Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur óskað eftir upplýsingum frá heilbrigðisráðherra um hve margir hafa leitað til læknis undanfarin fimm ár vegna áverka eftir hund.
Í fyrirspurn Björns Levís er spurt hvaða verkferlar gilda þegar einstaklingur leitar til læknis með áverka eftir hund, hvaða upplýsinga er aflað um málsatvik og hvort áverkarnir séu flokkaðir eftir alvarleika.
Nýlega var greint frá því að barn hefði verið flutt á sjúkrahús eftir árás hunds af tegundinni Alaska Malamute. Alls voru 80 spor saumuð í andlit barnsins, en talið er að hjálmur hafi bjargað lífi þess.
Fyrirspurnir Björns Levís hafa vakið talsverða athygli, en hann átti lykilþátt í að kreista fram upplýsingar um akstursgreiðslur og sporslur þingmanna fyrr á árinu.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og fleiri Sjálfstæðismenn hafa gagnrýnt Björn á þeim grundvelli að það sé kostnaðarsamt og tímafrekt fyrir framkvæmdavaldið að taka saman þær upplýsingar sem hann óskar eftir.
Hér má sjá yfirlit yfir þær fyrirspurnir sem Björn hefur lagt fram.
Athugasemdir