Ríkislögreglustjóri sendir fimm íslenska lögreglumenn til Rússlands á meðan heimsmeistaramótinu í knattspyrnu stendur. „„Hlutverk lögreglumannanna verður að aðstoða rússnesk yfirvöld við að halda uppi öryggi á meðan á mótinu stendur þannig að upplifun stuðningsmanna geti orðið sem ánægjulegust fyrir alla,“ segir í tilkynningu frá embættinu í dag.
„Tveir lögreglumenn munu starfa í alþjóðlegri stjórnstöð löggæslu í Moskvu en þar eiga sæti fulltrúar frá öllum þeim löndum sem taka þátt í mótinu,“ segir í tilkynningunni. „Þá munu þrír lögreglumenn fylgja liðinu á þá staði sem Ísland keppir á og munu þeir fylgja rússneskum lögreglumönnum við eftirlit í kringum stuðningsmannasvæði og leikvang.“
Hægt verður að fylgjast með embættinu á Facebook, Instagram og Twitter á meðan mótinu stendur og hvetur ríkislögreglustjóri þá sem eru á leið til Rússlands til að gerast áskrifendur. „Í þessum tilgangi mun ríkislögreglustjóri vera virkur á samfélagsmiðlum en þar verður upplýsingum miðlað til stuðningsmanna,“ segir í tilkynningunni. Þá kemur fram að ríkislögreglustjóri verði í nánu og góðu samstarfi við utanríkisráðuneytið, sendiráð Íslands í Moskvu, Tólfuna og KSÍ við að safna og miðla gagnlegum upplýsingum til stuðningsmanna.
Athugasemdir