Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lítur ítrekað fram hjá vísbendingum um heimilisofbeldi og kynferðisbrot þegar teknar eru ákvarðanir um umgengni foreldra við börn.
Rannsóknir á réttarframkvæmd í umgengnismálum á fyrsta áratug þessarar aldar sýna að sýslumannsembætti og dómsmálaráðuneytið þvinguðu börn með kerfisbundnum hætti til umgengni við ofbeldismenn.
Allt fram til ársins 2013 var ofbeldi föður gegn móður almennt ekki talið hafa þýðingu við ákvörðun sýslumanns um umgengni föður við börnin sín.
Þá þarf ekki að leita nema örfá ár aftur í tímann til að finna dæmi um að barn sé skikkað til að umgangast foreldri sem hefur verið dæmt fyrir kynferðisbrot gegn því.
Enn í dag kveður sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu upp úrskurði þar sem áhyggjur fagfólks og vísbendingar um kynferðisbrot, jafnvel gögn um framburð barna hjá meðferðaraðilum, eru slegnar út af borðinu sem „tilhæfulausar ásakanir móður“.
Í umgengnisúrskurði sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu kvað upp í fyrra er sú staðreynd að móðir sakaði barnsföður sinn um heimilisofbeldi án þess að það leiddi til ákæru notuð gegn henni til að réttlæta aukna umgengni föðurins við barnið.
Í öðrum úrskurði sem Stundin hefur undir höndum eru vottorð fagfólks og frásagnir barna af meintum kynferðisbrotum föður hunsaðar og kveðinn upp úrskurður um aukna umgengni þeirra við föðurinn undir þeim formerkjum að bæta skuli upp „tengslarof“ sem hafi orðið milli feðgina.
Báðir úrskurðirnir eru kveðnir upp af sýslumannsfulltrúanum Maríu Júlíu Rúnarsdóttur, en hún hefur látið mikið að sér kveða í opinberri umræðu um umgengnismál undanfarin ár. María hefur beitt sér af hörku fyrir því að umgengnistálmanir verði gerðar refsiverðar og er jafnframt einhver ötulasti talsmaður kenningarinnar um svokallað „foreldrafirringarheilkenni“ á Íslandi.
Samkvæmt kenningunni er algengt að mæður, drifnar áfram af vitfirrtu hatri á feðrum, innræti börnum með markvissum hætti ranghugmyndir um að feðurnir hafi misnotað þau. Kenningunni um foreldrafirringu hefur verið hafnað með afgerandi hætti af samtökum geðlækna, sálfræðinga, saksóknara og dómara, enda þykir hún ekki standast vísindalegar kröfur. María Júlía telur hins vegar að foreldrafirring sé alvarlegt vandamál á Íslandi og hefur skrifað meistaraprófsritgerð í lögfræði um hugtakið. Þar rekur hún ýmis einkenni foreldrafirringar sem hún segir að lögfræðingar sem koma að umgengnismálum geti verið vakandi fyrir.
Viðmælendur Stundarinnar, sérfræðingar í barnarétti auk lögfræðinga og lögmanna sem komið hafa að umgengnismálum, segjast ítrekað hafa orðið varir við orðræðu og hugmyndafræði foreldrafirringar í réttarframkvæmd sýslumannsembætta.
„Að mínu mati er ljóst að sýslumaður hefur að einhverju leyti byggt á þessari hugmyndafræði þegar teknar eru ákvarðanir um umgengni við börn eða í málum sem varða álagningu dagsekta,“ segir Sara Pálsdóttir héraðsdómslögmaður í samtali við Stundina. „Mér finnst sýslumaður oft ganga langt, t.d. fara ýmsar krókaleiðir, í þeirri viðleitni að komast að einhverri fyrirframgefinni niðurstöðu sem samræmist kenningunni um foreldrafirringu. Ég veit að þetta hljómar einkennilega, en þetta er einfaldlega það sem ég hef kynnst í mínum störfum. Svona lítur þetta út, því miður.“
Ofbeldi gegn móður hafði „almennt engin áhrif á umgengni“
Niðurstöður sýslumanns í umgengnismálum eru ekki aðgengilegar almenningi. Hins vegar hafa verið framkvæmdar rannsóknir á réttarframkvæmdinni þar sem úrskurða sýslumanna og ráðuneytis er aflað á grundvelli lagaákvæðis um aðgang að gögnum í rannsóknarskyni.
