Eva Hauksdóttir telur að sonur sinn, Haukur Hilmarsson, gæti verið á lífi en hann var sagður hafa fallið í átökum í Sýrlandi. Fjallað var um fráfall hans í tyrkneskum fjölmiðlum í byrjun mánaðarins en fjölskyldan hefur leitað staðfestinga á þessum fregnum síðan. Þá hefur utanríkisráðuneytið reynt að fá frekari upplýsingar um afdrif Hauks en ekki tekist.
Líkt og Stundin hefur greint frá er talið að Haukur hafi fallið í skot- og sprengjuárás Tyrkja á sjálfstjórnarsvæði Kúrda í Sýrlandi í febrúar síðasliðnum. Haukur hafði á síðasta ári gengið til liðs við YPG, vinstrisinnaða skæruliðasveit and-fasista og anarkista, og barðist gegn hryðjuverkasamtökum ISIS í höfuðvígi þeirra í borginni Raqqa. Í janúar hóf tyrkneski herinn innreið yfir landamærin við Sýrland með það að markmiði að taka borgina Afrin og sigrast á Kúrdum. Hernaðaraðgerðir Tyrkja á svæðinu eru mjög umdeildar og hafa bandarísk yfirvöld meðal annars lýst yfir áhyggjum af þeim. Haukur sneri aftur norður með það að markmiði að verja borgina og þann 6. mars var greint frá því á samfélagsmiðlum að hann hafi fallið í átökunum þann 24. febrúar síðastliðinn.
Í nýrri færslu á heimasíðu sinni, norn.is, segir Eva að fyrir viku hafi hún talið nánast útilokað að sonur hennar væri á lífi, en eftir að hafa farið betur yfir þær upplýsingar sem liggja fyrir þá sé hún ekki lengur viss um neitt.
Færslu hennar má lesa í heild sinni hér að neðan:
Fyrir viku taldi ég nánast útilokað að sonur minn væri á lífi. Ég hélt hreinlega að talsmenn hreyfingarinnar sem hann vann með myndu ekki fullyrða það nema það væri hafið yfir vafa. En þegar nánar er að gætt þá virðast þeirra upplýsingar bara byggðar á sögusögnum og getgátum.

Talsmenn IFB fullyrða að Haukur hafi látist í þessari árás 24. febrúar en þeir geta ekki bent á neitt lík og 17 dögum síðar geta þeir ekki gefið upp tímasetningu.
Talsmenn IFB halda því fram að tilkynningin hafi verið birt vegna þess að tyrkneskir miðlar hefðu þá þegar birt frétt þessa efnis. Þeir geta ekki bent á þá heimild og hugsanlega er þetta misskilningur. En hafi Tyrkir í alvöru birt frétt á undan Kúrdum þá þýðir það einfaldlega að Haukur hefur verið pyntaður til þess að gefa persónuupplýsingar sem hann gefur ekki öðrum en þeim sem hann treystir og því aðeins að góð ástæða sé til. Og ef þeir náðu honum lifandi þá er líklegt að hann sé ennþá á lífi. Hann hefur upplýsingar sem Tyrkir myndu gjarnan vilja komast yfir og hann lætur þær ekki fúslega af hendi.
Talsmenn IFB segja að vitni hafi séð Hauk falla. Fyrst átti hann að hafa fallið fyrir skothríð en nú segja þeir að hann hafi látist þegar sprengju var varpað á svæðið. Vitni hljóta að gera greinarmun á þessu tvennu. Þeir hafa ekki talað við nein vitni milliliðalaust og þeir geta heldur ekki bent mér á neina sjónarvotta. Segja bara að vitni muni hafa samband við mig síðar. Það eru semsagt engar áreiðanlegar heimildir fyrir því að Haukur sé látinn. Það gæti allt eins verið að félagar hans hafi bara misst sjónar á honum og ályktað (réttilega eða ranglega) að hann hafi fallið.
Hversvegna biðu þeir þá í 10 daga með að segja frá þessu?
Ef var enginn vafi á falli hans, af hverju var þá leitað að honum í öllum sjúkrabúðum?
Ef hann varð fyrir sprengjuregni og ekkert vafamál að hann væri látinn, af hverju fóru menn þá inn á svæðið sem verið var að bombardera? Þeir hljóta að hafa farið til að sækja særða.
Ef þetta var svona mikið á hreinu, hversvegna var þá ekki haft samband við mig? Hversvegna biðu þeir þá í 10 daga með að segja frá þessu?
Fólk sem hefur verið í Rojava segir okkur að það sé engin almennileg skýrslugerð eða utanumhald um upplýsingar hjá andspyrnuhreyfingum þar. Ég held að við getum ekki treyst því að forvígismenn IFB og YPG viti neitt meira en við en auk þess er síma- og netsamband við Sýrland lélegt og stopult og tungumálaerfiðleikar í þokkabót. Það eina sem við getum slegið föstu í augnablikinu er að við vitum ekki hvort Haukur er lífs eða liðinn og við verðum að leita með því hugarfari að hann sé á lífi og í lífshættu.
Viðbrögð Tyrkja ekki neikvæð
Fjölskylda Hauks hefur gagnrýnt utanríkisþjónustu Íslands fyrir getuleysi í málinu, en aðstandendur áttu fund með Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra fyrr í vikunni. Guðlaugur Þór sagði í viðtali við Morgunvaktina á Rás 1 í morgun að mál Hauks væri sérstakt og að utanríkisráðuneytið hafi aldrei fengið við svona mál áður. Þá sagði hann að viðbrögð Tyrkja við fyrirspurnum ráðuneytisins hafi „ekki verið neikvæð“.
„Við erum á sama báti og aðrar þjóðir sem eru að leita að sínu fólki. Það hefur verið mjög erfitt. Þetta er átakasvæði. Margir hafa fallið. Við höfum ekki séð árangur ennþá, en við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að svo megi verða,“ sagði Guðlaugur Þór.
Athugasemdir