Engar ráðstafanir eru boðaðar í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til að bæta kjör öryrkja heldur eru aukin framlög eingöngu miðuð við fjölgun fólks á örorku. Formaður Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) segir áætlunina ekki innihalda lausnir heldur muni hún viðhalda félagslegum vandamálum, og auka á þau. „Það er ekki verið að græða sár, sem við þurfum svo mjög á að halda, heldur er þetta eins og að setja plástur yfir gröft,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ.
Þetta kemur fram í viðtali sem birt er við Þuríði Hörpu á síðu Öryrkjabandalagsins. Þuríður gagnrýnir að ekki standi til að hækka persónuafslátt þegar kemur að skattkerfisbreytingum heldur að lækka eigi tekjuskattsprósentu. Þeim sem minnst hafi myndi frekar gagnast hækkun persónuafsláttar.
Þuríður Harpa segir enn fremur að afnám krónu á móti krónu skerðinga í örorkubótakerfinu, sem boðað er að verði farið í á tímabilinu 2019-2023, þoli enga bið. Afnema verði skerðingarnar nú þegar því með þeim sé verið að halda öryrkjum föstum í fátæktargilldru, „með kerfisbundnu ofbeldi. Því verður að ljúka strax. Það sjá það allir að það gengur ekki að einum þjóðfélagshópi sé beinlínis refsað fyrir sjálfsbjargarviðleitni,“ segir Þuríður Harpa. Ekki sé eftir neinu að bíða, hægt sé að afnema skerðingarnar strax í dag.
Athugasemdir