum fæti standa.
Hér má lesa fræðigreinina í heild, en höfundar hennar eru Héðinn Sigurðsson, læknir á Heilsugæslunni Glæsibæ, Sunna Gestsdóttir, aðjúnkt við Háskóla Íslands, Sigríður Halldórsdóttir, prófessor við Háskólann á Akureyri og Kristján G. Guðmundsson, læknir á Reykjalundi.
Athugasemdir