Elísabet Gísladóttir lögfræðingur framkvæmdi slíka rannsókn árið 2009 þegar hún skrifaði meistaraprófsritgerð um áhrif heimilisofbeldis á ákvarðanir í umgengnis- og forsjármálum.
Elísabet greindi úrskurði sýslumannsins í Reykjavík og dómsmálaráðuneytisins í umgengnismálum á tímabilinu 1999 til 2009. Niðurstöðurnar voru sláandi. Dæmin sem fjallað er um hér á eftir byggja á upplýsingum sem fram koma í ritgerð Elísabetar, en Stundin fékk aðgang að ritgerðinni við vinnslu þessarar umfjöllunar. Þess er gætt að engar persónugreinanlegar upplýsingar komi fram.
Árið 2005 gerði móðir kröfu um að umgengni föður við son þeirra yrði hafnað á grundvelli þess hve ofbeldishneigður hann væri. Lögð voru fram gögn frá Kvennaathvarfinu og lögreglu og fram kom að faðir beitti móður líkamlegu og andlegu ofbeldi. Sýslumaður dró það ekki í efa og viðurkenndi að líklega hefði drengurinn skaðast við að horfa upp á ofbeldi gegn móður sinni. Hins vegar fullyrti sýslumaður að „sú togstreita og reiði sem móðir bæri til föður væri ekki síður skaðleg“. Taldi hann að gögnin sem sýndu fram á ofbeldi hefðu ekki þýðingu fyrir úrslit málsins, enda hefði „almennt séð ofbeldi foreldris gagnvart hinu foreldrinu ekki áhrif á umgengni foreldris og barns“. Var því kröfum móðurinnar hafnað og kveðið á um reglulega umgengni drengsins við föður aðra hverja helgi.
Þetta er ekki einstakt og óvenjulegt dæmi, því sams konar sjónarmið, um að ofbeldi föður gegn móður hafi „almennt engin áhrif á umgengni“, koma fram í að minnsta kosti þremur öðrum sýslumannsúrskurðum sem kveðnir voru upp á tímabilinu 1999 til 2009.
Misþyrmdi móður og gæludýri en mátti umgangast barnið
Oftast eru umgengnisúrskurðir sýslumanns staðfestir af dómsmálaráðuneytinu, en þegar það er ekki gert kveður dómsmálaráðuneytið oftar en ekki á um enn rýmri umgengnisrétt en sýslumaður.
Dæmi um slíkt er mál sem kom til kasta sýslumanns og dómsmálaráðuneytisins árin 2003 og 2004. Sýslumaður hafði kveðið á um umgengni barns við föður sinn undir óboðuðu eftirliti barnaverndarnefndar, meðal annars vegna þess að maðurinn hafði sýnt ofbeldisfulla hegðun gagnvart móður og misþyrmt gæludýri barnsins. Dómsmálaráðuneytið komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að fyrst faðirinn hefði aðeins misþyrmt móðurinni og gæludýrinu en ekki barninu væri engin ástæða til að hafa eftirlit með umgengni föðurins við barnið.
Tveir eftirlitsmenn vegna skapofsa föður
Í umgengnisúrskurði sem sýslumaður kvað upp árið 2001 kom skýrt fram að það væri afdráttarlaus vilji tveggja drengja að umgangast ekki föður sinn. Hátterni hans vekti ótta hjá þeim, kvíða og vanlíðan en jafnframt var framkoma föður talin svo ógnandi að barnaverndarnefnd taldi einn eftirlitsaðila ekki duga til þess að hafa umsjón með umgengninni.
Í stað þess að endurskoða umgengnina ákvað sýslumaður í úrskurði sínum að kveða á um að eftirlitsmennirnir yrðu tveir, einn frá barnaverndarnefnd og einn frá sýslumannsembættinu. Fram kom í niðurstöðu sýslumanns að drengirnir virtust engin tilfinningatengsl hafa við föður sinn önnur en neikvæð, enda hefði hann ítrekað misst stjórn á skapi sínu og sært tilfinningar þeirra. Þrátt fyrir þetta taldi sýslumaður mikilvægt að drengirnir héldu sambandi við föður sinn og hittu hann áfram undir eftirliti. Eftirliti tveggja eftirlitsmanna.
Reglubundin umgengni þrátt fyrir merki um ofbeldi
Í umgengnismáli frá 2006 hélt móðir barna því fram að faðirinn hefði ítrekað lagt á sig hendur meðan á sambúð þeirra stóð. Börnin höfðu sömu sögu að segja og sögðust ýmist sjálf hafa orðið fyrir ofbeldi eða orðið vitni að slíku gagnvart systkinum sínum og kærðu sig ekki um umgengni nema þá afar takmarkaða. Þrátt fyrir þetta komst sýslumaður að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt væri að „rækta tilfinningatengsl barnanna við báða foreldra“ með reglubundinni umgengni við föður.
