Stéttarfélagið Efling krefst þess að félagsmenn sínir, sem starfi á hjúkrunarheimilum, fái þegar í stað greiddar afturvirkar hækkanir á launum sínum. Samið hafi verið um slíkar hækkanir í september á síðasta ári en þær hafi enn ekki komið til framkvæmda.
Í tilkynningu frá Eflingu er lýst áhyggjum af þeim töfum sem hafi orðið á framkvæmd launaþróunartryggingar af hálfu aðildarfélaga Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Samið hafi verið um afturvirkar launahækkanir 21. september á síðasta ári milli ASÍ, ríkisins og Reykjavíkurborgar. Undir þann samning falli meðal annars stofnanir sem starfi á grundvelli þjónustusamninga við Sjúkratryggingar Íslands.
Hins vegar hafi þessar launahækkanir ekki komið til framkvæmda hjá hjúkrunarheimilum og öðrum fyrirtækjum innan Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Það sé brot á samkomulaginu sem gert var og séu í ofanálag ósanngjarnar gagnvart félagsmönnum Eflingar. Bent er á að starfsfólk á vegum ríkisins, þar með taldir starfsmenn Landspítalans, hafi fengið þessar greiðslur fyrir tveimur mánuðum.
„Efling kallar eftir því að vangoldnar afturvirkar hækkanir og önnur laun sem félagsmenn eiga skýlausan rétt á verði greidd þegar í stað og starfsfólk þeirra fyrirtækja sem um ræðir ekki látið bíða stundinni lengur,“ segir í fréttatilkynningu sem nýr formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir, undirritar.
Athugasemdir