Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra, er önnur tveggja íslenskra kvenna á lista Apolitical yfir 100 áhrifamestu einstaklinga í jafnréttismálum fyrir árið 2018. Hún sagði af sér ráðherradómi og hætti í stjórnmálum eftir að hafa verið staðin að því að segja Alþingi margsinnis ósatt um mál er varðaði brot gegn einstæðri móður frá Nígeríu.
Listinn var kynntur í dag, en hin íslenska konan á honum er Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu. Apolitical er alþjóðlegur stefnumótunarvettvangur, en á listanum eru þeir einstaklingar sem þykja hafa skarað fram úr þegar kemur að jafnréttismálum hvort sem er með rannsóknum, stefnumótun, baráttu fyrir málefnum sem tengjast jafnrétti eða öðru. Meðal þeirra eru Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, Malala Yousafzai Nóbelsverðlaunahafi, Emmanuel Macro, forseti Frakklands og Melinda Gates.
Hanna Birna var kosin sem aðalmaður í stjórn Jafnréttissjóðs Íslands á Alþingi í júní 2017 sem fulltrúi sjálfstæðismanna í sjóðnum. Þá er hún formaður framkvæmdastjórnar Women Political Leaders.
Sagði af sér í kjölfar lekamálsins
Hanna Birna Kristjánsdóttir er fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins og gegndi embætti innanríkisráðherra árin 2013 til 2014. Hún sagði af sér ráðherraembætti eftir að fram hafði farið lögreglurannsókn á ráðuneyti hennar og pólitískur aðstoðarmaður dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir brot á þagnarskyldu sem bitnaði á tveimur hælisleitendum frá Nígeríu. Þá hafði ráðherra margsinnis verið staðin að því að segja fjölmiðlum og Alþingi ósatt um málavöxtu. Í ársbyrjun 2015 komst umboðsmaður Alþingis að þeirri niðurstöðu að Hanna Birna hefði brotið lög og misbeitt valdi sínu með því að hafa ítrekuð afskipti af lögreglurannsókninni sem beindist að hennar nánustu aðstoðarmönnum og beita lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu þrýstingi. Hún hætti á Alþingi sumarið 2016.
Athugasemdir