Í öðru máli, tveimur árum síðar, vildu börn alls enga umgengni við föður sinn, greindu frá því að hann hefði beitt þau andlegu og líkamlegu ofbeldi og sýndu ýmis merki þess. Engu að síður taldi sýslumaður að það væri börnunum fyrir bestu að umgangast föður sinn með reglubundnum hætti.
Til eru fleiri sambærileg dæmi, svo sem sýslumannsúrskurður frá 2002 þar sem dóttir manns vildi ekki umgangast hann og hafði kært hann fyrir að misþyrma sér en málið verið fellt niður. Þetta var ekki talin nægileg ástæða til að takmarka umgengni.
Á tímabilinu 1999 til 2009 var aðeins einu sinni kveðinn upp umgengnisúrskurður hjá Sýslumanninum í Reykjavík þar sem fallist var á að umgengni foreldris við barn teldist andstæð hagsmunum barnsins. Í því máli var deilt um umgengni föður við tvær dætur sínar. Gögn málsins, meðal annars álitsgerð frá sálfræðingi, bentu sterklega til þess að faðirinn hefði beitt eldri systurina kynferðisofbeldi. Sýslumaður féllst á að hafna bæri beiðni föður um umgengni við hana, en hins vegar ákvað hann að skikka yngri dótturina til umgengni við föður sinn undir eftirliti barnaverndarnefndar.
Ógnin jafnvel verri en ofbeldið
„Til hvers vorum við eiginlega að segja frá?“ spyr kona á fertugsaldri, sem var barn í þessum aðstæðum rétt fyrir aldamót. Fimm ára greindi hún móður sinni frá því að faðir hennar hefði misnotað hana. Í kjölfarið sótti móðir hennar um skilnað og upphófust þá harðar deilur um umgengni við börnin þar sem faðirinn lagði stöðugt fram kærur og kvartanir til sýslumanns og dómsmálaráðuneytisins. Móðir hennar flúði á endanum með börnin úr landi, en sneri aftur heim nokkrum mánuðum síðar vegna hótana um að á hana yrðu lagðar dagsektir.
„Í mínum huga var þetta versta ofbeldið, hvernig pabbi beitti kerfinu fyrir sig. Eilífar kærur varðandi umgengni, kærur sem áttu sér jafnvel enga stoð í raunveruleikanum því við vorum alltaf að hitta hann, og meira en við vildum. Með hverri kærunni þurftum við alltaf að fara annan hring í gegnum kerfið, eins og við þyrftum alltaf að byrja upp á nýtt sem var mjög streituvaldandi, bæði fyrir okkur og mömmu. Við vorum alltaf að tala við fagaðila sem trúðu okkur aldrei, eða það hafði þá allavega engin áhrif á gang mála. Það var mjög vont, jafnvel verra en misnotkunin. Af því að það er eitt að verða fyrir ofbeldi af hálfu einstaklings, en annað þegar kerfið bregst. Vanmátturinn gagnvart því er svo mikill,“ segir konan.
„Með hverri kærunni þurftum við alltaf
að fara annan hring í gegnum kerfið“
Mál hennar kom ítrekað til kasta Sýslumannsins í Reykjavík fram til ársins 2002, en þá náði hún loksins þeim aldri að fá að stýra því sjálf hvort hún vildi umgangast föður sinn – sem hún kærði sig ekkert um og hafði ekki viljað um langa hríð.
Konan sýndi blaðamanni Stundarinnar nokkur bréf sem hún skrifaði sem barn, bæði til föður síns og félagsráðgjafa, þar sem hún lýsir aðstæðum sínum, samskiptum við föður sinn og segir mjög skýrt að hún vilji ekki hitta hann. Aðallega vegna þess að samskiptin við hann ollu henni miklum kvíða og óöryggi, útskýrir hún fyrir blaðamanni, og ekki síst vegna þess að í heimsóknum hjá honum hafi hann ítrekað reynt að sannfæra hana um að hann hefði aldrei brotið gegn henni. Auk þess greindi yngri systir hennar frá því að faðir þeirra hefði brotið gegn sér í þessum heimsóknum.
Misnotkunin var aldrei kærð til lögreglu og þrátt fyrir að barnaverndarnefnd hafi fengið allar upplýsingar um málið í gegnum sýslumannsembættið var málið aldrei meðhöndlað sem barnaverndarmál, aðeins umgengnismál hjá sýslumanni. „Það trúði okkur enginn,“ segir konan.
Þvinguð til umgengni við föðurinn sem nauðgaði henni
Þau dæmi sem rakin voru hér á undan sýna að umgengnisréttur foreldra er gríðarlega sterkur í íslenskri réttarframkvæmd eins og hún birtist á fyrsta áratug þessarar aldar.
Umgengnisrétturinn er svo sterkur að hann hefur haldist þótt mörg systkini lýsi sig mótfallin því að hitta foreldri vegna ofbeldis og jafnvel þótt sterkar vísbendingar og rökstuddar áhyggjur sérfræðinga af ofbeldi liggi fyrir.
Ofbeldi föður gegn móður eða systkini virðist takmarkaða þýðingu hafa haft í ákvörðunum um umgengni föður og barns, og það sem meira er: til eru dæmi um að Sýslumaðurinn í Reykjavík og dómsmálaráðuneytið skikki barn til að umgangast föður sinn þrátt fyrir að hann hafi verið dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn því.
Í máli frá 2004 lá fyrir að faðir ungrar stúlku hafði verið dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn henni. Hún vildi alls ekki umgangast hann. Engu að síður ákvað sýslumaður að neyða stúlkuna til að umgangast föður sinn og kvalara undir eftirliti. Dómsmálaráðuneytið staðfesti úrskurðinn.
Barnalögum var breytt árið 2012 og skerpt á vernd barna gegn ofbeldi. Var meðal annars lögfest að við ákvörðun umgengni bæri sýslumanni skylda til að meta hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hefðu orðið eða yrðu fyrir ofbeldi. Til grundvallar þessari breytingu lá, samkvæmt greinargerð frumvarpsins, það sjónarmið að „ofbeldi og vanvirðandi háttsemi á heimili barns hefur almennt skaðlegar afleiðingar á andlega og líkamlega heilsu barns og þroska þess í víðum skilningi“.
Hefur lagabreytingin haft afgerandi áhrif á réttarframkvæmd sýslumanns? Í raun er ómögulegt að meta það út frá þeim gögnum sem eru opin og aðgengileg almenningi. Hitt er ljóst af nýlegum sýslumannsúrskurðum í umgengnismálum sem Stundin hefur aflað með óformlegum hætti að enn tíðkast að sýslumaður líti framhjá rökstuddum áhyggjum fagfólks af kynferðisbrotum þegar kveðnir eru upp úrskurðir um umgengni. Þá bendir ýmislegt til þess að kenningin um foreldrafirringarheilkennið lifi góðu lífi hjá embætti sýslumanns. Til marks um þetta eru úrskurðir þar sem mæðrum er beinlínis refsað fyrir að greina frá ofbeldi sem þær segja barnsföður hafa beitt sig eða börnin.
Hafði áhyggjur af heimilisofbeldi
Þriðjudaginn 28. mars í fyrra birtist frétt á vef DV undir fyrirsögninni „Skólastjóri Barnaskóla Hjallastefnunnar meinaði föður að sækja son sinn: „Ég er með sting í maganum, ég er svo hræddur.““ Fréttinni fylgdi myndband sem kærasta föðurins tók af atburðarásinni sem átti sér stað nokkrum dögum áður, þann 24. mars. Þar má sjá föður drengsins rífast við starfsfólk skólans fyrir aftan bíl þar sem barnið situr óttaslegið í aftursætinu. „Ég er svo hræddur. Af hverju er verið að rífast?“ spyr drengurinn meðan faðirinn veifar umgengnissamningi sem hann telur réttlæta gjörðir sínar.
Þegar atvikið átti sér stað var móðir drengsins, Sigrún Sif Jóelsdóttir, stödd á skrifstofu sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Áður hafði hún gert sitt besta til að mæta óskum föðurins um umgengni. Nú var hins vegar runnið upp fyrir henni að sú viðleitni hefði byggt á meðvirkni gagnvart ofbeldi. Hegðun drengsins hafði tekið stakkaskiptum eftir að hann hóf umgengni við föðurinn og Sigrún hafði áhyggjur af því að hann hefði orðið fyrir andlegu ofbeldi. Þess vegna lagði hún fram beiðni til sýslumanns og fór fram á að umgengni föðurins færi eftirleiðis fram undir eftirliti og í öruggu umhverfi.
Athugasemdir